[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Námskeið Heimilisiðnaðarskólans verða kynnt á mánaðarlegu prjónakaffi Heimilisiðnaðarfélagsins kl. 20 í kvöld, fimmtudagskvöld, á Café Meski, Fákafeni 9. Kennarar verða á staðnum með sýnishorn af því fjölmarga sem hægt er að læra á námskeiðunum.

Námskeið Heimilisiðnaðarskólans verða kynnt á mánaðarlegu prjónakaffi Heimilisiðnaðarfélagsins kl. 20 í kvöld, fimmtudagskvöld, á Café Meski, Fákafeni 9. Kennarar verða á staðnum með sýnishorn af því fjölmarga sem hægt er að læra á námskeiðunum. Þar á meðal eru vefnaður, litun, prjón, hekl, útsaumur, gimb, orkering, kaffipokafléttun og þjóðbúningasaumur. Á kynningunni gefst tækifæri til að sjá, þukla og þreifa á handverkinu og ræða aukinheldur við handverksfólkið í eigin persónu.

Handavinna og handverk af ýmsu tagi er órjúfanlegur hluti af lífi margra og halda margir því fram að ástundun þess hafi jákvæð áhrif á andlega heilsu manna. Þótt hægt sé að sækja sér upplýsingar og hugmyndir á netinu jafnast fátt á við persónulegar leiðbeiningar og ekki síður samverustundir við ýmiss konar hannyrðir. Námskeiðin eru fjölbreytt, sum eru svokölluð örnámskeið sem taka aðeins eina kvöldstund, önnur standa yfir í allt að tíu vikur. Heimilisiðnaðarfélag Íslands hefur um árabil rekið námskeiðsskóla en dagskrána má sjá nánar á vefsíðunni:

www.heimilisidnadur.is.