Seðlabankinn Mál Ursusar gegn SÍ verður tekið fyrir 12. janúar nk.
Seðlabankinn Mál Ursusar gegn SÍ verður tekið fyrir 12. janúar nk. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Áformað er að aðalmeðferð í máli Ursusar gegn Seðlabankanum fari fram föstudaginn 11. mars í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Áformað er að aðalmeðferð í máli Ursusar gegn Seðlabankanum fari fram föstudaginn 11. mars í Héraðsdómi Reykjavíkur. Forsvarsmenn Ursusar, með Heiðar Guðjónsson fjárfesti í fararbroddi, gera milljarða bótakröfu á Seðlabankann.

Seðlabankinn krafðist frávísunar í málinu en Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu 21. október.

Þriðjudaginn 1. desember frestaði dómari málinu til næstkomandi þriðjudags, 12. janúar, en stefndi, þ.e. Seðlabankinn, óskaði eftir fresti til að kynna sér framlögð gögn.

Fram kemur í bókun stefnanda, sem lögð var fyrir Héraðsdóm 1. desember, að stefnandi hyggst kveðja fyrir dóm „Má Guðmundsson, seðlabankastjóra Seðlabanka Íslands og fyrirsvarsmann, og Hauk Camillus Benediktsson, framkvæmdastjóra og fyrirsvarsmann Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. [innskot, skammstafað ESÍ], til að gefa aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Verði þeir ekki við þeim kvaðningum eða svari þeir við slíka skýrslu ekki nægilega spurningum sem fyrir þá verða lagðar mun stefnandi gera kröfu til að slík vanræksla, óljós svör eða þögn verði skýrð á þann hátt sem er stefnanda hagfelldust, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hyggst einnig með stoð í 51. gr. laga nr. 91/1991 kveðja fyrir dóm sem vitni Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóra Seðlabanka Íslands og Sigríði Logadóttur aðallögfræðing bankans,“ segir í bókuninni.

Stefna Ursusar á hendur Seðlabankanum var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. janúar 2015.

Aðalkrafan tæpir 2 milljarðar

Þar segir orðrétt um kröfu Ursusar: „Stefnandi gerir kröfu um að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda aðallega 1.939.410.045 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. apríl 2014 til 26. júlí 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags en til vara 1.810.146.562 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. apríl 2014 til 26. júlí 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá gerir stefnandi kröfu um að stefndu greiði honum in solidum málskostnað að skaðlausu“.

Vísar til samkomulags

Í stefnunni segir að stefnandi byggi málið á því að samkomulag hafi tekist 10. júlí 2010 milli hans, annars vegar, og stefnda ESÍ hins vegar, um að stefnandi myndi kaupa tiltekinn fjölda hluta í félaginu Sjóvá á fyrirfram ákveðnu gengi auk þess sem hann ætti rétt til að kaupa fleiri hluti í félaginu á fyrirfram ákveðnu gengi. „Þegar öllum fyrirvörum í samkomulagi aðila hafði verið fullnægt og þeir náð samkomulagi um nánari útfærslu viðskiptanna, í lok september 2010, sammæltust stefndi ESÍ og stefndi Seðlabanki Íslands um að standa ekki við samkomulagið,“ segir í stefnunni.

Síðan er færður frekari rökstuðningur fyrir málstað Ursusar.

„Stefnandi byggir á því að stofnast hafi bindandi samningur um kaupin sem stefnda ESÍ hafi verið skylt að efna. Stefndu hafi hins vegar sammælst með saknæmum hætti um að ljúka ekki viðskiptunum sem samið var um. Sú ákvörðun hafi þess utan verið ómálefnaleg og ólögmæt, eins og viðræður aðila þróuðust, óháð tilvist bindandi samnings. Hafi stefndu því bæði bakað sér bótaskyldu utan og innan samninga. Þá hafi stefndu brotið gegn reglum stjórnsýsluréttar. Stefnandi byggir á því að stefndu verði af þessum sökum að gera hann jafn settan og að viðskiptin hefðu átt sér stað. Þar sem virði hluta Sjóvár hefur aukist verulega hefur stefnandi farið á mis við verulegan hagnað sem hann krefst nú bóta fyrir.“