Erkiunglingar Arnór og Óli Gunnar leiða lesendur inn í hugarheim unglinganna, hversdagslíf þeirra og drauma.
Erkiunglingar Arnór og Óli Gunnar leiða lesendur inn í hugarheim unglinganna, hversdagslíf þeirra og drauma. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leitin að tilgangi unglingsins eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og unglingana Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson er skrifuð fyrir unglinga og alla sem þekkja unglinga og hafa áhuga á undarlegri hegðun þeirra, ástum, sorgum og sigrum.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Frumleg, fyndin, furðuleg og forvitnileg. Eflaust póstmódernísk líka ef farið væri út í fræðilegar skilgreiningar. Fullorðnum, sem fyrir löngu eru búnir að gleyma hvernig var að vera unglingur, kann að þykja bókin Leitin að tilgangi unglingsins eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og unglingana Arnór Björnsson og Óla Gunnar Gunnarsson, fremur ruglingsleg til að byrja með. Þar ægi öllu saman; meginmáli, mismunandi leturtýpum, textainnskotum, neðanmáls útskýringum, teikningum, skissum og guð má vita hverju – sem er alveg laukrétt.

Um miðbik bókarinnar er svo hlé. Eins og í bíói. Í hléinu fara höfundarnir ungu yfir stöðu mála – trúlega með Bryndísi á bak við tjöldin, ósýnilega en allt um lykjandi ritstjóranum.

„Við eigum öll jafnmikið í bókinni, en Bryndís var líka í því hlutverki að beisla hugarflug okkar,“ upplýsa þeir Arnór og Óli Gunnar, þegar þeir gefa sér tíma í smáspjall. Þessa dagana eru þeir önnum kafnir að lesa upp úr bókinni úti um allar trissur.

Með verðlaunahöfundi

Bryndís er margverðlaunaður rithöfundur, sem í fyrra fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Hafnarfjarðarbrandarann í flokki barna- og ungmennabóka, svo fátt eitt sé talið. Arnór og Óli Gunnar eru 17 og 16 ára nemendur í Verslunarskóla Íslands, Arnór á alþjóðabraut og Óli Gunnar á nýstofnaðri lista- og nýsköpunarbraut. Fyrir tveimur árum unnu þeir sér til frægðar að skrifa leikritið Unglingurinn, sem sett var upp í Gaflaraleikhúsinu með þeim sjálfum í hlutverki unglingsins.

Hvers vegna fóruð þið að skrifa bók með Bryndísi?

„Hún hringdi, hrósaði okkur fyrir leikritið og spurði síðan hvernig gengi með bókina. Við sögðumst ekki vera að skrifa neina bók og þá stakk hún upp á að við þrjú skrifuðum hana saman út frá leikritinu. Innblásnir sem við vorum eftir starfið í leikhúsinu, sögðum við „sorrý“, og að við vildum skapa eitthvað nýtt,“ svara þeir félagar.

Og það varð úr. Í bókinni er aðeins ein sena úr leikritinu, annað frumsamið.

Marglaga hugarheimur

Þegar lesendur hafa áttað sig á marglaga uppbyggingu bókarinnar eru þeir óðar komnir inn í hugarheim unglinganna, þeirra Arnórs og Óla Gunnars. Og söguhetjunnar, Stefáns, sem er nokkurs konar alter egó eða samnefnari fyrir þá báða. Eða alla unglinga, hversdagslíf þeirra og drauma. Höfundarnir eru með ýmsar leiðbeiningar fyrir Stefán og blanda sér inn í öll hans mál í milliköflum og innskotum. Þeir breyta aðstæðum hans og viðbrögðum ef þeim svo sýnist. Í rauninni segir bókin frá Arnóri og Óla Gunnari að skrifa söguna um Stefán. Á stundum er (fullorðinn) lesandinn alveg gáttaður.

Er markmiðið að koma Stefáni til manns?

„Klárlega að þroskast. Mér finnst svo sorglegt að segja að koma einhverjum til manns, því þá er hann ekki lengur unglingur. Ritgreddan réði för, við vildum bara skrifa góða sögu,“ segir Arnór. Óli Gunnar hváir. „Ritgredda?“ „Að vera graður í að rita, eða þannig,“ útskýrir samhöfundurinn.

„Við fórum eftir uppskrift af fullkominni sögu. Reyndum okkar besta til að gera Stefán óhamingjusaman og lögðum á hann ýmsar raunir svo við gætum gert hann hamingjusaman í lokin. Góðar sögur fjalla um þrautagöngu og sigra. Rauði þráðurinn hjá okkur er að unglingar eigi ekki alltaf að hugsa um hvað öðrum finnst, heldur taka sjálfstæðar ákvarðanir og standa með sjálfum sér og vinum sínum,“ segja þeir.

Tókst ykkur að koma Stefáni til slíks þroska?

„Að lokum, já, á mjög dramatískan hátt,“ svara þeir leyndardómsfullir.

Nenna varla að verða fullorðnir

Hvað finnst ykkur erfiðast við að vera unglingur?

„Það að allir koma fram við mann eins og barn, en búast við að maður bregðist við og hegði sér eins og fullorðinn.“ Óli Gunnar er með þetta á hreinu.

