[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorsteinn fæddist í Reykjavík 18.12. 1940 og ólst upp í Vesturbænum.

Þorsteinn fæddist í Reykjavík 18.12. 1940 og ólst upp í Vesturbænum. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1960, arkitektaprófi frá Arkitektaskóla konunglega listaháskólans í Kaupmannahöfn 1966, stundaði framhaldsnám í byggingafornleifafræði við Franska fornleifaskólann í Aþenu 1963-64, var í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1959 og Leiklistarskóla LR 1967-68 og lauk leikaraprófi 1968.

Þorsteinn starfaði á teiknistofu Ráðhússins í Reykjavík, vann við byggingarannsóknir á vegum Þjóðminjasafns Dana í Kaupmannahöfn 1966, var arkitekt á Teiknistofu Inger og Johannes Exner í Kaupmannahöfn 1966-67 og hefur verið arkitekt í Reykjavík frá 1967.

Þorsteinn var kennari í Iðnskólanum í Reykjavík og Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1967-71, var leikari hjá LR öðru hvoru frá 1957 og fastráðinn þar frá 1971, hefur leikstýrt fjölda leikrita á vegum LR og víðar og var leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur ásamt Stefáni Baldurssyni 1980-83.

Meðal arkitektastarfa Þorsteins má nefna könnun gamalla bygginga og varðveislugildi þeirra í Reykjavík í samvinnu við Hörð Ágústsson og sams konar könnun fyrir Akureyrarbæ, endursmíð Viðeyjarstofu og -kirkju, lokaáfangi í samvinnu við Leif Blumenstein, 1969-88; endurreisn Hóladómkirkju í samvinnu við Ríkharð Kristjánsson, 1987-90; endurreisn Bessastaðastofu og húsakosts forsetaembættisins, endurbætur á Stjórnarráðshúsinu, hvort tveggja í samvinnu við húsameistara ríkisins, 1989 og 1997; endursmíð Nesstofu og aðlögun útihúsa að nýrri notkun, 1978-92 og 2004-2008, og endurbætur á Dómkirkjunni í Reykjavík í áföngum á árabilinu 1977-2000, hönnun Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal og breytingar á Gljúfrasteini, húsi skáldsins. Hann endurbyggði Sjóminjasafn Austurlands í Gömlu-Búð á Eskifirði og annaðist endurbætur á Eyrarlandsstofu á Akureyri og á Sauðárkrókskirkju, Fríkirkjunni í Hafnarfirði og Hafnarfjarðarkirkju, ásamt fjölda annarra friðaðra kirkna. Þá teiknaði hann Borgarleikhúsið í samvinnu við arkitektana Guðmund Kr. Guðmundsson og Ólaf Sigurðsson.

Á kafi í skrifum um kirkjur

Þorsteinn er félagi í Arkitektafélagi Íslands frá 1967, í stjórn Leikfélags Reykjavíkur 1969-77 og 1992-95, í Húsafriðunarnefnd 1970-74 og 1979-90 var formaður hennar frá 1995-2010, sat í stjórn Bandalags íslenskra listamanna 1974-79, í stjórn Norræna menningarmálasjóðsins 1997-2004 og á sæti í fulltrúaráði Norðurbryggju í Kaupmannahöfn.

Þorsteinn hefur skrifað í blöð og tímarit um byggingarlist og varðveislu gamalla bygginga, er höfundur bóka um Viðeyjarstofu og -kirkju, Hóladómkirkju og Auðunarstofu, og er ásamt Jóni Torfasyni ritstjóri ritraðar um kirkjur Íslands: „Þetta er feikilega mikil samantekt og þýðingarmikið verk. Nú eru komin út 25 bindi en þrjú eru enn eftir. Svo kom út bók eftir mig í sumar, Hóladómkirkjur til forna. Ég hef því verið á kafi í ritstörfum um kirkjur.“

Þorsteinn hlaut Stefaníustjakann 1972 fyrir leikstjórn, menningarverðlaun DV í byggingarlist 1989 fyrir endurreisn Viðeyjarstofu og var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1991.

Alltaf leikari inn við beinið

Þrátt fyrir alla þína vinnu við húsfriðun, ritstörf og rannsóknir hefurðu ekki sagt skilið við leiklistina.

„Nei. Ég lék aðalhlutverkið í Fást á dögunum, sem Gísli Örn Garðarsson setti upp og fór sigurför um byggð ból. Það var samvinnuverkefni Borgarleikhússins og Vesturports, upphaflega sýnt í Borgarleikhúsinu en síðan leikið á ensku sex sinnum í viku á annan mánuð í London, síðan í Þýskalandi, St. Pétursborg, í Suður-Kóreu og í New York.

Ég leik svo í sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð hjá Baltasar Kormáki sem er 10 þátta röð og byrjar á RÚV 27. desmber nk., en þeir þættir verða sýndir á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og í Bandaríkjunum. En ég lék síðast á sviði í leikritinu Hótel Volkswagen eftir Jón Gnarr í leikstjórn Benedikts Erlingssonar.“

En áhugamál?

„Það er sameiginlegt áhugamál okkar hjóna að skoða málverkasöfn. Við erum nýkomin úr 14 daga ferð til Flórens þar sem við nutum alls þess sem borgin býður upp á af byggingum, höggmyndum og myndlist. Það var í einu orði sagt himneskt! Og ekki má gleyma boltanum, við förum saman á alla heimaleiki fjórir nágrannar og hrópum í kór: Áfram KR.“

Fjölskylda

Þorsteinn kvæntist 22.10. 1967 Valgerði Dan, f. 1.12. 1944, leikara. Hún er dóttir Jóns Dan Jónssonar, rithöfundar og fyrrv. ríkisféhirðis í Reykjavík, og k.h., Halldóru Elíasdóttur húsfreyju.

Börn Þorsteins og Valgerðar eru Jón Gunnar, f. 27.7. 1970, bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefs HÍ, eiginkona Helga Brá Árnadóttir; Bjarni Þór, f. 24.2. 1975, tölvunarfræðingur hjá Marel, eiginkona Hróðný Mjöll Tryggvadóttir; Elín Jóna, f. 8.3. 1981, verkfræðingur hjá verktakafyrirtækinu Turner í New York, eiginmaður Dave Sherman.

Synir Þorsteins frá því áður eru Höskuldur, f. 11.8. 1966, vélvirki og búfræðingur og bústjóri á tilraunabúinu á Stóra-Ármóti í Flóa, eiginkona Hilda Pálmadóttir, og Þorsteinn, f. 14.11. 1966, efnafræðingur í London, eiginkona Barbara Þorsteinsson. Barnabörnin eru 14.

Systir Þorsteins er Hrafnhildur Thorsteinsson, f. 22.10. 1935, lögfræðingur í Danmörku.

Foreldrar Þorsteins voru Gunnar Þ. Þorsteinsson, f. 28.9. 1903, d. 18.11. 1978, hrl. og bæjarfulltrúi í Reykjavík, og k.h., Jóna Marta Guðmundsdóttir, f. 20.10. 1904, d. 10.10. 1977, húsfreyja.