Reykjavíkurflugvöllur Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkti að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir flugvöllinn í stað þess sem fellt var úr gildi í desember sl. Á myndinni er horft eftir svonefndri neyðarflugbraut.
Reykjavíkurflugvöllur Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur samþykkti að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir flugvöllinn í stað þess sem fellt var úr gildi í desember sl. Á myndinni er horft eftir svonefndri neyðarflugbraut. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Meirihluti borgarstjórnar samþykkti í fyrradag að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Sem kunnugt er felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eldra deiliskipulag úr gildi í desember sl.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Meirihluti borgarstjórnar samþykkti í fyrradag að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Reykjavíkurflugvöll. Sem kunnugt er felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eldra deiliskipulag úr gildi í desember sl.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði með ólíkindum hvernig meirihlutinn hefði keyrt málið í gegn.

„Við viljum auðvitað að svo flókin deiliskipulagsáætlun, sem varðar hagsmuni mjög margra, fái að minnsta kosti ekki lakari meðferð en aðrar skipulagsáætlanir,“ sagði Júlíus Vífill. „Auðvitað ætti meirihlutinn, í ljósi frétta af sjúkraflugi og mikilvægi neyðarbrautarinnar t.d. nú um hátíðarnar, að endurmeta afstöðu sína til flugvallarins og öryggissjónarmiða. Að lágmarki ættu borgarfulltrúar meirihlutans að sjá sóma sinn í að reyna að vanda sig. Stjórnsýslumistökin eru einfaldlega orðin allt of mörg.“

Hann lagði fram tillögu, fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að tillögunni um að auglýsa deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar yrði vísað til borgarráðs. Þar yrði hún afgreidd í samræmi við samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar. Í 2. málsgrein 12. greinar samþykktarinnar stendur að auglýsing og afgreiðsla á deiliskipulagi sé „ávallt háð samþykki borgarráðs. Hið sama gildir um auglýsingu og afgreiðslu á tillögum að breytingum á slíkum áætlunum“.

Meirihluti borgarstjórnar felldi þessa tillögu sjálfstæðismanna.

Gengið framhjá borgarráði

Í tillögu sjálfstæðismanna var bent á að að ekki væri til sambærilegt ákvæði fyrir neitt annað fagráð borgarinnar. Það var því mat borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að „samkvæmt skýru orðalagi samþykktar umhverfis- og skipulagsráðs væri ekki heimilt að sleppa umfjöllun borgarráðs eins og hér er stefnt að með því að taka tillögu að auglýsingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar beint úr umhverfis- og skipulagsráði og leggja hana fram í borgarstjórn til afgreiðslu.

Það dregur verulega úr líkum á því að borgarfulltrúar fái viðhlítandi kynningu og geti tekið upplýsta ákvörðun. Enginn borgarfulltrúi né varaborgarfulltrúi þeirra flokka sem mynda meirihluta í borgarstjórn sat í umhverfis- og skipulagsráði 23. desember sl. þegar tillagan var til afgreiðslu þar. Málsmeðferð sem þessi á sér ekki fordæmi,“ sagði í tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Júlíus Vífill sagði það vera alveg skýrt að deiliskipulagsauglýsinguna hefði átt að leggja fyrir borgarráð. „Málsskjölin eru 470 blaðsíður. Sagan er löng og flókin og þetta deiliskipulag verður að lesa með hliðsjón af aðliggjandi deiliskipulagsáætlunum. Fundir í borgarráði eru lokaðir og þar mæta embættismenn og fagfólk utan úr bæ og góður tími gefst til að kafa í málin,“ sagði Júlíus Vífill. Hann sagði að hins vegar væri ekki hægt að kafa eins í málin á fundum borgarstjórnar né heldur að ræða við embættismenn eða sérfræðinga. Borgarfulltrúar hefði því samþykkt deiliskipulagið með miklu takmarkaðri kynningu en eðlilegt gæti talist.

Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna, skrifaði á Facebook að með ákvörðun um að sleppa því að ræða tillöguna um nýtt deiliskipulag í borgarráði tæki meirihlutinn þá áhættu að málið félli á formgalla. Sama hefðu þau áður gert varðandi deiliskipulagið sem fellt var úr gildi.