Aumingjauppeldi var í umræðunni í fannferginu á dögunum og tilfinningaklám tröllríður mörgum íslenskum fjölmiðlum og þá sérstaklega um helgar.

Aumingjauppeldi var í umræðunni í fannferginu á dögunum og tilfinningaklám tröllríður mörgum íslenskum fjölmiðlum og þá sérstaklega um helgar. Þekktur geðlæknir hæddist fyrir skömmu að viðmælendum á þessu sviði, vitnaði í systur sína og kallaði þá aumingja vikunnar, sem hefðu ekkert gott til málanna að leggja, þótt góður harmur seldi eflaust bæði bækur og blöð.

Víkverji tekur undir með geðlækninum. Vikulega birtast viðtöl við fólk sem hefur frelsast, ýmist af víndrykkju, eiturlyfjum, nauðgunum og þar fram eftir götunum. Það hefur náð áttum eftir að hafa komið út úr skápnum, fundið rétta lífsförunautinn eða réttu fjölina á lífsins gangi. Jafnvel verið barið til manns. Þetta fólk þarf að létta á sér eða er beðið um það, skrifar gjarnan bók og fær að kynna hana í spjallþáttum. Útkoman vill verða sama rullan hjá sama fólkinu í sömu miðlunum.

Fyrir nokkru keypti Víkverji heimilispakka hjá Símanum og horfir þar á þáttaraðir hjá Skjá einum, þegar Luther á ekki hug hans allan á norsku, dönsku eða sænsku ríkisstöðinni. Þær fylgja allar í heimilispakkanum. Hann er til dæmis nýbúinn að horfa á aðra þáttaröðina af 24 Hours, þar sem Kiefer Sutherland fer á kostum.

Sutherland er góður en enginn kemst með tærnar þar sem James Bond er með hælana og því fer vel á því að Spectre, nýjasta Bond-myndin, skuli enn vera sýnd í kvikmyndahúsum.

Daniel Craig er besti Bondinn í sögunni og erfitt verður að feta í fótspor hans. Sennilega vonlaust. Einhverjir hafa verið nefndir til sögunnar en slíkar bollaleggingar eru ekki tímabærar því Daniel Craig er með samning um að leika að minnsta kosti í einni mynd til viðbótar, að því er Víkverji best veit. Hvorki aumingjaskapur né tilfinningaklám á þeim bænum.