Reykjavíkurflugvöllur Borgarstjóri segir að niðurstaðan breyti engu um áform um að loka þriðju flugbrautinni og uppbyggingu á Hlíðarenda.
Reykjavíkurflugvöllur Borgarstjóri segir að niðurstaðan breyti engu um áform um að loka þriðju flugbrautinni og uppbyggingu á Hlíðarenda. — Morgunblaðið/RAX
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Úrskurðarnefnd umhverfis- og skipulagsmála komst að þeirri niðurstöðu í gær að deiliskipulag á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni sem samþykkt var á síðasta ári væri ógilt vegna formgalla í málsmeðferð.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Úrskurðarnefnd umhverfis- og skipulagsmála komst að þeirri niðurstöðu í gær að deiliskipulag á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni sem samþykkt var á síðasta ári væri ógilt vegna formgalla í málsmeðferð.

Fyrir vikið er því enn í gildi deiliskipulag sem samþykkt var árið 1986. Gerir það m.a. ráð fyrir því að þriðja brautin verði áfram á flugvellinum.

Óbreytt áform

Kærendur í málinu voru eigendur flugskýla á Fluggörðum á flugvallarsvæðinu. Töldu þeir að ekki hefði verið haft samráð við þá áður en deiliskipulagið var samþykkt auk þess sem málsmeðferð hefði verið ófullnægjandi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að niðurstaða úrskurðarnefndar breyti engu um uppbyggingaráform á Hlíðarendasvæði. „Þetta varðar deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar en ekki þeirrar uppbyggingar sem er í gangi á Hlíðarendasvæði [...] Þetta breytir því ekki að innanríkisráðuneytið þarf að leggja niður þriðju flugbrautina,“ segir Dagur aðspurður um málið.

Að hans sögn mun þetta í mesta lagi þýða nokkurra vikna bið á því að deiliskipulag verði samþykkt að nýju. „Það fer eftir því hvort það nægi að leggja þetta fyrir fund og samþykkja aftur eða eftir því hvort við þurfum að endurauglýsa skipulagið,“ segir Dagur.

Ekki áhrif á málarekstur

Eins og fram hefur komið stendur borgin í málarekstri við innanríkisráðuneytið vegna ákvörðunar Ólafar Nordal innanríkisráðherra um að synja borginni um að loka NA/SV flugbraut á Reykjavíkurflugvelli sem einnig hefur verið nefnd neyðarbraut. Telur Dagur að niðurstaða nefndarinnar muni ekki hafa áhrif á málareksturinn þar sem hann snýr að þeim samningi sem gerður var árið 2013 þar sem innanríkisráðuneytið skuldbatt sig til að koma að lokun flugbrautarinnar. Mun þessi niðurstaða nefndarinnar því ekki hafa bein áhrif á dómsmálið.

Engar framkvæmdir í gangi

Að sögn Hjálmars Sveinssonar, formanns umhverfis- og skipulagsnefndar, eru engar framkvæmdir í gangi á Hlíðarendasvæðinu á meðan beðið er niðurstöðu úr dómsmálinu. Hann segir niðurstöðu nefndarinnar hafa komið nokkuð á óvart. „Það var búið að ræða um þann möguleika að þetta gæti farið svona vegna þeirra formgalla sem búið var að benda á. Við hlítum að sjálfsögðu þessari niðurstöðu,“ segir Hjálmar. Hann segir fordæmi fyrir því að fundið hafi verið að gerð deiliskipulags, t.a.m. við venjulega íbúðarreiti en þá hafi deiliskipulag einfaldlega verið gert að nýju. Slíkt taki ekki langan tíma þar sem búið er að vinna alla vinnuna að baki því.

Breyttu greinargerð

Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar var deiliskipulagið fellt úr gildi vegna breytinga sem gerðar voru á greinargerð eftir að afgreiðslu borgarstjórnar á deiliskipulagstillögu lauk.

Hið kærða deiliskipulag hafði staðreyndavillu innanborðs þegar það var samþykkt í borgarstjórn 10. mars 2014. Skipulagsfulltrúi breytti þeirri staðreyndavillu eftir ábendingar frá Isavia og athugasemdir um tvö atriði í umsögn Reykjavíkurborgar.

Málið fór hins vegar aldrei aftur fyrir borgarstjórn eins og stjórnsýslulög gera ráð fyrir. Fyrir vikið þótti deiliskipulagið sem samþykkt var í júní á síðasta ári vera háð slíkum annmörkum að rétt væri að fella það úr gildi.