Fyrstur í ár Stór sýning á verkum Jóns Laxdal verður opnuð í Listasafninu 16. janúar. Hann var í safninu í gær.
Fyrstur í ár Stór sýning á verkum Jóns Laxdal verður opnuð í Listasafninu 16. janúar. Hann var í safninu í gær. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Skapti Hallgrímsson skapti@mbl.is Listasafnið á Akureyri telst nú viðurkennt safn skv. nýlegum safnalögum. Menntamálaráðherra ákvað það rétt fyrir áramót en til að svo sé þarf að uppfylla margvísleg skilyrði. Fyrstu sýningar ársins verða opnaðar 16.

Skapti Hallgrímsson

skapti@mbl.is

Listasafnið á Akureyri telst nú viðurkennt safn skv. nýlegum safnalögum. Menntamálaráðherra ákvað það rétt fyrir áramót en til að svo sé þarf að uppfylla margvísleg skilyrði. Fyrstu sýningar ársins verða opnaðar 16. janúar.

„Þessi ákvörðun er sérstakt fagnaðarefni fyrir Listasafnið, hún eykur möguleika þess töluvert en leggur því einnig mikilvægar skyldur á herðar,“ segir Hlynur Hallsson, safnstjóri, um ákvörðun ráðherra sem tekin var að fenginni tillögu safnaráðs.

Viðurkenndum söfnum ber að starfa í samræmi við ákvæði safnalaga og skilyrði reglugerðar um viðurkenningu safna. Safnaráð hefur lögum samkvæmt eftirlit með safnastarfsemi í landinu. „Á döfinni eru miklar breytingar á húsnæði Listasafnsins. Aðstaða fyrir gesti batnar til muna, safnið verður aðgengilegra fyrir hreyfihamlaða og nýir, glæsilegir sýningarsalir verða opnaðir sem bjóða upp á mikla möguleika. Í framtíðinni verður boðið upp á fasta sýningu á verkum úr safneigninni sem hægt verður að ganga að sem vísri og gegna mun mikilvægu hlutverki í öllu fræðslustarfi Listasafnsins. Hafist verður handa við endurbætur á þessu ári en ráðgert er að opna nýtt og endurbætt safn árið 2018, sem verður vel við hæfi á 25 ára afmæli safnsins,“ segir Hlynur.

Sýningarárið byrjar með þremur opnunum í janúar. Jón Laxdal Halldórsson opnar sýningu í mið- og austursal Listasafnsins þann 16. janúar næstkomandi undir yfirskriftinni ...úr rústum og rusli tímans , en þar má sjá verk frá löngum ferli Jóns sem myndlistarmanns ásamt nokkrum nýjum verkum sem gerð voru sérstaklega fyrir sýninguna.

Samhliða opnun Jóns mun Samúel Jóhannsson opna sýninguna Samúel í vestursal og er hún hluti af fjögurra sýninga röð sem stendur til 13. mars. Hver verður í tvær vikur og eru aðrir sýnendur Jonna – Jónborg Sigurðardóttir, Baldvin Ringsted og Noemi Niederhauser.

Sýningin í drögum / Prehistoric Loom IV verður opnuð í Ketilhúsinu 23. janúar en þar sýna 27 alþjóðlegir listamenn, þar af sjö íslenskir. Á meðal annarra listamanna sem sýna í ár má nefna Akureyringana Gunnar Kr. og Thoru Karlsdóttur, Ásdísi Sif Gunnarsdóttur og síðast en ekki síst bandarísku vídeólistakonuna Joan Jonas. Þess má geta að mikil áhersla verður áfram lögð á fræðslustarf safnsins, t.d. boðið upp á fyrirlestra á hverjum þriðjudegi yfir vetrartímann.