Aðventutónlist Semballeikarinn Jeremy Joseph ásamt Kammersveit Reykjavíkur á æfingu í Áskirkju í gærkvöldi.
Aðventutónlist Semballeikarinn Jeremy Joseph ásamt Kammersveit Reykjavíkur á æfingu í Áskirkju í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Golli
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Jeremy til liðs við okkur,“ segir Hrafnkell Orri Egilsson, sellóleikari hjá Kammersveit Reykjavíkur, um semballeikarann Jeremy Joseph sem kemur fram á árlegum jólatónleikum sveitarinnar sem haldnir verða í Áskirkju sunnudaginn 20. desember kl. 17. Að sögn Hrafnkels kynntust þeir Joseph fyrir tæpum tuttugu árum þegar þeir voru í tónlistarnámi í Lübeck á sama tíma.

„Jeremy byrjaði að spila á orgel níu ára gamall, en fjórtán ára fékk hann sína fyrstu stöðu sem orgelleikari við dómkirkjuna í Durban í heimalandi sínu,“ segir Hrafnkell en Joseph fæddist í Suður-Afríku. „Hann stundaði nám við Tónlistarháskólann í Lübeck og lauk meistaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Stuttgart. Hann er nú búsettur í Vínarborg þar sem hann er orgelleikari við hina þekktu kirkju Hofburgkapelle,“ segir Hrafnkell og bendir á að Joseph sé semballeikari Wiener Akademie-hljómsveitarinnar auk þess sem hann leiki reglulega með mörgum af helstu hljómsveitum Austurríkis og víðar um heim.

Hlakkar til tónleikanna

„Þar sem ég bý í Vínarborg langaði mig að kynna úrval af þeim verkum sem urðu til þar í borg á barokktímanum,“ segir Joseph, en á efnisskrá tónleikanna eru verk eftir Heinrich I.F. von Biber, Georg Muffat, Johann Heinrich Schmelzer og Johann Sebastian Bach.

„Við spilum tvö verk eftir Bach, annars vegar konsert í a-moll fyrir flautu, fiðlu og sembal og hins vegar Brandenborgarkonsert í D-dúr,“ segir Joseph, en auk hans leika einleik á tónleikunum þær Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari og Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari. Að sögn Joseph hefur hann margoft leikið Brandenborgarkonsertinn á tónleikum. „Það er alltaf jafn gaman að koma aftur að verkinu, því maður sér alltaf eitthvað nýtt auk þess sem hver ný hljómsveit setur mark sitt á verkið,“ segir Joseph og fer fögrum orðum um Kammersveit Reykjavíkur og samstarfið. „Ég hlakka mikið til tónleikanna.“ Í ljósi þess að barokktónlist verður oft fyrir valinu á aðventutónleikum liggur beint við að spyrja hvort það sé eitthvað við barokktónlist sem sé sérlega jólalegt. „Ég hef sjálfur velt þessu mikið fyrir mér og á ekkert einhlítt svar. Ætli það skýrist ekki af því hversu hátíðlegur hljómurinn er í tónlist frá þessum tíma. Svo skýrist þetta sennilega líka af því hversu mikið af kirkjutónlist var samið á barokktímanum sem kallast á við hátíðir á borð við jólin,“ segir Joseph.

Hljóðfærin tvö kallast á

Aðspurður segist Joseph hafa kynnst sembalnum sem hljóðfæri fyrir tilstuðlan orgelsins. „Orgelleikarar leika eðli málsins samkvæmt mikið af barokktónlist og eldri tónlist sem leiðir mann auðveldlega að sembalnum í samleik með öðrum hljóðfæraleikurum, sérstaklega í barokkkammerverkum,“ segir Joseph og bendir á að bæði Bach og Händel hafi verið jafnvígir á orgelið og sembalinn. „Hljóðfærin tvö kallast því mjög vel á,“ segir hann og bendir á að semballeikurinn geri hann að betri orgelleikara og öfugt þótt hljóðfærin tvö kalli á gjörólíka spilatækni.

„En ef ég neyddist til að velja annað hvort hljóðfærið myndi ég samt hiklaust velja orgelið, því maður þarf ekki að ferðast með það með sér og stilla í sífellu,“ segir Joseph kíminn. „Einnig finnst mér orgelið bjóða upp á miklu fjölbreyttari og skemmtilegri hljóðheim. Ég myndi því fyrst og fremst skilgreina mig sem orgelleikara, þótt mér þyki vissulega gaman og gefandi að grípa í sembalinn þess á milli,“ segir Joseph.

Þess má að lokum geta að miðasala er á midi.is og við innganginn.