Guðjón Tómasson
Guðjón Tómasson
Eftir Guðjón Tómasson: "Það getur aldrei gengið að láta örlítið brot opinberra starfsmanna ráðstafa óskiptum þjóðartekjum til opinberu elítunnar."

Örlítið meira um stjórnarskrána og jafnrétti fyrir landslögum.

Í grein minni, sem birtist í Morgunblaðinu 22. desember síðastliðinn, fór ég yfir nokkur helstu atriði sem gera verður strax til að leiðrétta þann mismun sem er á framkvæmdinni í dag, þannig að allir þegnar landsins sitji við sama borð. Nei, stjórnarskrárbundin atriði má aldrei nota sem skiptimynt í kjarasamningum við einstaka hópa opinberra starfsmanna eins og margsinnis hefur skeð. Í viðræðum mínum við samningamenn einstakra starfshópa opinberra starfsmanna hefur komið fram að samninganefnd ríkisins hafi haldið því fram að laun þeirra mættu vera 15-18% lægri en á almenna markaðnum vegna þess hvað lífeyrissjóðurinn er góður. Svo ekki sé minnst á sérákvæðið hjá hæstaréttardómurunum, sem halda dómaralaununum út ævina.

Þessari taumlausu þjónkun við opinbera aðalinn verður að linna, því stjórnarskráin nær til allrar þjóðarinnar og leyfir því ekki nein sérákvæði til handa einstökum hópum þjóðarinnar, þótt þeir séu opinberir starfsmenn. Menn verða að fara að gera sér grein fyrir því að stjórnarskráin heimilar ekki neina mismunun til einstakra hópa samfélagsins. Það má því segja að grunnatriði hennar sé að allir þegnar landsins skuli vera jafnir fyrir landslögum. En svo er nú aldeilis ekki og hefur ekki verið síðastliðin liðlega 20 ár. Af valdhöfum okkar ber forseti okkar, Ólafur Ragnar Grímsson, höfuð og herðar yfir aðra, enda vísað tveimur stórum álitamálum til þjóðarinnar til afgreiðslu, sem sparaði þjóðarbúinu fúlgur fjár. En því miður virðist mér sem hinn hluti stjórnvaldsins, það er alþingi sjálft, sé bara ánægt með að vera hluti af þessari forgangsröð elítunnar. Þó hafa einstaka þingmenn minnihlutans rætt um að það þyrfti að fá nýja stjórnarskrá, einkum Píratar, en enginn minnist á það, að það hefur ekki verið farið eftir henni í rúm 20 ár. Já og svo eru þingmenn hissa á því hvað tiltrú almennings á alþingi hefur fallið gífurlega á undanförnum árum. Vandamálið er að mínu viti ekki fjárhagslegt, heldur er um hreint siðferðisvandamál að ræða. Það getur aldrei gengið að láta örlítið brot opinberra starfsmanna ráðstafa óskiptum þjóðartekjum til opinberu elítunnar. Nei, þessi vinnubrögð ganga einfaldlega ekki, og sást það best í Fréttablaðinu á gamlársdag, en þar kemur meðal annars fram að enn á ný er komið með viðbótarhækkanir við þær sem fólust í úrskurðinum frá 17. nóvember síðastliðnum. Nú var yfirvinna embættismanna hækkuð um 14,3%, en auk þess voru laun hæstaréttardómara hækkuð um 48,1%, og nemur hækkunin ein kr. 559.202,00, sem er um það bil þreföld mánaðarlaun lægstu öryrkja og eldriborgara. Stjórnarskráin hefur ekki verið í heiðri höfð síðastliðin 20 ár og þar bera allir þingmenn sem setið hafa á þingi þann tíma mikla ábyrgð, því þeir hafa allir svarið eið að stjórnarskránni, en ekki farið eftir henni. Það eru einfaldlega þið sem hafið brugðist þjóðinni, en ekki stjórnarskráin, því hún hefur aldrei heimilað þessa framkvæmd.

Því vil ég nú ákalla forustumenn ríkisstjórnarflokkanna, þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bjarna Benediktsson, að sjá til þess að sett verði nú þegar í byrjun janúar 2016 lög, sem taki á eftirfarandi málum: Í fyrsta lagi að sett verði lög um lágmarkslaun til handa öryrkjum og eldriborgurum, til dæmis kr. 300.000 á mánuði, og að tryggt verði að þau taki ávallt sömu hækkun og aðrir fá hverju sinni. Í öðru lagi þarf að marka það launabil, sem heimilt er að semja innan, bæði á almenna og opinbera markaðnum, sem verði aldrei hærra en þreföld lágmarkslaunin. Í þriðja lagi þarf að setja í lög ákvæði þess efnis, að séu laun yfir einni milljón á mánuði falli verkfallsrétturinn niður. Í fjórða lagi þarf að koma sterkum böndum á ofurlaunahópinn, sem ákvarðar laun sín sjálfir. Þessi breiði hópur, sem telur tugi þúsunda einstaklinga, bæði sjálfstæða atvinnurekendur, embættismenn og lögfræðinga, svo nokkrir hópar séu nefndir. Þessir hópar hafa brennt að baki sér allt sem telst til góðs siðferðis, og dæmi um aðila sem hafa greitt sér yfir 40 milljónir í mánaðarlaun. Mín skoðun er sú að þessi siðgæðisbrestur verði best lagfærður með því að leggja sérstakan hátekjuskatt á öll laun yfir einni milljón á mánuði. Skatturinn væri 5% á hverjar byrjaðar 100.000 kr. og gæti hæst farið í 90% af greiddum launum. Með þessari aðferð fengjust einnig mikilvægar upplýsingar til efnahagslegrar stjórnunar, um leið og hún bætti almennt siðferði í landinu. Að lokum vil ég taka fram að hér er verið að fjalla um hluta þjóðartekna, sem varða alla þegna þjóðfélagsins.

Höfundur er eldri borgari.