Lyf Umboðsmaður Alþingis leggur til að ríkið fari að lögum.
Lyf Umboðsmaður Alþingis leggur til að ríkið fari að lögum. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Ríkið má ekki taka til sín hluta af þeim afslætti sem apótek vilja veita beint til sjúklinga.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Ríkið má ekki taka til sín hluta af þeim afslætti sem apótek vilja veita beint til sjúklinga. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis og staðfestir þar með kvörtun lyfsalans Hauks Ingasonar og eiganda Garðsapóteks sem hann lagði fram árið 2013. Í álitinu segir m.a. „[E]kki yrði annað ráðið en að framkvæmdin væri sú að þegar lyfjabúð veitti afslátt af lyfi væri greiðsluþátttökuverði breytt til samræmis við afsláttinn, þ.e. áður en gjald sjúkratrygginga og gjald sjúkratryggðs væri reiknað út. Af því leiddi að greiðsluþátttökuverðið væri annað þegar lyfjabúð veitti afslátt en ef enginn afsláttur væri veittur.“

Í áliti umboðsmanns segir ennfremur: „Það eru því tilmæli mín til heilbrigðisráðherra að gerðar verði breytingar á þessari framkvæmd þannig að hún samrýmist gildandi lögum.“

Haukur er ánægður með álitið sem hann segir að staðfesti það sem hann hafi haldið fram. „Þetta á eftir að skila sér til sjúklinga því við viljum geta veitt þeim afsláttinn en ekki ríkinu. Samkeppnin á einnig eftir að verða meiri,“ segir Haukur.

Eins og áður segir lagði Haukur fram kvörtun árið 2013 þar sem hann kvartaði undan því að ákvæði reglugerðar um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði ætti sér ekki lagastoð. Þegar umboðsmaður kannaði málið þá var ákvæðið fellt úr gildi. Hins vegar taldi Haukur þá og telur enn að framkvæmd sjúkratrygginga hefði ekki verið breytt og því ekki lagastoð fyrir henni.

Haukur segir boltann vera núna hjá yfirvöldum. „Sjúkratryggingar hafa ekki breytt sínum reiknireglum þrátt fyrir að ákvæði hafi breyst um áramótin 2014/2015,“ segir Haukur. Hann bendir á að þegar lyf er afgreitt í apótekinu er það tengt við skrá sjúkratrygginga sem gefur upp hvernig greiðsluskiptingunni er háttað.

Hann segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við velferðarráðuneyti og sjúkratryggingar Íslands síðustu ár.

„Þau svör sem ég hef fengið í gegnum tíðina eru alveg ótrúleg og hafa einkennst af miklum útúrsnúningum og yfirgangi,“ segir Haukur.

Engin breyting

„Nei,“ segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, spurður hvort stofnunin muni breyta framkvæmdinni í framhaldi af áliti umboðsmanns Alþingis.

„Í mínum huga er enginn vafi á því að við erum að framkvæma þetta eftir settum reglum. Þá horfum við fyrst og fremst til reglugerðarinnar og einnig til lagaákvæðanna um sjúkratryggingar sem reglugerðin hvílir á. Umboðsmaður horfir á lyfjalögin en ekki sjúkratryggingalögin. Það kann vel að vera að það þurfi að samræma hugtakanotkun sbr. ábendingar umboðsmanns en það er hafið yfir vafa í mínum huga að það ber að fara eftir lögunum um sjúkratryggingar við útreikning á lyfjakostnaði og greiðsluþátttöku SÍ m.a. vegna þess að lagaákvæðin þar eru nýrri en í lyfjalögunum,“ segir Steingrímur.

Engin svör vegna fyrirspurnar um málið höfðu borist frá heilbrigðisráðherra þegar blaðið fór í prentun í gær.