Frosti Gíslason segir nýlega rannsókn hafa sýnt að Fab Lab hvetur frumkvöðla og ungt fólk til dáða. Fab Lab ryður mörgum hindrunum úr vegi.
Frosti Gíslason segir nýlega rannsókn hafa sýnt að Fab Lab hvetur frumkvöðla og ungt fólk til dáða. Fab Lab ryður mörgum hindrunum úr vegi. — Ljósmynd / Aron Máni Símonarson
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Fab Lab-smiðjurnar hafa gefið góða raun og eru mikið notaðar af frumkvöðlum og hönnuðum.

Þegar fyrsta Fab Lab-smiðjan var opnuð á Íslandi árið 2008 voru 38 aðrar Fab Lab-smiðjur til í öllum heiminum. Núna eru smiðjurnar hér á landi orðnar sex talsins, og fleiri á leiðinni, en úti í heimi eru Fab Lab-smiðjurnar að verða sex hundruð.

Frosti Gíslason er verkefnastjóri Fab Lab hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og segir hann að saga Fab Lab hafi byrjað við MIT í Boston. „Þar hafði verið unnið stórt rannsóknarverkefni á sviði stafrænnar framleiðslutækni og þegar kom að því að kynna verkefnið þá var það ekki gert með vanalegum hætti með skýrslu eða vefsíðu heldur varð úr að leyfa almenningi að prófa og fá aðgang að tækjum sem fyrirtæki í iðnaði nota til stafrænnar framleiðslu. Vakti þetta mikla athygli og í ljós kom að mikil eftirspurn var eftir aðgangi að svona framleiðslutækjum. Fyrr en varði höfðu fleiri smiðjur af svipuðum toga tekið til starfa, fyrst á Indlandi og í Noregi, og breiddust þær svo út um allan heim.“

Framleitt með músarsmelli

Í dæmigerðri Fab Lab-smiðju er hægt að finna öflug tæki, sem eru þó tiltölulega einföld í notkun, og má t.d. nota til að smíða frumgerðir að nýjum uppfinningum eða nýrri hönnun. „Þetta er búnaður á borð við tölvustýrða fræsivél sem getur skorið út t.d. húsgögn, skilti eða þrívíð módel, og fínfræsari sem nýtist m.a. til að skera út rafrásir eða búa til vaxmót sem svo má steypa eftir,“ útskýrir Frosti. „Síðan erum við með í öllum smiðjunum hér á landi leysigeislaskera sem getur skorið út tvívíða hluti sem festa má saman til að búa til þrívíða gripi, en leysigeislann má líka nota til að „rasta“ eða „brennimerkja“ hráefnið. Eins hefur fólk afnot af þrívíddarprenturum sem prenta m.a. út plastefni líkt því sem notað er í Legó-kubba.“

Allar Fab Lab-smiðjur búa líka yfir þrívíddarskanna og rafeindaverkstæði þar sem hægt er að búa til hvers kyns rafknúin undur.

„Fyrsta Fab Lab-smiðjan á Íslandi var opnuð í Vestmannaeyjum árið 2008. Þáverandi samstarfsmaður minn hjá Vestmannaeyjabæ, Smári McCarthy, hafði rekist á fyrirlestur Neil Gersenfeld, upphafsmanns Fab Lab, á netinu, og ferðaðist síðan til Noregs til fundar við hann. Varð úr að ég ræddi við dr. Þorstein Inga Sigfússon, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og við hjá Vestmannaeyjabæ sóttum um styrk í sjóð sem ætlað var að fjármagna mótvægisaðgerðir í atvinnulífinu úti á landi vegna minnkandi þorskkvóta,“ segir Frosti.

Tveimur árum síðar var opnuð smiðja á Sauðárkróki og önnur á Akranesi en sú síðarnefnda varð skammlíf og aldrei fullmótuð. Þá bættist við Ísafjörður árið 2011, Breiðholtið í Reykjavík árið 2012, Fjarðabyggð 2013 og Höfn í Hornafirði 2014. Unnið er að opnun Fab Lab-smiðju á Akureyri og fleiri gætu bæst við áður en langt um líður.

Borga bara hráefniskostnað

Rekstrarformið er alla jafna þannig að almenningur fær ókeypis aðgang að smiðjunni og borgar bara hráefniskostnað. Samfélagið á hverjum stað fjármagnar tækjakaupin, oft með samstarfi sveitarfélags og fyrirtækja, og reksturinn er síðan í höndum Nýsköpunarmiðstöðvar, skóla og sveitarfélaga. Segir Frosti að dæmigerður stofnkostnaður sé um 16 milljónir króna vegna tækjakaupa og bætist húsnæðiskostnaður þar ofan á. Á flestum stöðum dugar eitt stöðugildi til að hafa umsjón með smiðjunum og veita notendum þá aðstoð sem þeir þurfa.

Segir Frosti að Fab Lab-smiðjurnar hafi heldur betur sannað gildi sitt. Smiðjurnar séu mjög vel sóttar og frumkvöðlar, listafólk, hönnuðir og nemendur hafi nýtt sér vel þá möguleika sem Fab Lab býður upp á. „Við erum að skapa aðstöðu sem annars væri ekki í boði. Ryður þetta úr vegi múrum sem ella stæðu smíði og þróun fyrir þrifum. Munar ekki síst um andlegu múrana sem Fab Lab brýtur niður því þar breytist oft hugarfarið hjá fólki frá því að halda að suma hluti sé aðeins hægt að gera úti í heimi, yfir í það að upplifa og sjá með eigin augum hve margt við getum gert sjálf. Hefur aldrei verið auðveldara að koma hugmynd í framkvæmd.“

Fab Lab virðist líka takast að kveikja áhuga hjá unga fólkinu. „Í könnun sem gerð var í Vestmannaeyjum kom í ljós að allir nemendur við verknámsbraut framhaldsskólans höfðu komið í smiðjuna og smiðjan haft áhrif á námsvalið hjá þeim. Sumir koma hingað strax við 12 ára aldur, byrja að dunda sér við einföld verkefni í smiðjunum en færa sig yfir í flóknari verkefni og skrá sig síðan jafnvel í formlegt Fab Lab-nám,“ segir Frosti. „Þá leiddi nýleg rannsókn meistaranema í viðskiptafræði í ljós að bein fylgni var á milli þess að stunda nám Fab Lab-smiðju og líkinda þess að fara út í eigin fyrirtækjarekstur sem frumkvöðull.“

Tækniþekking á nýja staði

Frosti segir Fab Lab einn hlekk í merkilegri þróun sem hefur orðið á skömmum tíma. „Í gegnum Fab Lab-tengslanetið hefur fólk aðgang að sérfræðingum um allan heim. Er t.d. hægt að sækja sex mánaða nám í Fab Academy hjá Fab Lab-smiðjunum hér á landi þar sem háskólaprófessor frá MIT kennir alla helstu notkunarmöguleika stafrænnar framleiðslutækni og vinna nemendurnir þá verkefni staðbundið í Fab Lab-smiðjunum með tækjunum sem þeir hafa til afnota. Er þetta að færa hátækniþekkingu á staði þar sem jafnvel er ekkert aðgengi að annarri tæknimenntun,“ útskýrir Frosti. „Sendiráð Bandaríkjanna hér á landi var svo hrifið af þessu að þeir hafa veitt tólf kennurum og leiðbeinendum námsstyrk til þess að fara í gegnum þetta nám og breiða áfram þekkinguna út í skólakerfið og samfélagið.“