Alexander G. Eðvardsson
Alexander G. Eðvardsson
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Yfirfæranlegt tap íslenskra fyrirtækja að fjárhæð 7.400 milljarðar kr. skýrist væntanlega að stærstum hluta af tapi í kjölfar hrunsins. Þetta er mat Alexanders G.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Yfirfæranlegt tap íslenskra fyrirtækja að fjárhæð 7.400 milljarðar kr. skýrist væntanlega að stærstum hluta af tapi í kjölfar hrunsins.

Þetta er mat Alexanders G. Eðvardssonar, sviðsstjóra skatta- og lögfræðisviðs KPMG, en um er að ræða tap skv. skattframtölum fyrirtækja sem búið var að skila fyrir álagningu í október. Til samanburðar var yfirfæranlegt tap 2011 rúmir 9.000 milljarðar.

Urðu fyrir miklu gengistapi

Alexander bendir á að við efnahagshrunið hafi fjöldi fyrirtækja orðið fyrir miklu gengistapi.

Slíku tapi sé dreift á þrjú ár. Hafi gengistapið til dæmis verið 300 milljónir 2008 bar að dreifa 100 milljónum á þrjú rekstrarár. Það sama gildi um gengishagnað fyrirtækja. Heimilt er að nýta tap á móti skattskyldum hagnaði næstu 10 ár eftir að það myndast en fellur niður eftir það.

„Ég held að stærsti hluti þessa taps hafi orðið til í hruninu 2008. Þá féll gengi krónunnar mjög mikið og þar með varð gífurlegt gengistap hjá félögum sem voru með erlend lán. Það fór beint til gjalda í rekstrarreikning þeirra og varð að skattalegu yfirfæranlegu tapi.

Væntanlega eru föllnu bankarnir með í þessum tölum. Nú þegar þeir eru að ljúka sínum skiptum þurrkast það tap mikið til út og tölurnar lækka væntanlega... Það má líka benda á að ákveðin tegund eignarhaldsfélaga – þótt þau séu ekki lengur mörg – er yfirleitt með yfirfæranlegt tap. Þau félög eru aldrei með skattskyldan hagnað. Það er vegna þess að ef þau eiga eignarhluti í íslenskum félögum er móttekinn arður af þeirri hlutabréfaeign ekki skattlagður hjá því félagi, heldur þegar hluthafinn tekur út arð. Söluhagnaður af hlutabréfum er heldur ekki skattlagður hjá eignarhaldsfélaginu. Það gerist ekki fyrr en hluthafinn tekur hann til sín. Mörg þessara félaga eru með lán, vaxtagjöld og rekstrarkostnað og sá kostnaður myndar yfirfæranlegt tap, sem nýtist ekki. Þetta er væntanlega ekki há fjárhæð, en hún telur þó.“