Haraldur Haraldsson fæddist 13. nóvember 1944. Hann lést 28. desember 2015.

Útför Haraldar var gerð 6. janúar 2016.

Við kynntumst Haraldi persónulega fyrir nokkrum árum, þegar hann bauð sig fram til að starfa með okkur sjálfstæðismönnum á vettvangi bæjarmála í Mosfellsbæ.

Hann skipaði 10. sætið á framboðslistanum okkar kjörtímabilið 2010-2014 og fékk fljótt viðurnefnið Haraldur tíundi hjá okkur listafólkinu, til aðgreiningar frá Haraldi bæjarstjóra.

Var það okkur öllum ljóst frá upphafi að Haraldur X bjó yfir mikilli reynslu og þekkingu úr atvinnulífinu og stjórnun almennt, sem nýttist bæði Mosfellsbæ og okkur sem með honum störfuðu.

Hann Halli okkar tíundi var alltaf meira fyrir að framkvæma, en að ræða um að framkvæma og tók lýðræðið oft á taugarnar.

Fannst honum við eyða allt of miklu púðri í að ræða hlutina og velta upp öllum sjónarmiðum.

Trúlega þótti honum þetta unga samstarfsfólk líka oft á tíðum vera einum (já eða tveimur) of félagslega þenkjandi. Lá hann ekki á skoðunum sínum við borðið, en viðurkenndi þó fúslega að barnaheimili (eins og hann kallaði leikskólana) og slík þjónusta á vegum bæjarfélagsins væri nauðsynleg í nútíma samfélagi.

Haraldur var hress og félagslyndur maður og setti svip sinn á störf Sjálfstæðisfélagsins.

Þótti honum mikilvægt að hafa öflugt félagsstarf, enda vissi reynsluboltinn sem var að til þess að fólk næði að vinna vel saman væri bráðnauðsynlegt að skemmta sér saman. Var hann sjálfur hrókur alls fagnaðar, hélt skemmtilegar ræður og gaf lítið eftir þrátt fyrir heilsubrest að undanförnu.

Það er með söknuði, en jafnframt þakklæti sem við kveðjum Harald tíunda, eins og hann mun alltaf heita hjá okkur listafólkinu, og þökkum við fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast honum.

Eiginkonu hans, börnum og öðrum ættingjum flytjum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Bryndís Haraldsdóttir

og Herdís Sigurjónsdóttir.