— Morgunblaðið/Golli
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Erlendir fjárfestar settu það sem skilyrði fyrir aðkomu sinni að Símanum í fyrra að stjórnendur félagsins tækju einnig fjárhagslega áhættu með kaupum í því, að sögn Orra Haukssonar, forstjóra Símans.

Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Erlendir fjárfestar settu það sem skilyrði fyrir aðkomu sinni að Símanum í fyrra að stjórnendur félagsins tækju einnig fjárhagslega áhættu með kaupum í því, að sögn Orra Haukssonar, forstjóra Símans. Hann segir nýja en smærri tekjustrauma ráða miklu um vaxtarmöguleika fjarskiptafyrirtækja í framtíðinni. Þau geti ekki lengur stólað á fáar og stórar tekjulindir.

Um miðjan október 2013 settist Orri Hauksson í forstjórastólinn hjá fjarskiptafyrirtækinu Skiptum. Fjórum mánuðum síðar, eða í febrúar 2014, var tilkynnt um sameiningu Skipta og Símans, undir nafni Símans, og hefur Orri veitt hinu sameinaða félagi forystu síðan. Nokkurn tíma tók að ganga frá sameiningunni og réð þar mestu bið eftir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Á þeim tíma unnu stjórnendur fyrirtækisins hins vegar að því hörðum höndum að undirbúa fyrirtækið fyrir framtíðina. Vorið 2015 náðist svo með samþykki Samkeppniseftirlitsins að sameina Símann og Skipti í eitt félag, Símann, og var þá hafist handa. Orri segir það hafa verið lærdómsríkt ferli en krefjandi.

„Að mörgu þurfti að huga þegar félaginu var siglt út úr hruninu. Stærsta skrefið í þeim efnum fólst án nokkurs vafa í því að kröfuhafar breyttu skuldum félagsins í hlutafé. Við það myndaðist hluthafahópur sem reyndist bakland félagsins fram að þeim tíma að félagið var skráð á markað. Enn eru margir þeirra lykilhluthafar í fyrirtækinu þótt eignarhaldið hafi að sjálfsögðu breyst.

Frá upphafi lá fyrir að stærsti hluthafinn, Arion banki, myndi selja stærstan hluta sinn í félaginu. Bankinn var einfaldlega skuldbundinn til þess af eftirlitsstofnunum sem gerðu þá kröfu að hann losaði um eignarhlut sinn í fyrirtækjum sem lentu í fanginu á honum í kjölfar hrunsins. Bankinn hefur farið þá leið með ýmis þau fyrirtæki sem hann hefur selt hlut sinn í, að hann hefur boðið megnið af sínum hlut til kaups í almennu útboði í undanfara skráningar sama fyrirtækis á markað. Sú leið var einnig valin í tilfelli Símans.“

Mikill styr stóð um fyrirtækið í kjölfar skráningar þess á markað og um áramótin var jafnvel vísað til ákveðinna atriða því tengdra, sem verstu viðskipta ársins 2015. Orri segir að í þeirri umræðu sem spannst um fyrirtækið síðastliðið haust hafi sölu bankans á umtalsverðum hlut í félaginu í aðdraganda skráningar endurtekið verið blandað saman við kaup þess hóps sem hann leiddi, en á hópunum sé reginmunur.

