Notaðir Alltaf er eftirspurn eftir nýlegum bílum sem eru tiltölulega lítið eknir og kosta ekki mikið í samanburði við þá sem eru nýir úr kassanum.
Notaðir Alltaf er eftirspurn eftir nýlegum bílum sem eru tiltölulega lítið eknir og kosta ekki mikið í samanburði við þá sem eru nýir úr kassanum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Algengt hefur verið að undanförnu að bílasalar kaupi notuð ökutæki frá útlöndum, tveggja til fimm ára gamla bíla, til þess að mæta þörf markaðarins.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Algengt hefur verið að undanförnu að bílasalar kaupi notuð ökutæki frá útlöndum, tveggja til fimm ára gamla bíla, til þess að mæta þörf markaðarins. Lítið framboð er á bílum af árgerðunum 2009 til 2012, enda var bílainnflutningur í lágmarki fyrstu þrjú til fjögur árin eftir hrunið, segir Marinó Björnsson, bílasali hjá MB-bílum við Klettsháls í Reykjavík.

Fyrstu misserin eftir að bankarnir féllu haustið 2008 voru það helst bílaleigurnar sem keyptu nýja bíla. Þær áttu þá stundum í sex mánuði í samræmi við tollareglur sem þá giltu. Innflutningur var þá langt undir því sem venjan væri í meðalári. „Þegar fólk leitar eftir góðum, notuðum fárra ára gömlum bílum eru þeir ekki alltaf auðfengnir. Því hafa menn reynt að bregðast við með innflutningi, til dæmis frá Póllandi, Belgíu og Þýskalandi,“ segir Marinó og bætir við að bílasala hjá sér á nýju ári fari vel af stað.

Ágæt kaup í bíleigubílum

„Í þessari fyrstu viku ársins höfum við þegar selt fimm bíla og það lofar góðu. Í fyrra fóru hér í gegn um 470 bílar og það var um 35% aukning borið saman við 2014 sem var fyrsta starfsárið hér,“ segir Marinó. „Árið 2014 flutti ég inn um það bil 30 notaða Hyundai-bíla frá Danmörku og tek sennilega annan skammt í ár. Síðustu misserin hefur innflutningur á nýjum bílum raunar verið það sem taldist getur eðlilegt ástand. Smátt og smátt myndast jafnvægi,“ segir Marinó. Bætir við að alltaf sé eftirspurn eftir tveggja til þriggja ára gömlum bílum sem þá eru tiltölulega lítið eknir og kosta kannski þrjár til fjórar milljónir króna. Og það eru einmitt slíkir bílar sem hafa í nokkrum mæli verið fluttir inn og ekki hefur veitt af.

Kaupgeta almennings er meiri

„Fyrstu misserin eftir hrunið hafði fólk almennt lítið svigrúm til bílakaupa. Af því leiddi að umboð og innflytjendur fóru sér hægt og innflutningurinn var mjög lítill. Bílaleigurnar voru í raun einu aðilarnir sem keyptu nýja bíla á þeim tíma. Ef bílarnir voru seldir aftur innan sex mánaða gátu leigurnar afskrifað vörugjöld. Regla þessi, sem gilti í nokkur misseri, hélt bílamarkaðnum eiginlega gangandi. Nú hefur þessi frestur verið lengdur í fimmtán mánuði og oft má gera ágæt kaup í bílaleigubílum sem notaðir hafa verið tvö sumur. Við finnum líka að kaupgeta almennings er orðin verulega meiri en var til skamms tíma,“ segir Marinó sem starfað hefur við bílasölu í áratugi

Iðnaðarmenn aftur á stjá

Um leið og sala á einkabílum, nýjum sem notuðum, eykst eru sömuleiðis aukin umsvif í sölu á atvinnubílum, til dæmis sendiferðabílum og skutlum af ýmsum stærðum og gerðum. Sá markaður fór algjörlega í baklás á sínum tíma og var lengi. Nú rofar heldur betur til.

„Þessi markaður tók alveg kipp þegar karlinn með hamarinn fór aftur á stjá, en svo kalla ég iðnaðarmennina sem þurfa trausta bíla í útgerð sína. Þegar ekkert var að gera hjá til dæmis smiðum, pípurum, rafvirkjum og öðrum slíkum var sala á þessum bílum í algjöru frosti en nú er hún lífleg, sem helst í hendur við að nú er mikið að gera í byggingariðnaði við allskonar framkvæmdir. Áður freistuðust fyrirtækjaeigendur til að keyra sendibílana sína út og urðu raunar að fresta endurnýjun þar til betur áraði og nú er sá tími runninn upp eins og allir sjá,“ segir Marinó að síðustu.