„Prófin“, dæsir Arnór, nýbúinn með bóklega bílprófið og jólaprófin í skólanum. „Líka að kveðja spangirnar, þær voru mitt bling – skart meina ég. Spangirnar táknuðu sakleysi mitt. Erfiðir tímar fóru í hönd þegar þær voru fjarlægðar.“

„Mér finnst erfitt að hafa æ minni þolinmæði og verða pirraður á alls konar seinagangi. Ég nenni til dæmis ekki að lesa eða vera í fermingarveislum,“ bætir Óli Gunnar við. Þeir segjast eiginlega ekki nenna að fullorðnast.

En hvað er skemmtilegast við að vera unglingur?

„Á bókakynningum og -upplestrum er litið á okkur sem svona krúttaraleg krúsímúsí af því við erum yngstir og þá er gaman að koma á óvart, flippa. Það er ógeðslega gaman að flippa. Flippið fylgir unglingunum, en svo dvínar flippið innra með manni þegar maður fullorðnast.“ Þeir virðast svolítið daprir í bragði við tilhugsunina.

Hvenær verðið þið fullorðnir?

„Þegar ég er fertugur og á jeppling. Í mínum huga er pabbi minn dæmigerður fullorðinn maður og hann keyrir jeppling. Ætli ég verði ekki unglingur til tvítugs,“ segir Arnór.

„Sumir halda bara áfram að vera unglingar,“ segir Óli Gunnar. „Maður verður fullorðinn þegar maður byrjar að elda fyrir sjálfan sig í stað þess kannski að panta sér pitsu. Um leið og maður segir: „Nei, takk, ég ætla að fara í Bónus að kaupa hakk, þegar vinirnir stinga upp á pitsu“ þá er maður raunverulega orðinn fullorðinn.“

Algjörlega óþolandi

Arnór er hjartanlega sammála. Hann hlakkar meira til að verða gamall en fertugur – svona 60 til 65 ára afi sem segir barnabörnum sínum sögur. Óli Gunnar er heldur ekki frá því að lífið sé alveg ágætt svona undir lokin. „Fólk á að lifa í núinu,“ mælir hann spakur.

Hvað finnst ykkur leiðinlegast við unglinga?

„Fikt með snjallsíma og stöðugt snapp [snapchat] alls staðar af öllu og öllum. Algjörlega óþolandi,“ svara þeir einum rómi. Erkiunglingarnir virðast vera að fullorðnast. „Líka þegar þeir nota of mikið af emoji, kannski fimm broskalla og jafnmörg hjörtu, alveg eins og þeir elski mann út af lífinu. Og stælar, unglingar með stæla eru líka leiðinlegir, en við þekkjum ekki marga svoleiðis. Við erum umkringdir góðum unglingum.“

Þeir þola ekki tillitsleysi, frekju og dónaskap fullorðinna í garð unglinga. „Unglingum er kennt að bera virðingu fyrir fullorðnum, sem er ekki hægt ef virðingin er ekki gagnkvæm. Fullorðnir eiga ekki að missa kúlið. Allir eiga bara að vera góðir við alla.“

Hvort haldið þið að sé skemmtilegra að vera unglingur núna eða þegar foreldrar ykkar voru ungir?

„Örugglega í gamla daga því núna eru unglingar svo mikið á netinu. Níundi áratugurinn er ábyggilega sambærilegur við gullöld Rómverja nema auðvitað nútímalegri,“ segir Óli Gunnar og bætir við að þá hafi allt verið náttúrulegra og unglingarnir ekki alltaf í þessum „djöflatækjum“ sem snjallsímarnir eru. Annars telja þeir félagar að unglingum bjóðist fleiri tækifæri nú en þá og sífellt sé verið að koma þeim á framfæri á ungmennahátíðum og víðar. „Fullorðnir eru að fatta að unglingarnir eru framtíðin,“ eins og þeir orða það.

Hvernig er að vera frægur unglingur?

„Við erum ekkert frægir, kannski þekktir í Hafnarfirði þegar við vorum með leikritið og núna rétt á meðan við erum úti um allt að kynna bókina. Síðan hverfum við alveg og enginn man eftir okkur lengur.“

Unglingarnir eru farnir að ókyrrast. Þegar þeir eru spurðir hvað þeir ætli að verða þegar þeir eru orðnir fullorðnir svara þeir stutt og laggott: „Eitthvað skapandi og skemmtilegt.“ Viðtalið er búið. Hjúkkett...

Unglingurinn sem var á fjölunum

Unglingurinn kom fyrst fram á fjölunum í Gaflaraleikhúsinu haustið 2013. Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson skrifuðu verkið, þá 15 og 14 ára, og fóru létt með að túlka Unglinginn. Leikritið var sýnt fjörutíu sinnum fyrir fullu húsi auk þess sem það var síðar sýnt á RÚV og gefið út á DVD.

Gagnrýnendur lofsungu frammistöðu ungu leikaranna sem og verkið, sem þeir sögðu þrælfyndið og upplýsandi. „Snillingar“ sagði einn um tvímenningana og að þeir vissu nákvæmlega hvað þeir væru að tala um þegar þeir lýstu lífi unglingsins.

Unglingurinn hlaut tvær tilnefningar til Grímuverðlaunanna 2014 og var sýndur í Wroclaw í Póllandi, á barna- og ungmennahátíð í Tianjin í Kína og á fjórum stöðum í Noregi.