Vildu fjárfesta með þekkingu

„Fyrir lá að Arion banki myndi selja hlut sinn í Símanum og ósennilegt var að bankinn kysi að selja allan 38% hlut sinn í einu. Í þeirri stöðu velti ég hlutunum fyrir mér, enda ljóst á vefsíðu bankans árum saman að hann var opinn fyrir tilboðum. Ég er ekki að tjalda til einnar nætur hér hjá Símanum og vil gjarnan fá tækifæri til að stýra þessu fyrirtæki til lengri tíma, ef mér verður treyst til þess. Ég er sömuleiðis sannfærður um að sterkt bakland í eignarhaldi skipti sköpum fyrir fyrirtækið. Þess vegna hafði ég frumkvæði að því í byrjun síðasta árs að ræða við Arion banka um að fjárfestahópur kæmi að félaginu í aðdraganda skráningar. Það yrði hópur með þekkingu á fjarskiptaheiminum, fjárfestingum hér heima og erlendis og einnig aðilar sem hefðu þekkingu á því ferli sem tengist skráningu fyrirtækja á markað. Bankinn var spenntur fyrir hópi sem myndi styrkja félagið fyrir útboðið og gera það söluvænlegra. Ég hafði því samband við Bertrand Kan, sem hefur mikla þekkingu á alþjóðlega fjarskiptamarkaðnum og kom meðal annars að einkavæðingu Símans á sínum tíma. Að því loknu ræddum við við hóp fjárfesta sem ekki þekktust innbyrðis og snemma varð áhuginn ljós. Hins vegar stukku hreint ekki allir á vagninn sem ég talaði við, enda var Síminn á þessum tíma óskráð félag án skráningarlýsingar, sem ekki lá nein ákvörðun fyrir um hvenær yrði skráð. Þannig ríkti drjúg áhætta um marga þætti þessarar fjárfestingar, en afar ánægjulegt er að okkur tókst að fá til landsins erlenda fjárfesta sem hafa yfirgripsmikla sérþekkingu á fjarskiptamarkaði. Enginn þeirra hefur fjárfest áður á Íslandi. Fáir erlendir fjárfestar hafa treyst sér til að festa fé hér á landi frá hruni og lífgar því koma þeirra upp á fjárfestaflóruna á markaði sem mestmegnis hefur samanstaðið af lífeyrissjóðum og innlendum fjárfestahópum.

Erlendu fjárfestarnir settu það hins vegar sem skilyrði, ekki síst þar sem þeir þekktu ekki mikið til stöðu Símans, að stjórnendur hans tækju einnig áhættu og keyptu einnig hluti í félaginu, eins og þeir hefðu getu til. Í maí voru kaupin nokkurn veginn frágengin og hafist var handa við að hnýta lausa enda, sem því miður gekk hægt vegna flókinnar pappírsvinnu og greiðslna milli fimm landa, fimm gjaldmiðla, í gegnum fjármagnshöft og sumarleyfi. Síðasti pappírinn var undirritaður í ágúst og þá var hægt að tilkynna kaupin.

Þegar útboðsgengið var ljóst um mánaðamótin september-október hófst gagnrýni á verðið sem fjárfestahópurinn greiddi fyrir ríflega 5% hlut í fyrirtækinu.

Verðlagningu bréfanna verður hins vegar að skoða í ljósi þess hvenær gengið var frá kaupum fjárfestahópsins. Verðið var ákveðið vorið 2015 og var þá nokkurn veginn í samræmi við verðlagningu á Vodafone á þeim tíma og það verðmat sem lagt var til grundvallar við endurskipulagningu fyrirtækisins sjálfs. Fjárfestarnir geta ekki hreyft sig til 2017 sem gerir kaupin mun áhættusamari en ella. Sem betur fer hafa þeir hug á að standa að félaginu til langs tíma, en það breytir því ekki að bindingin frá vori 2015 til 2017 gerir bréfin, sem fjárfestahópurinn keypti, allt önnur en skráðu bréfin sem voru seld um haustið og sem eru frjáls til sölu á hverjum degi. Halda má því fram nú að síðastliðið vor hafi innlendur fjarskiptamarkaður verið heldur lágt verðmetinn. Það er öfugt við stöðuna eins og hún var árið 2005 svo dæmi sé tekið. Þá var Síminn seldur á tífaldri EBITDA en félög erlendis voru þá almennt metin í kringum áttfalda EBITDA. Þegar kaupverðið var ákvarðað 2,5 krónur á hlut var miðað við að verðið væri tæplega 6 sinnum EBITDA en það er svipað og Vodafone á þessum tíma. Af þeim sökum varð verðlagningin mjög eðlileg þegar gengið var frá viðskiptum við hópinn. Skoðað í dag má líta þannig á að kaupin hafi verið á hagstæðu verði. Það sýnir þróun hlutabréfaverðsins á almennum markaði. Margt getur hins vegar gerst á einu til tveimur árum, en við munum að sjálfsögðu leggja okkur afar vel fram svo fjárfestingin megi verða hluthöfum Símans og viðskiptavinum hagfelld til lengri tíma.“

Sala til vildarviðskiptavina olli úlfúð.

Spurður nánar um gagnrýnina segir Orri hana fyrst og fremst hafa sprottið upp þegar bankinn seldi viðskiptavinum í einkabankaþjónustu önnur 5% í fyrirtækinu fyrir útboðið á litlu hærra verði en fjárfestahópurinn hafði greitt.

