[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Nýr veruleiki kallar á breyttar áherslur. Sú var tíðin að veitingahús, hótel og aðrir þjónustustaðir fyrir ferðafólk voru lokaðir um hátíðarnar, enda þótti sjálfsagt að starfsfólk fengi frí.

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Nýr veruleiki kallar á breyttar áherslur. Sú var tíðin að veitingahús, hótel og aðrir þjónustustaðir fyrir ferðafólk voru lokaðir um hátíðarnar, enda þótti sjálfsagt að starfsfólk fengi frí. En nú skorar Ísland sem viðkomustaður ferðamanna árið um hring og þar eru jól og áramót engin undantekning. Hvergi liggja fyrir neinar tölur um nákvæman fjölda erlendra jólagesta á landinu um hátíðarnar. Hundruð segja sumir en aðrir telja fjöldann munu rokka á þúsundum.

Flugið stopp á jóladag

Næstu daga verður loftbrú til og frá Íslandi. Margir Íslendingar fara utan til að heimsækja vini og ættingja og fara utan með vélum sem flytja erlenda túrista hingað til lands. „Það verður þétt umferð um Keflavíkurflugvöll alveg fram á aðfangadag. Svo stoppar allt á jóladag, en svo fer flugið aftur af stað á öðrum degi jóla,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

Þegar til Reykjavíkur kemur þarf fólk gistingu. Á vegum Íslandshótela verða fimm hótel í Reykjavík opin um áramót, svo sem Fosshótel við Þórunnartún og Grandhótel við Sigtún sem eru einhver allra stærstu hótelin í borginni. „Jólin eru vel bókuð en áramótin líta enn betur út. Þau eru æ vinsælli ferðamannatími,“ segir Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, í samtali við Morgunblaðið.

Á aðfangadagskvöld verður opið á allmörgum matsöluhúsum í Reykjavík, þá einkum veitingastöðum hótelanna. Flestir þessara staða verða svo opnaðir á 2. í jólum, eins og sést á vefsetrinu vitisreykjavik.is .

Rútan á daglegri áætlun

Svo þarf fólk að gera sér eitthvað til dundurs og bregða undir sig betri fætinum. Margir ætla til dæmis í skoðunarferðir með rútubílum, enda hefur jólatíminn sinn sjarma fyrir ferðamenn. Glitrandi seríur eru úti um allt og næturhimni er stríðsdans norðurljósanna. „Við tökum það rólega á aðfangadagskvöld, en svo fer allt á snúning á jóladag. Þá erum við, samkvæmt venju, með þessa venjulegu áætlun okkar, svo sem Þingvelli, Gullfoss og Geysi, Suðurströndina og Bláa lónið. Bókaðir farþegar skipta hundruðum,“ segir Einar Bárðarson, rekstrarstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Reykjavík Excursions.

Hve margir erlendir ferðamenn verða á Ísland um jól og áramót er hluti af þeirri ævintýralegu fjölgun erlendra túrista á landinu bláa síðustu misserin. Nærri 82 þúsund ferðamenn flugu frá Íslandi í gegnum Leifsstöð í nóvember síðastliðnum. Það eru 20.700 fleiri en í nóvember á síðasta ári. Aukningin nemur 34,1% milli ára. Þá var fjölgunin í nóvember 49,3% Fjöldi erlendra ferðmanna er þar með kominn í um 1,2 milljónir frá síðustu áramótum. Bretar eru ríflega þriðjungur þessa og að Bandaríkjamönnum meðtöldum eru þetta 55% þeirra túrista sem landið sækja heim.

Raunar er má einu gilda hver litið er á fjölgun ferðamanna á Íslendinga; Bretarnir hafa alls staðar vinninginn. Íslendingar geta til dæmis fundið þetta vel þegar gengið er um Laugaveginn í Reykjavík eða þá farið í sunnudagsbíltúr austur á Þingvelli; alls staðar eru Bretar. Og það eru væntanlega margir af því þjóðerni sem leggja leið sína til Ísland um jólin og ármótin; hátíðirnar sem nú eru að ganga í garð.

Fólk vill trúna og tónlistina

„Það væri tilvalið fyrir Íslendinga að bjóða útlendingum heim um jólin og leyfa þeim að kynnast jólahaldinu. Hér er nefnilega meira lagt í þessa hátíð en víðast hvar á Vesturlöndum,“ segir sr. Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur í Hallgrímskirkju.

Fjöldi útlendinga sækir guðsþjónustur í íslenskum kirkjum um jólin. Kirkjan á Skólavörðuholti tekur um 700 manns í sæti og á aðfangadagskvöld eru útlendingar um sjöund þess. „Fólk vill rækta trúna og heyra tónlistina,“ segir presturinn.