[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þetta er rjúkandi heitt efni, því ég er nánast að klippa það jafnóðum. Ég er t.d. að fara í tökur á eftir [sl. þriðjudag] sem rata inn í fimmta þátt og á föstudag tek ég upp efni sem ratar inn í fjórða þátt.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta er rjúkandi heitt efni, því ég er nánast að klippa það jafnóðum. Ég er t.d. að fara í tökur á eftir [sl. þriðjudag] sem rata inn í fimmta þátt og á föstudag tek ég upp efni sem ratar inn í fjórða þátt. Það er mjög skemmtilegt að vinna þetta svona, en líka mikil áskorun. Og væri hreinlega ekki hægt ef ég væri ekki búinn að skipuleggja mig mjög vel og hefði frábært samstarfsfólk. Gunnar Árnason sér um hljóðvinnslu, Bjarki Guðjónsson hjá Trickshot um litaleiðréttingu og svo gerir Freymar Þorbergsson og samstarfsmenn hans hjá Thank you studio alla grafík,“ segir Þorsteinn J. um heimildaþáttaröð sína Stóra sviðið sem hóf göngu sína í Ríkissjónvarpinu sl. sunnudag. Í þáttunum, sem alls verða fimm, er fjallað um starf leikarans, allt frá því hann fær handrit í hendur og byrjar að setja sig inn í hlutverkið, þar til leiksýningin er frumsýnd.

„Hugmyndin að þáttaröðinni er komin frá Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra sem þekkir leikhúsið auðvitað mjög vel. Hann og Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri höfðu samband við mig og spurðu hvort ég vildi búa til þáttaröð þar sem fylgst væri með þessu ferli,“ segir Þorsteinn og rifjar upp að hann hafi oft áður unnið viðtöl við listamenn, t.d. rithöfunda og myndlistarmenn, meðan þeir eru staddir í miðju sköpunarferli verka sinna. „Mér finnst bæði skemmtilegt og nærandi fyrir okkur sem stöndum fyrir utan þennan heim að fá innsýn í sköpunarferlið. Það er svo margt sem þarf að ganga upp áður en listaverk verður til.“

Vildi skapa óritskoðaða framvindu

Í Stóra sviðinu er fylgst með fjórum þekktum leikurum að störfum. Þetta eru þau Guðjón Davíð Karlsson, sem leikur í sýningunni Í hjarta Hróa hattar sem frumsýnd var í Þjóðleikhúsinu í september sl., Ingvar E. Sigurðsson sem lék í Heimkomunni sem frumsýnd var í Þjóðleikhúsinu í október sl., Unnur Ösp Stefánsdóttir sem leikur í Njálu sem frumsýnd var í Borgarleikhúsinu 30. desember sl. og Margrét Vilhjálmsdóttir sem leikur í Hver er hræddur við Virginiu Woolf? sem frumsýnd verður í Borgarleikhúsinu 15. janúar nk. Aðspurður hvernig hann hafi valið viðmælendur sína segir Þorsteinn að sér hafi þótt mikilvægt að vera með bæði ólíka leikara og gjörólíkar sýningar. „Þarna eru því tvö klassísk verk, þ.e. Heimkoman og Hver er hræddur við Virginiu Woolf? , eitt fjölskylduverk, þ.e. Í hjarta Hróa hattar , og loks Njála sem unnin er á allt annan hátt. Þessi fjölbreytileiki er nauðsynlegur til þess að þáttaröðin verði spennandi og áhugaverð fyrir áhorfendur.“

Í fyrsta þætti sem frumsýndur var sl. sunnudag og aðgengilegur verður á vef RÚV til 2. febrúar nk. voru viðmælendurnir fjórir kynntir til leiks og sjónum beint að upphafsskrefunum í æfingaferlinu. „Í stórum dráttum einkennast þættirnir fimm af ákveðnu línulegu ferli sem hefst í upphafi æfingatímans og lýkur með frumsýningu. Mér fannst samt mikilvægt að vinna að nokkru á móti þessu línulega ferli og leyfi mér í frásagnarhættinum að flakka að nokkru fram og til baka. Nálgunin einkennist því ekki af vísindalegri nákvæmni, enda er það ekki það sem skiptir máli. Það sem er spennandi er að fylgjast með ólíkum stigum sköpunarferilsins, sem má gera með viðtölum og með því að vera viðstaddur æfingar og fanga það sem fyrir augu ber.“

