[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Nýja fangelsið á Hólmsheiði mun rúma 56 fanga. Þar verða 24 fastir starfsmenn til að byrja með, eða jafnmargir og voru alls í Kvennafangelsinu í Kópavogi og Hegningarhúsinu.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Nýja fangelsið á Hólmsheiði mun rúma 56 fanga. Þar verða 24 fastir starfsmenn til að byrja með, eða jafnmargir og voru alls í Kvennafangelsinu í Kópavogi og Hegningarhúsinu. Flestir starfsmenn verða fangaverðir en einnig skrifstofufólk, forstöðumaður, fangaflutningamenn o.fl., að sögn Páls E. Winkel, forstjóra Fangelsismálastofnunar ríkisins.

Aðskildar deildir

Í fangelsinu verða sérstök rými fyrir einangrunarfanga og gæsluvarðhaldsfanga, einnig verða þar rými fyrir afplánunarfanga. Fullkomin aðstaða verður fyrir konur í langtímaafplánun. Í fangelsinu verður m.a. sérstök heimsóknaríbúð þar sem aðstandendur, t.d. börn fanga, geta dvalið hjá aðstandanda sínum í heimsóknum. Í hverri álmu og á hverri deild verður eldunaraðstaða. Gert er ráð fyrir því að fangar sjái um sig að töluverðu leyti hvað varðar eldamennsku og þrif. Einnig verður aðstaða fyrir fanga til að stunda nám auk aðstöðu fyrir heilbrigðisstarfsfólk. „Þetta nútímalega fangelsi verður algjör bylting fyrir okkur. Það er mikil ástæða til að gleðjast yfir þessu,“ sagði Páll.

Miðlæg varðstofa

Skipulag fangelsisins sést vel á loftmyndunum. Í miðjunni er hringlaga þak sem stendur upp úr húsinu. Þar verður miðlæg varðstofa fyrir allt fangelsið. Frá henni verður stutt í allar álmur og það tryggir skamman viðbragðstíma. Fangaverðir verða alltaf á vakt í varðstofunni.

Í álmunum verða mismunandi fangadeildir. Þær eru aðskildar og hefur hver og ein sitt útivistarsvæði. Þannig verður algjör aðskilnaður fanga í sama fangelsi mögulegur í fyrsta sinn á Íslandi.

Við enda hverrar álmu eða deildar er útivistarsvæði og inni í álmunum eru einnig minni opin rými fyrir útivist fanga. Búið er að leggja net yfir opna rýmið á álmunni, sem sést til hægri, með. Þar verða fjórir aðskildir útivistargarðar fyrir einangrunarfanga.

Útivistarsvæði fanga verða afgirt og utan um fangelsið verður stór girðing og önnur minni afmarkar fangelsislóðina, þannig að þreföld girðing skilur fangana frá frelsinu. Í upphafi var ákveðið að hafa ekki múr utan um fangelsið heldur girðingar.