[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Áformað er að lækka skuldir ríkissjóðs um 13% á þessu ári. Í lok ársins ætti skuldahlutfallið að vera komið undir 50% en það var hæst 86% á árinu 2011.

„Áætlanir gera ráð fyrir að heildarskuldir ríkissjóðs lækki úr 1.349 milljörðum króna í 1.171 milljarð króna eða um 178 milljarða króna á þessu ári. Þessari lækkun verður mætt að hluta til með tekjum sem ríkissjóður fær af stöðugleikaframlagi föllnu bankanna, lækkun á sjóðsstöðu, rekstrarafgangi af ríkissjóði auk andvirðis af sölu á hlut ríkissjóðs í Landsbankanum,“ segir Esther Finnbogadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, um áætlun stjórnvalda um niðurgreiðslu skulda ríkisins á þessu ári.

Greiða á 90 milljarða eftirstöðvar af skuldabréfi SÍ

Esther segir að á árinu séu á gjalddaga 70 milljarðar króna í ríkisbréfaflokknum RIKB 16 og um 4 milljarðar króna af öðrum innlendum lánum. „Þá er erlent lán í breskum pundum frá árinu 1981 á gjalddaga að fjárhæð 5,7 milljarðar króna. Um mitt ár er gjalddagi á skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjadölum frá árinu 2011 samtals að eftirstöðvum um 67 milljarðar króna en gert er ráð fyrir að endurfjármagna það lán.“

Í lok síðasta árs greiddi ríkissjóður 49,9 milljarða króna inn á skuldabréf Seðlabanka Íslands. Esther segir að áformað sé að greiða að fullu upp skuldabréfið en eftirstöðvar þess nema 90 milljörðum króna. Skuldabréfið var upphaflega gefið út í janúar 2009 til styrkingar eiginfjárstöðu Seðlabankans.

Hún segir að þá sé fyrirhuguð sala á tæplega 30% hlut ríkissjóðs í Landsbankanum á árinu og andvirði sölunnar verði notað til þess að greiða niður skuldir fyrir um 71 milljarð króna. Samtals nema afborganir lána 305 milljörðum króna á árinu og heildarlántaka er áætluð 129 milljarðar króna. Mismunur afborgana og lántöku er 176 milljarðar króna en heildarskuldir lækka á milli ára um 178 milljarða króna. Verðbreytingar og gengismunur skýra þennan mun.

Frekari áform um niðurgreiðslu skulda kynnt síðar

Esther er spurð hver staða lána vegna hruns bankanna sé? „Ríkissjóður gaf út skuldabréfaflokkinn RIKH 18 til endurfjármögnunar fjármálafyrirtækja. Staða hans nam 213 milljörðum króna í árslok 2015 og er áformað að greiða þann flokk niður á árinu um rúma 70 milljarða króna með andvirði af sölu á hlut í Landsbanka.“

En hver eru áhrif stöðugleikaframlagsins í niðurgreiðsluáætluninni? „Einu áhrif stöðugleikaframlaga í fjárlögum ársins varða Seðlabankabréfið, en fyrsti hluti tekna ríkissjóðs af stöðugleikaframlögum verður notaður til þess að greiða það bréf upp að fullu. Frekari áform um niðurgreiðslu skulda með stöðugleikaframlögum verða lögð fram síðar á árinu.“

Skuldahlutfall lækkar hratt

Það er áhugavert að skoða þróun skuldahlutfalls ríkissjóðs en með því er átt við skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þetta hlutfall hefur farið lækkandi frá árinu 2011 þegar hlutfallið var hæst eða 86% en þá námu skuldirnar 1.468 milljörðum króna.

Í árslok er áætlað að skuldahlutfallið verði komið í 49,5% og hafi þá lækkað töluvert frá þeim 62% sem það var í lok síðasta árs. Í árslok 2007 var skuldahlutfallið 23% og skuldirnar 311 milljarðar króna.