Rósa Jónsdóttir fæddist á Ártúni á Langanesi 13. október árið 1942. Hún lést á Vífilsstöðum 9. nóvember 2015.

Hún var dóttir þeirra heiðurshjóna Rósu Gunnlaugsdóttur húsfreyju og Jóns Ólasonar bónda. Hún var áttunda í röð alsystkinanna en alls urðu þau systkinin tólf. Kári er sonur Jóns og Helgu systur Rósu Gunnlaugsdóttur, Sturla Einarsson er yngsti bróðirinn og átti Rósa Gunnlaugsdóttir hann með bróður Jóns, Einari Ólasyni. Systkinaröðin er því svona: Kári Jónsson, Daníel, Þorbjörg, Þórunn, Steinunn, Gunnlaugur, Pálmi Dagur, Óli, Rósa, Marinó, Jóni Óli og Sturla Einarsson. Þau Þórunn, Daníel, Gunnlaugur og Þorbjörg eru látin en hin lifa.

Rósa gekk í grunnskólann á Þórshöfn, vann á Álafossi, Hressingarskálanum Austurstræti og starfaði í um 40 ár á Bifreiðastöð Reykjavíkur, BSR.

Útför Rósu fór fram 19. nóvember 2015.

Mamma fluttist ung að heiman, 15 ára gömul. Fór að vinna á Álafossi og vann næturvaktir. Þar vann hún í um tvö ár og líkaði vel. Sá eitt sinn draug, mann sem unnið hafði lengi á Álafossi, hún kippti sér lítið upp við það og horfði á hann lengi þar sem hann sat við vinnu sína og hvarf. Mamma var þarna alein og óhrædd. Seinna vann hún á Hressingarskálanum í Austurstræti, einnig í bakaríi fyrir Dennu frænku. Hún tók meirapróf, og um tíma vann hún á gröfu. Hún byrjaði að vinna á BSR árið 1972 á símanum og vann í 40 ár. Bílstjórarnir báru óttablandna virðingu fyrir henni og henni líkaði vel í vinnunni. Þar til fyrir stuttu var bara talstöð. Eitt sinn var hún að senda bíl í túr og sá átti að sækja konu á tiltekinn stað. Bílstjórinn tilkynnti svo eftir smástund að þetta væri plat, engin kæmi konan. Þó nokkru síðar kallar mamma í þennan sama bílstjóra aftur og segir: „Konan sem kom EKKI gleymdi vettlingunum sínum í bílnum.“ Mamma var hrekkjótt. Tengdafaðir mömmu til margra ára var Steindór Jónsson (1908-2010), hann bjó heima á Kársnesbrautinni, mikill kommúnisti og kenndi henni allt um stjórnmál. Þegar kosningar voru í nánd tók hún auglýsingableðlana frá Sjálfstæðisflokknum, skrifaði nafnið hans á þá og bætti við „kæri flokksbróðir og félagi“. Hún hló þegar hann blótaði: „Déllans árans afætustéttin.“

Hún var alltaf mjög brún því hún var alltaf í sundi. Oft var hún spurð hvort hún hefði verið á Spáni. Hún synti mikið og var vel á sig komin vegna þess, krakkarnir fóru oft með henni. Mamma hafði einkar næmt auga fyrir fallegum hlutum og handbragði, var listræn og vissi mikið um list og listamenn. Hún saumaði út í gardínur, rúmföt og dúka. Hún kom auga á það sem fallegt er á undan öðrum þótt sjónin væri slæm. Hún hafði gaman af því að versla, var ekki nísk og kenndi mér það að það er enginn sparnaður fólginn í því að kaupa drasl. Líf hennar var ekki dans á rósum, því miður. Ef hún reiddist þá varð hún mjög reið og hafði ævinlega rétt fyrir sér. Augasteinninn hennar var Steinrós Birta sem hún kallaði silfurengilinn. Fyrir hana fór hún meira að segja margar ferðir í rennibrautina í sundlauginni, þær eyddu heilu dögunum saman og gistu, miklar vinkonur. Kormáki Mána þótti afar vænt um ömmu sína og í nokkur ár kom hún vikulega og bakaði fyrir hann pönnukökur. Hann hjálpaði henni við að gera fínt, þó svo að hann skildi engan veginn hvað væri að þurrka af eða til hvers það eiginlega væri, það kæmi hvort eð er ryk aftur. Undir það síðasta var mamma orðin gleymin og illa áttuð. Hún tók samt eftir ef maður kom í einhverju nýju eða fallegu. Hún saknaði vinkvenna sinna og vina og gladdist þegar hún var heimsótt á spítalann.

Elsku mamma mín, takk fyrir allt. Allt sem þú gerðir með mér og fyrir mig í gegnum árin. Þú huggaðir mig og fræddir, kenndir mér og kættir.

Þín dóttir,

Gríma Sóley.

Fósturlandsins Freyja,

fagra vanadís,

móðir, kona, meyja,

meðtak lof og prís.

Blessað sé þitt blíða

bros og gullið tár.

Þú ert lands og lýða

ljós í þúsund ár.

(Matt. Joch.)

Hörpu þinnar, ljúfa lag

lengi finn í muna.

Því ég minnist þín í dag,

þökk fyrir kynninguna.

(Á.K.)

Elsku Gríma mín, Steinrós og Kormákur. Ég sendi ykkur mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir.

Tíminn flýgur áfram og hann

teymir mig á eftir sér

og ekki fæ ég miklu ráðið um það

hvert hann fer.

En ég vona bara að hann hugsi

svolítið hlýlega til mín

og leiði mig á endanum aftur til

þín.

Ég gaf þér forðum keðju úr gulli

um hálsinn þinn,

svo gleymdir þú mér ekki í dagsins amstri nokkurt sinn.

Í augunum þínum svörtu horfði

ég á sjálfan mig um hríð

og ég vonaði að ég fengi bara að

vera þar alla tíð.

Það er margt sem angrar en ekki

er það þó biðin

Því ég sé það fyrst á rykinu, hve

langur tími er liðinn.

Og ég skrifa þar eitthvað með

fingrinum sem skiptir öllu máli.

Því að nóttin mín er dimm og ein

og dagurinn á báli.

Já, og andlitið þitt málað. Hve ég

man það alltaf skýrt,

augnlínur og bleikar varir, brosið

svo hýrt.

Jú ég veit vel, að ókeypis er allt

það sem er best,

en svo þarf ég að greiða dýru

verði það sem er verst.

Ég sakna þín í birtingu að hafa

þig ekki við hlið mér

og ég sakna þín á daginn þegar

sólin brosir við mér.

Og ég sakna þín á kvöldin þegar

dimman dettur á.

En ég sakna þín mest á nóttunni

er svipirnir fara á stjá.

Svo lít ég upp og sé við erum

saman þarna tvær

stjörnur á blárri festingunni sem

færast nær og nær.

Ég man þig þegar augu mín eru

opin, hverja stund.

En þegar ég nú legg þau aftur fer

ég á þinn fund.

(Megas)

Kveðja,

Vilma.