„Sú ákvörðun hafði neikvæð áhrif á umræðuna um fyrirtækið og útboðið og ég tel að í mörgum tilvikum hafi fólk blandað þessari sölu bankans og kaupum okkar saman. Bankinn hefur reyndar lýst því yfir að salan til þessara vildarviðskiptavina hafi verið óheppileg og að þessi aðferðafræði verði ekki notuð að nýju.

Ég held að það hafi fyrst og fremst verið þessi viðskipti sem ollu uppnámi og að kaupum fjárfestahópsins sem við Bertrand settum saman hafi verið ruglað saman við þau. Það eru vonbrigði og ég trúi að kaup okkar hóps muni styrkja félagið til lengri tíma. Reyndar höfum við nú þegar fengið góða ráðgjöf um þróun á öðrum mörkuðum þannig að við teljum strax mikils virði fyrir okkur stjórnendurna að hafa þekkingu þessara erlendu bakhjarla til taks.“

Gjörbreyttur fjarskiptamarkaður

Tæknibyltingar á síðustu áratugum hafa gjörbreytt fjarskiptamarkaðnum frá því sem áður var. Það hefur um leið breytt tekjustraumum fyrirtækja sem starfa á þessu sviði.

„Áður fyrr gátu fjarskiptafélögin stólað á talsímann sem var þeirra langstærsta tekjulind, á tíunda áratugnum var farsíminn kynntur til leiks og þá bættust þær tekjur einfaldlega við. Svo fór notkun talsímans að dala. Vissulega vann farsíminn upp á móti þeirri þróun en tekjustraumar hans hafa einnig breyst í kjölfar almennrar snjallsímaeignar. Gagnaþjónusta ýmiskonar fór að ryðja sér til rúms, bæði gegnum síma og fastlínu. Sú þjónusta skilar hins vegar mun minni tekjum, netkynslóðin hefur einfaldlega vanist því að allt sé frítt. Nú sjáum við svo að fólk talar minna í símana en áður, en nýtir aðra samskiptamöguleika þeim mun meira í gegnum netið. Það felur í sér enn nýja áskorun sem er afar áhugavert að takast á við.

Ein skýrasta birtingarmynd þess hversu snúið það getur verið að sækja tekjur á markaðnum, er það að gagnamagnspakkarnir sem í boði eru stækka í sífellu. Verðið sem fólk greiðir fyrir gagnamagnið hefur lækkað gríðarlega. Notkun fjarskiptatækninnar eykst í heild og þróast hratt, en einingarverðið lækkar hratt.“

Orri segir að markaðurinn hafi því breyst á tiltölulega fáum árum frá því að byggja á fáum en gríðarstórum tekjustraumum í það að byggja í æ meira mæli á mörgum smærri.

„Þessir tekjustraumar byggjast meðal annars á sölu tónlistar eða sjónvarpsefnis eða til dæmis öryggisþjónustu, heilsutækni, samtengingu tækja og öðru viðlíka. Fjarskiptafyrirtækin þurfa einfaldlega að hafa sífellt fleiri anga úti til að bæta upp þá tekjustrauma sem eiga undir högg að sækja. Hinir gömlu stóru munu ekki hverfa af sjónarsviðinu að öllu leyti þó að samkeppnin á þeim markaði hafi þrýst verðinu verulega niður.

Það má í raun segja að fjarskiptafélög um allan heim klóri sér í kollinum yfir því hvernig þau geti skapað fleiri og nýja möguleika til tekjuöflunar. Það er einfaldlega mjög spennandi verkefni sem við höfum mikla ánægju af að fást við og við höfum áhugavert plan um það innanhúss, m.a. unnið í samvinnu við okkar bakhjarla, hvernig best sé að þjónusta viðskiptavininn fram á við á arðbæran hátt.“

Kaupréttir til starfsfólks

Meðal þess sem sætti nokkurri gagnrýni í tengslum við skráningu Símans á markað var sú tillaga stjórnar félagsins að starfsmenn þess fengju kauprétti að allt að þriggja milljóna hlut í félaginu á genginu 2,5 og að þannig gætu starfsmenn keypt fyrir 600 þúsund krónur árlega í fimm ár á því gengi, óháð því hvernig verð félagsins myndi þróast á markaði. Síðar var tillögunni breytt og rétturinn að lokum veittur til þriggja ára, samtals að upphæð 1.800 þúsund krónur. Orri segir að hin breytta staða fjarskiptafélaganna hafi ráðið miklu um að ákveðið var að veita þessa kauprétti.

