Eftirlit Við landamærastöðina í Lernacken á Skáni í Svíþjóð, við Eyrarsundið. Þeir sem eiga leið um Eyrarsunds-brúna þurfa að sýna skilríki þegar farið er til Svíþjóðar og gera grein fyrir ferðum sínum. Það lengir ferðatímann.
Eftirlit Við landamærastöðina í Lernacken á Skáni í Svíþjóð, við Eyrarsundið. Þeir sem eiga leið um Eyrarsunds-brúna þurfa að sýna skilríki þegar farið er til Svíþjóðar og gera grein fyrir ferðum sínum. Það lengir ferðatímann. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Sverrir Björn Þráinsson, sem búsettur er í bænum Höganäs á Skáni í Svíþjóð og fer nokkrum sinnum í viku yfir Eyrarsundsbrúna til Kaupmannahafnar, segir aukið landamæraeftirlit vissulega hafa áhrif á lengd ferðarinnar. Hann sé þó sáttur við eftirlitið og telur að það veiti aukið öryggi.

Sverrir fer alla jafna á einkabíl yfir Eyrarsundsbrúna en eftirlit með umferð þeirra um brúna var aukið fyrir um tveimur mánuðum.

Fyrr í vikunni var tekið upp landamæraeftirlit á lestarstöðvum með þeim sem ferðast frá Kaupmannahöfn yfir Eyrarsundið, til Svíþjóðar.

Það er viðbót við það landamæraeftirlit sem Svíar tóku upp á brúnni yfir Eyrarsund í nóvember síðastliðnum. Þá var landamæraeftirlit aukið með bílum sem aka yfir brúna yfir sundið, á milli Kaupmannahafnar og Skáns í Svíþjóð og við ferjuhafnir í suðurhluta Svíþjóðar. Í upphafi var eftirlitinu ætlað að vera tímabundið og gilda einungis í tíu daga, en hefur nú verið framlengt um óákveðinn tíma.

Lögregla í hverjum bás

„Ég hafði aldrei verið stoppaður á brúnni fyrr en þetta eftirlit var tekið upp í nóvember. Skyndilega voru komnar landamæralöggur við hvern bás á brúnni. En það er bara á leiðinni til Svíþjóðar, það er ekkert eftirlit á leiðinni til Danmerkur,“ segir Sverrir. „Það er engum hleypt í gegn til Svíþjóðar nema hann geti sannað að hann búi í Svíþjóð eða eigi erindi þangað.“

Hann segist oft sjá þegar hann er á ferðinni að bílar séu kyrrsettir á brúnni eða þeim gert að snúa við. Sjálfur hefur hann ekki lent í því, enda með sænsk skilríki. „En tengdaforeldrar mínir, sem komu hingað um jólin og óku frá Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn og til mín, þurftu að útskýra fyrir landamæravörðunum hvaða erindi þau ættu til Svíþjóðar, þau þurftu að gefa upp nöfnin á okkur sem þau voru að heimsækja og kennitölurnar okkar.“

Ágætt að hafa aukið eftirlit

Eftirlitið á Eyrarsundsbrúnni lengir ferðatíma Sverris frá Kaupmannahöfn til Svíþjóðar nokkuð, einkum þegar mikil umferð er um brúna. Hann segist þó ekki telja það eftir sér. „Mér finnst ágætt að hafa aukið eftirlit. Þetta eykur öryggistilfinningu mína og að mínu mati eru engar öfgar í þessu. Þeir Svíar sem ég hef rætt þetta við eru flestir á sama máli.“

Fólk verður sér einfaldlega úti um skilríki

Á mánudaginn tóku Svíar upp eftirlit með lestum sem koma frá Danmörku til að sporna við straumi flóttafólks til landsins. Í eftirlitinu felst að til að fá að fara inn í landið þarf að framvísa gildum skilríkjum með mynd. Í kjölfarið tóku Danir upp landamæraeftirlit á landamærum Danmerkur að Þýskalandi.

Danska þingið samþykkt nýverið lög þess efnis að fyrirtækjum í fólksflutningum sem fara landleiðina á milli landa verði heimilt að skoða skilríki farþega og í gær ræddi Inger Støjberg, útlendinga- og innflytjendamálaráðherra Danmerkur, frekari útfærslur á landamæraeftirliti á fundi með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Þessar útfærslur fela í sér að lögð verði svokölluð flutningsaðilaábyrgð á fólksflutningafyrirtæki eins og t.d. dönsku járnbrautirnar og rútufyrirtæki. Viðkomandi fyrirtæki ber þá ábyrgð á að enginn farþegi þess fari ólöglega yfir landamærin, að viðlagðri fjársekt. Ekki hefur verið ákveðið hvort af þessu fyrirkomulagi verði.

„Ef það verður nauðsynlegt, þá leggjum við flutningsaðilaábyrgðina á. Það getur gerst með skömmum fyrirvara. Danmörk hefur ekki í hyggju að verða endastöð þúsunda hælisleitenda,“ sagði Støjberg á blaðamannafundi í gær.

Morgan Johansson, dóms- og innflytjendamála-ráðherra Svíþjóðar sat einnig fundinn í gær og ítrekaði að landamæraeftirlit Svía væri nauðsynleg aðgerð.

Landamæraeftirlit Svía á lestarstöðvum hefur borið tilætlaðan árangur þann stutta tíma sem það hefur verið virkt, þ.e. hælisleitendum hefur fækkað talsvert í þeim hluta landsins þar sem eftirlitið fer fram. Sérfræðingar í málefnum flóttafólks segja að þetta sé skammgóður vermir, ekki líði á löngu þar til fólk muni einfaldlega verða sér úti um skilríki, fölsuð eða ófölsuð. Aðrir spá því að þetta muni leiða til þess að fólki verði smyglað inn í landið í auknum mæli.

Marcus Knuth, þingmaður Venstre-flokksins í Danmörku, segir „óábyrga útlendingastefnu“ Svía hafa valdið Dönum „sársaukafullum höfuðverk“ og segir Svía slæma nágranna. „Svíarnir hafa verið með opið hús, en þegar fólk mætir segja þeir: farið yfir til nágrannans,“ sagði Knuth við Jyllands-Posten.