[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is „Það var slen yfir okkur allan leikinn.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Það var slen yfir okkur allan leikinn. Okkur tókst aldrei að komast upp á tærnar og ef þessi leikur er ekki áminning fyrir okkur þá veit ég ekki hvað,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson, landsliðsmaður í handknattleik, eftir fjögurra marka tap íslenska landsliðsins fyrir landsliði Portúgals, 32:28, í Kaplakrika í gærkvöldi.

„Þessi frammistaða okkar kemur mér fullkomlega á óvart þar sem undirbúningur síðustu daga hefur gengið vel. Það hefur ekkert þessu líkt verið í spilunum. Úrslitin eru vond og leikurinn er í heild sinni mikil vonbrigði,“ sagði Ásgeir Örn sem er á meðal allra leikreyndustu leikmanna landsliðsins.

Ásgeir Örn segir að engin ástæða sé til þess að örvænta þótt leikur íslenska landsliðsins hafi verið slakur og menn verið á hælunum nær því frá upphafi til enda. Hinsvegar hringi aðvörunarbjöllur og það sé þó betra að þær hringi fyrir stórmót en eftir að út í slaginn verður komið á EM í Póllandi.

„Þessi leikur vekur okkur vonandi upp af dvalanum. Nú eigum við aðeins tvo vináttuleiki eftir við Þjóðverja ytra um helgina. Þá verðum við að laga það sem bæta þarf. Ef við leikum ekki betur í Póllandi en við gerðum í kvöld þá endar mótið í Póllandi mjög illa hjá okkur,“ sagði Ásgeir Örn og lagði þunga áherslu á orð sín.

„Það var eins og við næðum aldrei að komast í annan gír. Við ætluðum að keyra á fullu allan leikinn en náðum okkur aldrei almennilega af stað.

Hreint út sagt vorum við mjög slakir í sóknarleiknum. Við gerðum alltof mikið af mistökum, menn voru að flýta sér alltof mikið auk þess sem skotin voru ekki nógu góð, að minnsta kosti varði portúgalski markvörðurinn mjög vel frá okkur,“ sagði Ásgeir Örn.

„Við vorum alls ekki nógu klókir í sóknarleiknum og nýtingin var slök. Á tíðum komu þær stöður upp í sóknarleiknum sem við leituðum eftir, leikkerfin gengu upp en þá skutu menn illa á markið eða hreinlega hittu það ekki. Ef ég á að greina leikinn í einni setningu þá fannst mér við vera slakir og portúgalska liðið vann frekar sökum þess en að leikur þess hafi verið stórbrotinn,“ sagði Ásgeir Örn sem skoraði fjögur mörk.

Ásgeir Örn segir varnarleikinn á kafla í síðari hálfleik hafa verið allt í lagi en vegna þess hversu langar margar sóknir Portúgala voru þá skorti á þolinmæði í varnarleiknum. Hinsvegar hafi íslenska liðið oft verið í vandræðum með varnarleikinn í aðdraganda stórmóta en yfirleitt hafi sóknarleikurinn verið betri. Sóknarleikurinn brást hinsvegar að þessu sinni og við það verður ekki unað, sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.