Pétur Bjarnason
Pétur Bjarnason
Eftir Pétur Bjarnason: "Ég vil frekar hafa embættismann af gamla taginu á Bessastöðum en forseta af því tagi sem Ólafur Ragnar hefur verið á síðustu árum."

Ólafur Ragnar hefur gefið út afdráttarlausa yfirlýsingu um að hann ætli ekki að gefa kost á sér í komandi forsetakosningum. Vonandi má taka mark á þeirri yfirlýsingu. Skoðanir um feril Ólafs Ragnars sem forseta eru á ýmsa vegu. En eitt eru allir sammála um. Hann hefur breytt eðli embættisins. Hann hefur fórnað sameiningarhlutverki forsetans en hefur í staðinn sett á oddinn pólitísk verkefni sem hafa átt hug hans og er engin ástæða til þess að efast um að hann telji þau þjóð sinni fyrir bestu. Þessi vegferð forsetans hefur hins vegar verið umdeild. Í fyrsta lagi held ég að stór hluti þjóðarinnar sakni þess að eiga ekki lengur forseta, sem gæti sameinað þjóðina að baki sér á stundum sem á því er þörf. Í öðru lagi hafa margir löglærðir efasemdir um að Ólafur Ragnar hafi í raun haft heimildir til þess að teygja embættisfærslur sínar á þennan veg. Og í þriðja lagi er það óneitanlega afskaplega ankannaleg stjórnsýsla að vera með lýðræðislega kjörin stjórnvöld – Alþingi og ríkisstjórn – til þess að móta stefnu þjóðfélagsins í öllum helstu málum og svo annað stjórnvald – forsetann – sem tekur að sér að útfæra og tala fyrir þeim þætti þjóðfélagsmála, sem hann hefur sérstakan áhuga á. Einkum er þetta til baga þegar um er að ræða málefni á sviði utanríkismála og samskipta við önnur ríki. Í raun er það ótrúlegt að Ólafi Ragnari hafi haldist þessi hegðun svona lengi uppi og hljóta utanríkisráðherrarnir Össur Skarphéðinsson og Gunnar Bragi Sveinsson að verða að lokum átaldir fyrir þá linku sem þeir hafa sýnt í því að hafa hemil á stórmennskutilburðum Ólafs Ragnars og að halda á lofti hvaða verkefni tilheyra löglega kjörnum stjórnvöldum en ekki öðrum.

Nú má vel vera að sólóspil Ólafs Ragnars og valdatafl hafi í einhverjum tilfellum leitt af sér eitthvað gott fyrir Ísland. Hinu verður ekki horft framhjá að hann hefur ruglað hlutverkum sínum. Hann telur greinilega að helstu valdamenn heimsins, forsetar og forsætisráðherrar, séu kollegar sínir. Hann talar við þá eins og jafningja og kemur með sínar skoðanir og lausnir á vandamálum heimsmála. Hann hefur jafnvel verið svo upptekinn við verkefni af slíku tagi að hann hefur þurft að afboða sig á eða stytta viðveru á heimboðum vegna hátíðlegra viðburða hjá frændþjóðum, sem hafa þó verið talin meðal embættisskyldna forsetans. Þessi blekkingarleikur Ólafs Ragnars með hlutverk sitt sem forseti hefur auðvitað blekkt suma ráðamenn, en það verður samt að gera því skóna að flestir erlendir ráðamenn, eða í það minnsta margir og allir sem tilheyra þjóðum sem hafa sendiráð hér á landi, viti hvaða umboð hann í raun og veru hefur og líti undan kurteislega og brosi svo í kampinn þegar færri sjái til. En eftir sem áður hafa einhverjir látið blekkjast og mér finnst það vera verkefni sem blasir við að leiðrétta það sem aflaga hefur farið og marka hlutverk sitjandi forseta betur en hefur verið og koma því til fyrri virðingar. Eða hvað?

Það er að heyra á umræðunni að margir séu ánægðir með þessa breytingu á eðli forsetaembættisins, sem Ólafur Ragnar hefur gert. Og það er verðugt umræðuefni hvort breyta ætti embættinu með formlegum hætti í þá veru. En þá þarf að breyta því sem breyta þarf. Allir hljóta að vera sammála um að ekki gengur að hafa eina ríkisstjórn, sem talar okkar máli út á við og innanlands, og svo aðra hjáróma rödd, sem tilheyrir öðru stjórnvaldi í landinu og sem velur sér sjálf baráttusvið. Í kosningum til Alþingis kjósa menn sér þingmenn sem síðan mynda ríkisstjórn í samræmi við þau pólitísku sjónarmið sem ríkja í landinu. Ef forsetinn á að gegna því hlutverki að tala fyrir sínum pólitísku sjónarmiðum í nafni þjóðarinnar þarf að kjósa hann á slíkum forsendum. Hann ætti í raun að vera í forsæti fyrir ríkisstjórn og hafa embættismenn sér til ráðgjafar í einstökum málum. Það þarf með öðrum orðum að breyta embættinu með formlegum hætti í þá veru að taka þátt í alvöru í pólitík og veita honum faglega aðstoð til þess að gegna slíku hlutverki. Hinn kosturinn er að breyta embættinu aftur til fyrri vegar. Gera forsetann aftur að veislustjóra eins og forsetinn orðaði það svo smekklega í kosningabaráttunni síðast.

Ég er ekki í vafa um að ég vil frekar hafa embættismann af gamla taginu á Bessastöðum, sem allir gæti kallað sinn forseta eins og Vigdísi og Kristján, heldur en forseta af því tagi sem Ólafur Ragnar hefur verið á síðustu árum.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og áhugamaður um þjóðfélagsmál.