Sigurjón Þorbergsson
Sigurjón Þorbergsson
Eftir Sigurjón Þorbergsson: "Þessi ríkisstjórn virðist staðráðin í að hafa skuli tvær þjóðir í landinu, menn skuli ekki vera jafnir fyrir lögunum."

Fyrir rúmlega ári síðan ritaði ég grein hér í blaðið með yfirskriftinni „Hverjir geta ekki greitt matarskattinn?“ Þar færði ég fram rök gegn hækkun virðisauka á matvæli sem fátækt fólk gæti ekki greitt og sagði m. a. „Eitthvert bull um mótvægisaðgerðir til að vernda fátækustu heimilin í landinu fyrir skattheimtunni eru svo hvorki fugl né fiskur.“ Ég verð að viðurkenna að þegar ég skrifaði þau orð óraði mig ekki fyrir hversu sannspár ég væri, ég gerði nefnilega ráð fyrir að einhver lágmarks heilindi hlytu að búa að baki umræðunni sem m.a. gekk út á hækkun húsaleigubóta sem mundu bæta stöðu hinna fátækari. Núna, meira en ári síðar, er engin slík hækkun komin en stjórnin situr enn – rúin trausti.

En ég gerði fleira í grein minni. Ég gaf stjórninni það vafasama virðingarheiti: Hlöðukálfastjórnin. Með því er ég að vísa til þess að þeir menn sem leiða þessa stjórn eru auðugir menn en virðast gjörsneiddir öllum skilningi á kjörum venjulegs fólks, að maður nú ekki tali um þurftamenn, þessa fátæku sem frelsarinn sagði að yrðu ávallt meðal okkar. Þurftamenn og óþurfta hafast misjafnt að. Þeir fyrrnefndu hafa aldrei sett þessa þjóð á kaldan klaka, en það hafa hinir svo sannarlega gert með græðgi sinni. Þjóðin öll saup seyðið af hruninu. Stjórnvöld í landinu hafa nógu lengi elt á röndum óþurftamennina sem nú gista reyndar sumir hverjir fangelsi landsins þótt nokkrir gangi enn lausir. Enginn þeirra sýnir neina iðrun, allir höfðu þeir rétt fyrir sér og engin mistök voru gerð. Ekki einu sinni óviljandi. Sama viðhorf er að mestu ráðandi meðal atvinnustjórnmálamanna. Virðingin fyrir þeim sem eiga og allt mega er svo ráðandi í samfélaginu ennþá, þrátt fyrir hrunið, að mönnum sem við völd sitja, hlöðukálfunum. finnst sjálfsagt að traðka á bótamönnum, bræðrum sínum.

Eitt það nýjasta er að æðstu embættismenn og stjórnmálamenn og dómarar reyndar líka fá með úrskurði kjararáðs afturvirka launahækkun marga mánuði en það á ekki að gilda fyrir fátæka fólkið í landinu. Ó, nei, svo langt niður nær réttlæti þessara manna ekki. Sjálfur fjármálaráðherrann segir líka fullum fetum að bótaþegar eigi ekki að fylgja lágmarkslaunum í landinu, hvað sem lögin segja. Þessi ríkisstjórn virðist staðráðin í að hafa skuli tvær þjóðir í landinu, menn skuli ekki vera jafnir fyrir lögunum. Svo setur óneitanlega að manni nokkurn hroll þegar hugsað er til þess hvað dómarar kunna að úrskurða þegar mál koma loks til þeirra kasta. Þar að auki eiga stjórnmálamennirnir gjarna síðasta orðið þegar allt um þrýtur, eins og dæmin sanna.

Nýlega var upp grafinn gamall brimvarnargarður í húsgrunni hér í borg. Það skipti engum togum að þarna kom upp mál sem snerti rækilega við öðrum hlöðukálfinum þótt vandséð sé hvað brimgarðar koma húsfriðun við. En það er sem sé gæluverkefni á ferð. Og nú eru skyndilega til nægir peningar þótt þá skorti svo átakanlega þegar þurftamenn eiga í hlut. Þetta heitir víst að hafa rétta forgangsröð! Ég veit ekki hvar í fjárlögunum þær verða, milljónafjárveitingarnar í endurgerða varnargarðinn. En þær verða þar jafn örugglega og fúlgurnar sem úthlutað er til stjórnmálaflokkanna á hverju ári af almannafé. Ekki er að efa það.

En er virkilega enginn sá maður meðal nánustu samstarfsmanna ráðherrans sem er með óbrenglaða skynsemi og réttlætiskennd – ég er að tala um einhvern samstarfsmann, ekki ráðherrann – mann sem segir eitthvað sem svo við Sigmund: „Svona gerir maður ekki, elsku besti hlöðukálfurinn minn. Þú eyðir ekki almannafé í úrelta grjóthleðslu en sveltir fátæka í leiðinni. Nei, svona gerir maður ekki, Sigmundur minn.“

Endurgerða grjóthleðslan, þótt úr henni verði, mun ekki verja stjórnina falli. En hún verður minnisvarði um rangláta ríkisstjórn.

Höfundur er ellilífeyrisþegi, og fyrrverandi formaður Leigjendasamtakanna.