„Jú, rétt er að gagnrýnisraddir heyrðust varðandi viss útfærsluatriði, en prinsippinu var vel tekið. Það að kaupréttirnir hafi verið samþykktir undirstrikar velþóknunina á áætluninni, sem gerir Símann að framúrskarandi vinnustað. Það er afar ánægjulegt að sjá að starfsmenn munu njóta þess sérstaklega gangi félaginu vel á markaði. Síminn verður 110 ára á þessu ári og því í hópi elstu fyrirtækja landsins. Fyrirtækjamenningin er gróin og kaupréttir því afar áhugaverð leið til að viðhalda sköpunarkrafti starfsfólksins og hvetja þá til að sækja inn á ný svið. Kaupréttirnir eru góð leið til þess að fá fólk til að vera á tánum og þeir tengja hagsmuni starfsmannanna beint við að fyrirtækið sæki fram. Starfsemin hjá okkur byggist ekki síst á því að tengja saman viðskiptavinina okkar sem eru um 100 þúsund talsins og síðan ýmsa þjónustuveitendur.

Nýjasta dæmið um það hvernig þetta virkar er samstarf okkar við sprotafyrirtækið GoMobile en í næstu viku munum við í samstarfi við GoMobile kynna nýja áskriftarleið sem nefnist Þrennan. Hún er sérstaklega hugsuð fyrir ungt fólk, sem er nýjungagjarnt en heldur vel um budduna, en við höfum mikinn áhuga á að sækja fram á þeim markaði. Hér er gott dæmi um það hvernig þetta stóra og öfluga félag, sem á sér þessa löngu sögu, getur efnt til samstarfs við lítil en flott fyrirtæki sem koma með virðisauka inn á markaðinn.

Við gerum okkur grein fyrir því að upplýsingatæknin skiptir sífellt meira máli, ekki síst í þjónustu við fyrirtækjamarkaðinn en þó einstaklingana einnig. Við höfum innan samstæðunnar mjög öflugt fyrirtæki á þessu sviði, Sensa, en það er eina stóra upplýsingatæknifyrirtækið hérlendis sem alltaf hefur skilað hagnaði. Það er magnað í ljósi þess hversu sveiflukenndur þessi markaður er.“

Lausafjárstaðan gríðarlega góð

Nú þegar Síminn siglir inn í fyrsta heila rekstrarárið í kjölfar skráningar á markað segir Orri að öldurnar hafi lægt að nokkru marki og að fyrirtækið hyggist nú blása til sóknar. Markmiðið sem meðal annars er stefnt að felur í sér að fjórðungur tekna fyrirtækisins í lok þessa áratugar komi í gegnum nýja tekjustrauma. Það sé verðugt en mjög krefjandi markmið.

„Það er hluti af þeirri sókn sem við ætlum að spila. Við höfum verið í mikilli uppbyggingu ýmissa innviða hjá fyrirtækinu á undanförnum misserum, sem meðal annars tengjast 4G-kerfinu, reikningagerðarkerfi hér innanhúss og ýmsu öðru. Þrátt fyrir mikinn kostnað sem því fylgir er lausafjárstaða félagsins gríðarlega góð og stendur í um 4 milljörðum króna. Það gerir okkur kleift að halda okkur við arðgreiðslustefnuna sem sett hefur verið. Það er ánægjulegt að það sé mögulegt á sama tíma og verið er að ráðast í miklar fjárfestingar viðskiptavinum Símans til hagsbóta.“

Offjárfesting í kerfinu kemur í veg fyrir uppbyggingu sem skilað gæti betri þjónustu

Míla er dótturfélag Símans, en það heldur utan um rekstur og uppbyggingu þess dreifikerfis sem gamli Landssíminn hafði með höndum á sínum tíma. Eignarhaldi Símans á Mílu eru settar miklar skorður á grundvelli sáttar Símans við Samkeppniseftirlitið og allar stærstu ákvarðanir í rekstri Mílu eru háðar samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar. Þess utan er starfrækt sérstök eftirlitsnefnd um jafnan aðgang að fjarskiptainnviðum, EJAF. Meðal þess sem Mílu er ætlað að tryggja er uppbygging dreifikerfis í dreifbýli þar sem víða er svokallaður markaðsbrestur fyrir hendi. Sú staða er sögð vera uppi á svæðum þar sem meiri kostnaður fellur til við þjónustuna en tekjurnar sem hafa má af henni.

