Landspítalinn Framkvæmdir við húsið hefjast á mánudag.
Landspítalinn Framkvæmdir við húsið hefjast á mánudag. — Morgunblaðið/Ómar
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Reykjavíkurborg hefur samþykkt leyfisumsókn til byggingar húss á lóð Landspítalans við Hringbraut þar sem jáeindaskanni verður starfræktur.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Reykjavíkurborg hefur samþykkt leyfisumsókn til byggingar húss á lóð Landspítalans við Hringbraut þar sem jáeindaskanni verður starfræktur. Að sögn Péturs Hannessonar, yfirlæknis röntgendeildar Landspítala, hefjast framkvæmdir næsta mánudag þegar jarðvinna byrjar. Búist er við að byggingu ljúki í sumarlok.

Í notkun næsta vetur

Starfsemin í húsinu mun hefjast um miðjan næsta vetur ef áætlanir standast. Að sögn Péturs er von á jáeindaskannanum til landsins í haust. Þá telur hann að ráða þurfi nokkra starfsmenn til að sinna starfseminni.

Húsið sem mun rísa er rúmir 375 fermetrar. „Jáeindaskanninn er ekki svo stór en svo er heilmikil framleiðslueining sem verður í húsinu til þess að búa til ísótópa (geislavirkar samsætur), tilraunastofa til að búa til efnin og síðan er þetta allt saman notað í sjúklinginn. Svo þarf svæði fyrir sjúklinga og annað,“ segir Pétur. Hann segir að byggingin verði við spítalann og í tengslum við núverandi ísótópastofu hans.

Eins og fram hefur komið eru jáeindaskanninn og byggingin tilkomin fyrir tilstilli peningagjafar Íslenskrar erfðagreiningar upp á 5,5 milljónir dollara, eða sem nemur 726 milljónum króna. Bæði kaupin á jáeindaskannanum og hin nýja bygging eru fjármögnuð að fullu af gjafafénu.

200 sendir í skanna ytra

Jáeindaskanni er fyrst og fremst nýttur til greiningar á krabbameini. Bæði til að finna meinið fyrr sem og að finna útbreiðslu þess til þess að finna út bestu aðferðir við að meðhöndla meinið. Um 200 manns voru sendir í jáeindaskanna erlendis á síðastliðnu ári.