Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Búist er við að erfitt verði að mynda meirihlutastjórn á Spáni eftir þingkosningar sem fara fram á sunnudaginn kemur.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Búist er við að erfitt verði að mynda meirihlutastjórn á Spáni eftir þingkosningar sem fara fram á sunnudaginn kemur. Útlit er fyrir að tveir nýir flokkar, Podemos og Ciudadanos, auki fylgi sitt á kostnað gömlu valdaflokkanna tveggja, Þjóðarflokksins og Sósíalistaflokksins.

Spánn hefur annaðhvort verið undir stjórn Sósíalistaflokksins eða Þjóðarflokksins frá árinu 1982. Sósíalistaflokkurinn var við völd á árunum 1982 til 1996 og 2004 til 2011 en Þjóðarflokkurinn 1996 til 2004 og síðustu fjögur árin.

Þjóðarflokkurinn fékk 44,6% atkvæða í þingkosningum árið 2011 en kannanir benda til þess að fylgi hans minnki í 25%. Sósíalistaflokkurinn fékk 28,8% atkvæða fyrir fjórum árum þegar hann galt mikið afhroð og talið er að fylgi hans minnki í 21% á sunnudaginn.

Fylgishrun valdaflokkanna tveggja má rekja til efnahagssamdráttar á Spáni eftir fjármálakreppuna árið 2008. Ríkisstjórn Sósíalistaflokksins þurfti þá að grípa til erfiðra sparnaðaraðgerða og Þjóðarflokkurinn hélt áfram að minnka ríkisútgjöldin eftir að hann komst til valda árið 2011. Atvinnuleysið jókst, var hæst 27% í byrjun ársins 2013, og tugir þúsunda Spánverja misstu íbúð sína vegna vanskila.

Nýir flokkar í sókn

Róttækur vinstriflokkur, Podemos, var stofnaður í byrjun ársins 2014 eftir fjöldamótmæli sem hófust árið 2011 og hann hefur tekið fylgi frá Sósíalistaflokknum. Podemos mældist með allt að 28% fylgi um tíma en nýjustu skoðanakannanir benda til þess að hann fái um 19% í kosningunum.

Mið- og hægriflokkurinn Ciudadanos, sem bauð aðeins fram í Katalóníu þar til í fyrra, hefur einnig verið í mikilli sókn og tekið fylgi frá Sósíalistaflokknum og Þjóðarflokknum. Ciudadanos er nú spáð 18% fylgi.

Fái Þjóðarflokkurinn mest fylgi án þess að fá meirihluta er talið ólíklegt að hann myndi stjórn með sósíalistum. Ljóst er að hann myndar ekki stjórn með Podemos og leiðtogi Ciudadanos hefur sagt að ekki komi til greina að styðja stjórn undir forystu Marianos Rajoy forsætisráðherra. Talið er Ciudadanos ljái máls á því að mynda stjórn með einhverjum öðrum forystumanni Þjóðarflokksins.

Sósíalistaflokkurinn gæti reynt að mynda stjórn með Podemos en ekki er víst að flokkarnir tveir fái meirihluta á þinginu.