„Míla er það fjarskiptafyrirtæki sem lýtur hvað mestri reglustýringu í heimi. Það er afar sérstakt mynstur í fjarskiptainnviðum á Íslandi. Míla er í samkeppni við ýmsa opinbera aðila sem hafa ráðist í uppbyggingu innviða, oft á svæðum þar sem mögulega er hægt að vænta arðs af uppbyggingunni. Fyrirkomulagið á Íslandi er núna eins og stórt bútasaumsteppi. Orkuveita Reykjavíkur er opinbert fyrirtæki sem nýtur einkaleyfis í kjarnastarfsemi sinni, en hefur þó lagt hátt í tvo tugi milljarða í fjarskiptakerfi á höfuðborgarsvæðinu í samkeppni við einkaaðila. Önnur orkufyrirtæki og einstaka sveitarfélög hafa einnig stigið svipuð skref, í mun minni mæli þó. Um þessa aðila gilda engar reglur, öfugt við eina einkafyrirtækið, sem hefur grundvallarinnviði með höndum. Þá eru starfrækt neyðarfjarskiptakerfi í landinu, en eins og eðlilegt má telja hefur komið í hlut hins opinbera að fjárfesta þar í. Vandi hins regluvædda kerfis í dag er að þótt Míla myndi vilja fjárfesta í uppbyggingu úti á landi þar sem arðsemin er lítil eða engin, þá skerðist um leið geta félagsins til að standa í samkeppni á þeim svæðum þar sem rekstur getur verið arðbær og þar sem hann er í samkeppni við opinbera aðila.“

Þá segir Orri að innviðir fjarskipta á landinu einskorðist ekki aðeins við offjárfestingu á arðbærum svæðum á sama tíma og Míla ein lúti kröfum í hinum dreifðari byggðum. Einnig séu dæmi um afar slæmar ákvarðanir hins opinbera sem hafi beint fé í ranga farvegi.

„Fyrir minna en þremur árum ákvað RÚV að ráðast í risavaxna fjárfestingu til að dreifa sjónvarpsefni til hinna dreifðu byggða. Gott og vel. Niðurstaðan var hins vegar gamalt einátta dreifikerfi, sem rúmar hvorki internet né gagnvirkt sjónvarp, fyrir rúma 4 milljarða króna. Fjárfesting þessa opinbera hlutafélags í þessari takmörkuðu sjónvarpstækni er óskiljanleg. Fyrir lá að hægt væri að sinna þessum þörfum með nýrri og framtíðarheldri tækni, svo dreifðar byggðir gætu notið gagnvirkrar sjónvarpstækni víðar en nú. 98% Íslendinga hafa nettengingu og það hefði verið hægt að nýta féð í að styrkja þær tengingar með tæknilausnum sem henta á hverju svæði, t.d. þráðlausum lausnum þar sem við á, en ljóstengingum annars, eins og ríkisstjórnin hefur nú sagt að áhersla verði lögð á. Hægt hefði verið að ná langtum ódýrar til síðasta bæjarins í dalnum og nær öllum tryggt gagnvirkt sjónvarp í hæstu myndgæðum. RÚV ber að gera efni aðgengilegt almenningi með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að efninu eða þjónustunni á þeim stað og á þeirri stundu er hann sjálfur kýs. Dreifikerfi RÚV býður ekki upp á slíka möguleika en önnur dreifkerfi gera það. Íslensk börn í dag vita ekki að Stundin okkar er klukkan sex á sunnudögum, þau horfa þegar þeim hentar, eða réttara sagt þegar foreldrunum hentar. Þessi ákvörðun er dæmi um að offjárfesting á einu sviði og vanfjárfesting á öðrum standa uppbyggingunni fyrir þrifum. En við skulum þó ekki mála skrattann á vegginn. Þrátt fyrir þessi mistök er staðan á Íslandi þó sem betur fer þannig, að fá lönd í heiminum státa af meiri gagnahraða til heimila eða meiri útbreiðslu gagnvirks sjónvarps.“