[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigrúnu Haraldsdóttur. Bókaútgáfan Hólar, 2015. Innbundin, 70 bls.

Svo máttug / og megn“. Þannig hefst ljóðið um orðin, annað tveggja langra sem ljúka fyrstu ljóðabók Sigrúnar Haraldsdóttur, Hvítir veggir . Þetta er eitt óbundnu ljóðanna í bókinni, býsna vel lukkað og lýsir vel glímu skálds við orð sem stundum tæta upp brjóstið, rífa svöðusár í hjartað, finnast stundum ekki þegar á þarf að halda og stundum liggja þau á tungunni „eins og gráir bingir / úr örfínum salla / sem fjúka burt / við minnstu hreyfingu / raddbandanna“.

Titilljóð bókarinnar, sem henni lýkur á, er enn áhrifaríkara, en þar er dregin upp knöpp, tregafull og vel mótuð mynd af gömlum manni, fölum og stirðum, sem er aleinn eftir að konan var borin burt frá honum og hann „sat einn eftir / og hélt dauðahaldi í rökkrið“.

Þrátt fyrir að þetta sé fyrsta bók Sigrúnar þá er hún vön glímunni við ýmis form ljóðlistarinnar, hefur verið virk í samfélagi skálda í netheimum sem annars staðar og yrkir bæði bundið og óbundið. Í bókinni eru um fjörutíu ljóð, ólík að formi og í nálgun, og líklega er einnig um að ræða safn frá lengri tíma og er það helsti galli bókarinnar hvað hún er laus í sér sem heild. Því í bestu ljóðunum dregur skáldið upp áhrifaríkar myndir og vel mótaðar stemningar, hvort sem ort er bundið eða óbundið. Góð dæmi um áhrifaríkan óbundinn kveðskap eru fyrrnefnd lokaljóð bókarinnar og einnig „Í ringulreiðinni“ þar sem lýst er erfiðum fundi við deyjandi mann sem er ávarpaður:

en þú sem dauðinn hafði þegar merkt

með áberandi lit

lést sem ekkert væri

þó að blátt ljós augna þinna

lýsti upp óttann

sem þar var greyptur

Í mörgum bestu háttbundnu ljóðanna eru dregnar upp fallegar og einlægar náttúrumyndir. „Loksins sé ég ljóma þinn“ er til að mynda undurfallegt kvæði um vorkomuna sem hreinlega kallar á að fallegt lag sé samið við það. Svona er fyrsta erindið af þremur: „Loksins sé ég ljóma þinn / og litlu grænu spor, / finnurðu ekki fögnuð minn / feimna, ljósa vor?“

Í ljóðunum má merkja áhrif víða að, eins og eðlilegt er þegar um fyrstu bók er að ræða, en þar sem skáldinu tekst best upp finnur hún sína eigin rödd. Og þetta er líka áhugaverð bók sem sýnir að ljóð Sigrúnar eiga fullt erindi við lesendur.

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson