Kristín Ágústsdóttir fæddist á Hofstöðum í Gufudalssveit 4. júlí 1927. Hún lést á LSH í Fossvogi 26. desember 2015.

Foreldrar hennar voru Ágúst Sigurbrandsson, f. 7. ágúst 1898, d. 21. nóvember 1966, og Rebekka Þórðardóttir, f. 28. desember 1900, d. 29. mars 1989.

Systkini Kristínar eru: Kristinn, Jón Þórður, f. 1928, Ingveldur Guðrún, f. 1930, Birna Sigríður, f. 1931, Guðbjörg, f. 1933, Gunnar, f. 1936, og Fríða, samfeðra, f. 1936.

Eiginmaður Kristínar var Jóhann Kristjánsson sjómaður, f. 4.10. 1922, d. 10.1. 1987. Foreldrar hans voru Kristján Egilsson og Jóhanna Jakobsdóttir. Fósturforeldrar hans í Flatey á Breiðafirði voru Steinn Ágúst Jónsson og Katrín Þórðardóttir. Börn Kristínar og Jóhanns eru: 1) Vigdís, f. 14.8. 1948, maki Stefán H. Benediktsson, f. 1946. Börn Vigdísar eru: a) Katrín Ingibjörg Barðadóttir, f. 15.7. 1966. Börn hennar eru Sandra Kristín Jónasdóttir, f. 1988, og Arnór Erling Jónasson, f. 1994. b) Hilmar Þór Barðason, f. 20.7. 1968, maki Sæunn Valdís Guðmundardóttir. Börn þeirra eru Tinna Karen, f. 1997, Aron Freyr, f. 1999, og Bergrún Sól, f. 2005. c) Helga Kristín Björgólfsdóttir, f. 18.1. 1980, maki Atli Már Einarsson. Barn þeirra er Davíð Logi Atlason, f. 2011. Dóttir Helgu er Lilja Björg Ólafsdóttir, f. 2003. 2) Logi Sævar, f. 5.7. 1950, d. 2.12. 2015. Maki Jóhanna E. Vestmann, f. 1947. Barn þeirra er Laufey Logadóttir, f. 20.7. 1974. Börn hennar eru Hafdís Lilja Hafsteinsdóttir, f. 1994, Aníta Franklínsdóttir, f. 1997, Logi Breiðfjörð Franklínsson, f. 2000, og Jóhann Magni Eggertsson, f. 2003.

Kristín ólst upp á Hofstöðum í Gufudalssveit. Hún fór ung í vist út í Flatey á Breiðafirði. Þar kynntist hún Jóhanni. Árið 1962 flutti fjölskyldan búferlum til Akraness. Þar starfaði Kristín við ræstingar í Apóteki Akraness. Árið 1979 fluttu þau Jóhann til Reykjavíkur. Þar starfaði Kristín við ræstingar í Byggðastofnun.

Útför Kristínar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 7. janúar 2016, klukkan 13.

Stína langamma mín var sterk og stolt kona. Hún bjó ein heima á Seljaveginum alla tíð eftir að afi lést árið 1987 og hélt heimilinu flekklausu. Símann notaði hún óspart til þess að eiga í samskiptum og var símastóllinn því vel notaður. Hún amma mín var föst á sínum skoðunum, þrjósk, og vildi ekki vera upp á aðra komin. En hún var að jafnan hlý, glettin, og þótti gaman að spjalla við hvern þann sem varð á vegi hennar. Hún hætti sjötug að vinna við þrif á Byggðastofnun og þótti leiðinlegt að þurfa að hætta.

Amma vildi alltaf eiga eitthvað til í skápunum til að gefa gestum og mundi hvað okkur þótti gott. Þess vegna fékk ég alltaf kartöflumús og piparsósu með lambalærinu hjá henni, þó að það hefði ekki verið venjan. Hún bar allskyns kræsingar fyrir okkur í gegnum árin, heilu hlaðborðin af bakkelsi. Hún steikti meðal annars eigin kleinur sem var yndislegt að borða heitar með smjöri. Eða eins og mamma myndi minnast á - með rækjusalati.

Hún elskaði náttúruna og vissi ekkert skemmtilegra en að ferðast um landið. Hvort sem það var til sjávar eða sveita. Hún átti heilan frumskóg af plöntum heima sem hún sá alltaf vel um og hún var alltaf í leit að nýjum afleggjurum. Hún hafði sérstakt dálæti á sjónum, skipum og sjómönnum. Jóhann afi var alla ævi sjómaður og þótti henni vænt um það að pabbi minn væri það líka. Hjartað leitaði síðan sérstaklega í átt að heimahögunum. Bæði að Hofstöðum í Gufudalssveit þar sem hún sleit barnsskónum og að Flatey á Breiðafirði þar sem hún kynntist afa, stofnaði heimili og eignaðist börn sín tvö, Vigdísi og Loga, uppi á kvisti í Eyjólfshúsi. Síðar hafði hún viðkomu á Akranesi, þar sem börn hennar stofnuðu eigin heimili, og síðast bjó hún á Seljavegi 33.

Amma vildi aldrei þurfa að fara á hjúkrunarheimili og varð henni að ósk sinni. Síðasta mánuðinn dvaldi hún þó á öldrunardeild LSH þar sem var séð vel um hana. Á jóladag fór hún í hjartastopp en var náð til baka. Þetta kallaði alla fjölskylduna að rúmstokknum. Við fengum þarna dýrmætan tíma með henni síðasta einn og hálfan sólarhringinn. Mjög fallegur og friðsæll, en þó erfiður tími. Við náðum öll stund til að kveðja hana í einrúmi, að ráðleggingu Eysteins prests. Jafnvel Hilmar, barnabarn hennar sem komst til hennar frá Danmörku í tæka tíð til að sjá hana áður en hún kvaddi að kvöldi annars í jólum.

Við mamma viljum þakka fyrir allan þann tíma sem við fengum með henni, hverja kleinu, hvern koss og hvert knús. Síðustu brosin munum við geyma með okkur alla tíð.

Hvíl þú í friði og lifðu í sátt,

á himnanna sæti þar sem er kátt.

Gjöfull drottinn þig mun nú geyma,

hjá ástvinum og englum uns við hittumst þar heima.

(SKJ)

Sandra Kristín Jónasdóttir.