Steinþór Jónsson
Steinþór Jónsson
Eftir Steinþór Jónsson: "Eftir góðan árangur síðustu ár þar sem við nálguðumst takmark núllsýnar í banaslysum óðfluga fáum við nú skell sem við verðum að bregðast við."

Um áramót er við hæfi að líta um öxl yfir farinn veg, læra af reynslunni og gera betur þar sem við á. Á árinu 2015 létust 16 einstaklingar í umferðinni á Íslandi á móti aðeins fjórum árið 2014. Þetta er fjórföldun á milli ára sem er engan veginn ásættanlegt þótt árið 2014 hafi vissulega verið það besta um árabil. Hvert líf skiptir svo miklu máli. Eftir góðan árangur síðustu tíu ár þar sem við nálguðumst takmark núllsýnar í banaslysum í umferðinni óðfluga fáum við nú skell sem við verðum að bregðast við. Stór þáttur í þessum umskiptum eru erlendir ferðamenn sem streyma nú til landsins sem aldrei fyrr. Sex erlendir ökumenn voru valdir að banaslysi á síðasta ári en ökumenn óvanir íslenskum aðstæðum eru nú stór áhættuþáttur fyrir aðra vegfarendur, hvort sem þeir eru akandi, hjólandi eða gangandi.

Mín tilfinning er sú að áherslur á umferðaröryggi hafi því miður verið minna áberandi á síðasta ári heldur en um langt árabil. Um leið fjölgar ökumönnum verulega svo ekki verður lengur hjá því komist að setja aukið fjármagn í uppbyggingu vega, forvarnir og umferðaráróður. Við þurfum að stórbæta leiðbeiningar og upplýsingagjöf til erlendra ökumanna. Safe Travel-verkefnið er stórt skref til að bæta ástandið en það þarf að koma þeim upplýsingum betur til skila og með ákveðnari hætti.

Sem hótelstjóri Hótels Keflavíkur í 30 ár í umhverfi þar sem flestir ferðamenn hefja sína för sína út á íslenska vegi verður maður var við mikla annmarka í upplýsingagjöf til ökumanna bílaleigubifreiða. Þeir annmarkar hafa frekar aukist því við stækkun markaðarins hefur afhending bílaleigubifreiða orðið vélrænni en áður. Sem betur fer lánaðist okkur að tvöfalda Reykjanesbrautina áður en þessi mikla fjölgun ferðamanna hófst fyrir alvöru því annars værum við í dag í miklum vandamálum. Önnur samskonar verkefni bíða okkar og verða að leysast áður en vandamálin verða óviðráðanleg.

Stjórnstöð ferðamála var kynnt á árinu sem samráðsvettvangur Samtaka ferðaþjónustunnar og stjórnvalda og er ætlað að ráðast í verkefni til að efla íslenska ferðaþjónustu enn frekar. Þeirri áskorun sem fjölgun ferðamanna er verður að fylgja jafn mikilvæg áskorun um fækkun umferðarslysa hjá þessum gestum okkar. Núllsýn á þeim vettvangi er þar mjög verðugt verkefni og myndi vera stór þáttur í markaðssetningu og framtíðarsýn Íslands sem ferðamannalands. Öryggi er með mikilvægari þáttum sem ferðamenn leita eftir þegar ákvörðunarstaðir með fjölskyldu og vinum er valdir svo ekki sé minnst á stærri viðburði svo sem fundi og ráðstefnur.

Sem formaður í Félagi íslenskra bifreiðaeigenda hef ég einnig mikla ábyrgð og hef ákveðið að gera mitt besta með stjórn og starfsfólki félagsins til að koma þessum alvarlega veruleika á framfæri. FÍB hefur unnið gott starf síðustu misseri, en á hverjum degi þurfum við líka að upplýsa stjórnvöld, ferðaþjónustuna sem og bílaleigur um ábyrgð sína í þessum efnum. Hver bílaleiga getur m.a. sett sér sitt eigið markmið um að enginn leigutaka hennar lendi í óhöppum og slysum og nýtt svo þann árangur í sínu markaðsstarfi í framtíðinni.

Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í mars 2010 var því lýst yfir að tímabilið 2011 til 2020 yrði „Decade of Action for Road Safety“ eða áratugur aðgerða í umferðaröryggismálum. FIA, alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga, eru einn helsti samtarfsaðili SÞ í þessu mikilvæga verkefni. Settar voru fram ákveðnar tillögur um aðgerðir til að fækka banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni. Á ráðstefnunni Decade of Action í Brasilíu í nóvember sl. var farið yfir árangurinn á miðju tímabili. Öllum samgönguráðherrum heimsins var boðið til ráðstefnunnar til að fræðast og kynna markmið sinna ríkja um fækkun slysa í umferðinni. Glögglega mátti sjá að Ísland hefur náð töluverðum árangri í umferðaröryggismálum. En í þessum málum er ekki ástæða til annars en að stefna beint á fyrsta sætið og þeim árangri getum við náð ef vilji er fyrir hendi.

Það er einlæg ósk mín að við munum halda áfram að bjóða aukinn fjölda ferðamanna velkominn til landsins. En ég vil sjá sama fjölda snúa heilan heim með frásagnir af öryggi Íslands, þjónustulund, ævintýrum og fegurð landsins.

Gleðilegt nýtt ár.

Höfundur er formaður FÍB og hótelstjóri.