Stríðsárin „Þessi bók er meiriháttar afrek og hér hefur hreint þrekvirki verið unnið sem er öllum hlutaðeigendum til mikils sóma,“ segir í umsögn. Hér fagnar höfundurinn Páll Baldvin Baldvinsson útgáfu bókarinnar ásamt útgefanda, Jóhanni Páli Valdimarssyni, hjá JPV útgáfu.
Stríðsárin „Þessi bók er meiriháttar afrek og hér hefur hreint þrekvirki verið unnið sem er öllum hlutaðeigendum til mikils sóma,“ segir í umsögn. Hér fagnar höfundurinn Páll Baldvin Baldvinsson útgáfu bókarinnar ásamt útgefanda, Jóhanni Páli Valdimarssyni, hjá JPV útgáfu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Pál Baldvin Baldvinsson. JPV útgáfa, 2015. Innbundin, 1080 bls. Uppsetning bókar og kápa: Jón Ásgeir Hreinsson.

Ég man hve mikill missir mér þótti að því þegar Páll Baldvin Baldvinsson hvarf á braut úr bókmenntaþætti Egils Helgasonar, Kiljunni, en þar fór hann yfir nýútkomnar bækur með vasklegum hætti svo eftir því var tekið og munað. Nú er hinsvegar ljóst að brotthvarf hans var í þágu góðs málstaðar, nefnilega þessa myndarlega uppfletti- og fræðslurits um seinni heimsstyrjöldina og áhrif hennar og birtingu á Íslandi. Þessi bók er meiriháttar afrek og hér hefur hreint þrekvirki verið unnið sem er öllum hlutaðeigendum til mikils sóma.

Flest höfum við, sem fæddumst eftir stríð (ekki síst fólk af minni kynslóð en undirritaður er '73 árgerðin), einhverja mynd í huganum af því hvernig stríðsárin horfðu við heimamönnum. Hingað kom Bretinn, þá Kaninn, í kjölfarið ýmiss konar áhrif og var þar sumt ágætt og annað miður, að því er fólki fannst og finnst enn. Er þá ótalið ástandið. Þessi bók sýnir hinsvegar ljóslega að kynslóðirnar sem fæddust á seinni hluta 20. aldar og þaðan í frá vita ekki baun þegar að er gáð; alltént er það tilfinningin sem grefur um sig þegar þetta hlemmistóra rit, sem vigtar um 4.000 grömm, er skoðað. Stríðsárabók Páls Baldvins er slíkur hafsjór af fróðleik að hægt er að gleyma sér tímunum saman yfir þeirri veröld sem hér var á þessu sjö ára tímabili. Höfundur einskorðar sig nefnilega ekki við eintómt stríð heldur bregður ljósi á tíðarandann með ýmsum fróðlegum fréttamolum og samantektum um menningarmál, launabaráttu kvenna, kosningabaráttu (menn voru enn orðljótari í þá daga og er þá mikið sagt!), berklasjúkdóminn og ótalmargt annað sem hjálpar lesandanum að skilja og fanga stemningu liðins tíma. Bókina prýða ótal myndir og eru sjaldnast færri en fjórar á hverri opnu. Sérstaklega er vert að geta þess hve drjúgum hluta Páll ver til að varpa ljósi á það hversu skammarlega íslensk stjórnvöld stóðu sig þegar kom að því að taka á móti flóttamönnum sem flúðu ofsóknir nasista, og um leið þyngra en tárum taki þegar skoðað er hversu lítið sum okkar hér á landi hafa þokast til einhvers þroska í þeim efnum á þeim 70 árum sem liðin eru frá stríðslokum; sorglega sambærileg staða er nefnilega upp á teningnum nú í dag. Það er tímabært að Ísland geri þennan kafla upp og Stríðsárabók Páls Baldvins slær þar hvergi af heldur listar upp fjölmarga gyðinga sem var neitað hér um var á vondum tímum og var snúið aftur út í opinn dauðann; sögulok þar iðulega „Afdrif ókunn“ eða „Fórst í Auschwitz“.

Fyrir þetta og allt hitt sem þessi glæsilega bók er ber að þakka höfundi og útgefanda. Stríðsárin 1938 - 1945 er bók sem fær allra bestu meðmæli og fullt hús stjarna.

Jón Agnar Ólason

Höf.: Jón Agnar Ólason