Spurður hvernig gengið hafi að vera eins og fluga á vegg á æfingum og fá aðstandendur til að gleyma tökuvélinni segir Þorsteinn varla hægt að vera eins og fluga á vegg þar sem tökuvél sé alltaf mjög fyrirferðarmikil í litlu rými. „Ég er hins vegar mjög þakklátur fyrir að bæði viðmælendur mínir og allt starfsfólk leikhúsanna tveggja var mjög örlátt á tíma sinn og sýndi mér mikið traust með því að leyfa mér að vera í flæðinu á æfingum og taka upp það sem mér fannst áhugavert.“ Athygli vekur hversu þétt frásagnir viðmælandanna fjögurra eru fléttaðar saman og því liggur beint við að spyrja hvernig Þorsteinn hafi valið efni sínu frásagnarstíl. „Hvert verkefni finnur sér sinn frásagnarhátt. Í þessu tilviki fannst mér mikilvægt að skapa óritskoðaða framvindu, byggja frásögnina upp á senum og hafa engan sögumann, því ég þoli ekki sögumenn. Þeir ræna áhorfendur hinu óvænta og eru alltaf alvitrir. Liður í því að búa til áhugaverða framvindu er að segja ekki of mikið heldur leyfa spennunni að skapast af því að það er eitthvað ósagt í loftinu,“ segir Þorsteinn og bendir sem dæmi á að hann hafi meðvitað tekið upp myndefni og sjónarhorn sem venjulegir leikhúsgestir sjá alla jafna ekki. „Þannig nota ég stundum sjónarhornið frá sviðinu og út í salinn þar sem leikstjórinn er að stjórna æfingunni.“

Endurvakinn áhugi á leikhúsinu

Aðspurður segist Þorsteinn aldrei vinna efni sitt fyrir tiltekinn áhorfendahóp. „Ég hugsa aldrei um mögulegan áhorfanda. Ég hugsa bara um efnið og hvernig áhugavert sé að setja það saman, því ef mér tekst að búa til spennandi og áhugaverða frásögn þá er málið leyst. Það er ekki hægt að sérsníða efni að ákveðnum áhorfendahóp. Góð saga er alltaf góð saga, alveg óháð efninu. Ef manni tekst að finna þennan þráð og spinna hann þannig að fólk sitji spennt í sætinu fyrir framan sjónvarpið þá er tilganginum náð.“

Inntur eftir því hvort eitthvað í upptökuferlinu hafi komið sér á óvart svarar Þorsteinn því játandi. „Það má segja að vinnan við þáttaröðina hafi endurvakið áhuga minn á leikhúsinu,“ segir Þorsteinn og rifjar upp að hann á sínum tíma skrifaði BA-ritgerð sína í bókmenntafræði um rýmispælingar í leikritum Samuels Beckett. „Það hefur verið afar sterk upplifun fyrir mig að verða vitni að því hvernig leiksýning fæðist, því það eru ótrúlega margir hlutir sem þurfa að smella saman til þess að ein sýning verði til. Leikarar, leikstjóri, listrænt teymi og starfsfólk leikhússins þarf allt að vera svo örlátt á sjálft sig og í samstarfi við aðra til þess að ferlið gangi upp. Það mætir enginn inn á stóra sviðið til þess aðeins að gera sitt, heldur eru allir aðstandendur sýningarinnar að hjálpast að við að skapa verkið sem ætlunin er að flytja.“

Spurður hvort fleiri þættir séu í bígerð svarar Þorsteinn því til að auðveldlega mætti gera fleiri þætti í anda Stóra sviðsins og taka inn fleiri listgreinar. „Það er alltaf áhugavert að fylgjast með listafólki að störfum. Þetta segir okkur mikið um okkur sjálf sem áhorfendur og samtímann – sem er dúndurefni!“