Vilhelmína K Magnúsdóttir fæddist á Seyðisfirði 15. mars 1925. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hömrum 25. desember 2015. Foreldrar hennar voru Magnús Símon Guðfinnsson bátasmiður, f. 1898, d. 1978, og Vilborg Júlíana Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 1898, d. 1978. Systkini Vilhelmínu eru: Óskar, f. 1922, d. 1991, Einar Ársæll, f. 1923, d. 1923, Guðmundur, f. 1927, d. 1946, Oddný, f. 1928, Guðný, f. 1929, Gunnar, f. 1931, Ólafur, f. 1932, Árni, f. 1933, d. 1952, Helga, f. 1935, Ottó, f. 1936, og Hrefna, f. 1939.

Vilhelmína giftist Guðmundi V. Guðmundssyni árið 1950. Eignuðust þau fjögur börn, þau eru: 1) Magnús Már, f. 1951, kvæntur Bryndísi Jónsdóttur, f. 1949. Börn hans og Sigurbjargar Sigurðardóttur, f. 1952, eru Guðmundur Þór, f. 1974, Vilhelmína, f. 1978, d. 1982, Sóley Rut, f. 1983, og Erla Dröfn, f. 1983. 2) Sigrún, f. 1954, gift Kjartani Ingvasyni, f. 1953, börn þeirra eru Davíð, f. 1982, og Kári, f. 1992. 3) Níels Rafn, f. 1962, kvæntur Sigrúnu Arnardóttur, f. 1963, börn þeirra eru Tómas (fóstursonur), f. 1988, Tinna, f. 1992, og Bryndís, f. 2003. 4) Njáll Hákon, f. 1964, í sambúð með Örnu Harðardóttur, f. 1965. Börn hans og Fjólu Agnarsdóttur, f. 1964, eru Andrea, f. 1993, og Friðrik, f. 1997. Barnabarnabörnin eru sjö.

Vilhelmína útskrifaðist frá húsmæðraskólanum á Hallormsstað 1949 og flutti síðan til Reykjavíkur. Hún starfaði lengst af hjá Pósti og síma.

Útför Vilhelmínu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 7. janúar 2016, kl. 13.

Elskuleg tengdamamma mín, hún Mína, er látin 90 ára að aldri.

90 ár eru löng ævi en það er heilsan sem skiptir öllu máli. Mína var mjög heilsuhraust og man ég ekki eftir henni veikri þau ár sem við þekktumst.

En síðustu 2-3 árin fór heilabilun að gera vart við sig og var erfitt að horfa upp á þessa glaðlegu og duglegu konu missa vitræna getu.

Síðustu tvö árin bjó hún á hjúkrunarheimilinu Hamri í Mosfellsbæ og var vel hugsað um hana og erum við fjölskyldan þakklát fyrir þá umönnun sem hún fékk þar.

Ég er viss um að hún er hvíldinni fegin og nú lifa eftir góðar minningar um tímann okkar saman.

Ég sé hana fyrir mér syngjandi. Hún var í kór í rúm 40 ár og kunni mikið af lögum og naut þess að syngja, hlusta á tónlist og fara á tónleika.

Síðustu 10-15 árin var hún einnig í Leikfélagi eldri borgara, Snúð og Snældu, og kom fram í hinum ýmsu leikritum, íslenskum bíómyndum og auglýsingum.

Þar komu fram duldir hæfileikar í leiklist og módelstörfum. Gaman að ylja sér við þessar minningar nú þegar komið er að leiðarlokum.

Elsku Mína, takk fyrir tímann okkar saman, takk fyrir að koma út til Englands og vera au pair hjá okkur Níelsi þegar við þurftum á hjálp að halda. Það var yndislegt fyrir krakkana að fá ömmu og afa til Englands.

Ég veit að þú ert komin á betri stað þar sem þú getur sungið og leikið þér eins og þér fannst svo gaman.

Þín tengdadóttir,

Sigrún.

Ég veit ekki hvort þú hefur

huga þinn við það fest.

Að fegursta gjöf sem þú gefur,

er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki,

augað sem glaðlega hlær,

hlýja í handartaki,

hjarta sem örar slær.

Allt sem þú hugsar í hljóði

heiminum breytir til.

Gef þú sálarsjóði,

sakleysi, fegurð og yl.

(Úlfur Ragnarsson)

Nú er farið að halla undan fæti hjá okkur systkinunum og komið að því að kveðja Mínu systur. Ótal margar minningar koma upp í hugann. Mikið fannst mér hún Mína systir mín glæsileg kona, bar af sér einstakan þokka og átti alveg dæmalaust fallegt og notalegt heimili. Allt lék í höndum hennar, þvílíkur var myndarskapurinn.

Hún söng og lék og gleðin geislaði af henni. Það var alveg sama hvað hún tók sér fyrir hendur, allt var lagt í verkið og uppskeran eftir því. Við höfum átt yndislegar stundir saman, ekki síst á ættarmótum sem hafa verið haldin sem og á ættarjólaballinu.

Ég er einnig svo þakklát fyrir að hafa orðið þess aðnjótandi að fá að ferðast með Mínu og fleiri systrum mínum nokkrum sinnum í gegnum árin. Þær stundir sem við áttum í þeim ferðum voru alveg ógleymanlegar.

Betri ferðafélaga gat ég ekki óskað mér. Nú er elsku Mína mín farin í síðustu ferðina sína og stóri hópurinn hennar sem hún var svo stolt af syrgir þessa stórbrotnu konu sem gaf þeim svo mikið. Ég óska henni og hennar góðu fjölskyldu Guðs blessunar, ljóss og friðar.

Heiðrún Helga

Magnúsdóttir.

Elsku amma.

Við sjáum þig fyrir okkur, sólbrúna, brosandi, með hárið fínt, kinnalitinn og varalitinn á sínum stað.

Komin til eilífðarlandsins þar sem þú getur aftur notið lífsins, eins og þér einni er lagið.

Það er óhætt að segja að þú hafir lifað lífinu með lífsgleðina að leiðarljósi.

Þú söngst í kórum og lékst í bíómyndum og leikritum. Þið afi ferðuðust einnig vítt og breitt um heiminn og við systkinin fylgdumst heilluð með ferðasögunum ykkar.

Þú kenndir okkur svo margt sem við munum taka áfram með okkur út í lífið. Betri fyrirmynd er ekki hægt að hugsa sér.

Þú varst yndisleg amma og við minnumst allra samverustundanna með hlýju í hjarta.

Guðmundur Þór, Sóley Rut og Erla Dröfn.