Magnús Jónatansson fæddist á Akureyri 4. mars 1943. Hann lést l. janúar 2016.

Foreldrar hans voru Bergþóra Lárusdóttir frá Heiði á Langanesi og Jónatan Magnússon vélstjóri, f. á Ólafsfirði, búsett á Akureyri. Magnús var næstelstur fimm systkina, eftirlifandi eru Jóna Þrúður og Sævar, en látin eru Alda og Björgvin Smári.

Sambýliskona Magnúsar var Sigríður Jósteinsdóttir, en þau slitu samvistir. Börn þeirra eru Alda Sif og Jónatan Þór. Fyrir átti Magnús börnin Jónínu Kristínu og Magnús Þór. Sambýlismaður Öldu er Vilhelm Adolfsson og eiga þau börnin Sunnevu Maríu og Axel Óla, en dóttir Vilhelms er Amelia Rún. Eiginkona Jónatans er Sigurborg Bjarnadóttir og eiga þau börnin Magnús Dag, Júlíu Karen og Rakel Söru. Eiginmaður Jónínu er Jóhann Hólm Ríkarðsson og eiga þau börnin Bergþóru, Sigurð Loft og Helgu Dóru. Magnús Þór er kvæntur Katrínu Snædal Húnsdóttur og eiga þau börnin Baldvin Þór og Heiðrúnu. Fyrir átti Sigríður börnin Hrönn, Hjört Þór og Arnar Unnarsbörn. Börn Hrannar eru Andri Már, Örvar, Viktor og Sara. Börn Hjartar eru Unnur Sif, Atli Hrafn og Vigdís Arna. Börn Arnars eru Daníel Örn, Sigríður Ása og Ísabella Lív.

Magnús lærði skipasmíðar hjá Skipasmíðastöð KEA. Lengi starfaði hann við smíðar en síðar sem húsvörður við Síðuskóla á Akureyri. Magnús var afreksmaður í íþróttum og var alla tíð félagi í Íþróttafélaginu Þór Akureyri. Hann lék knattspyrnu með Þór og ÍBA, körfubolta með Þór, auk þess spilaði hann fimm A-landsliðsleiki í knattspyrnu. Eftir að íþróttaferlinum lauk starfaði Magnús sem knattspyrnudómari og -þjálfari til fjölda ára. Hann hlaut fjölmargar viðurkenningar, þar á meðal gull- og silfurmerki Þórs, heiðursviðurkenningu ÍBA og silfurmerki KSÍ.

Útför Magnúsar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 7. janúar 2016, kl. 13.30.

Elsku pabbi.

Þrátt fyrir að ég hafi reynt að undirbúa mig fyrir það að sitja hér og skrifa um þig minningarorð, þá er það samt sem áður afar erfitt. Fyrir næstum því sex árum fluttum við Bogga til Noregs. Ég vissi að þú varst ekkert hrifinn af þeirri ákvörðun okkar, vildir eflaust hafa okkur nær þér og sjá meira af okkur og börnunum okkar sem þú elskaðir takmarkalaust. En þú sagðir það þó ekki, vitandi að þetta var það sem við vildum. Það að búa erlendis hefur sína kosti og galla eins og allir þekkja sem það hafa prófað. En við Bogga ræddum það okkar á milli að vonandi héldu foreldrar okkar heilsu þessi ár, vitandi að það er meira en að segja það að flytja aftur heim. En svo skömmu eftir að við fluttum út greinist þú með þennan hræðilega sjúkdóm, alzheimer.

Það var hræðilega erfitt að horfa á hvernig sjúkdómurinn fór með þig, vitandi að ekkert væri hægt að gera annað en vera til staðar, knúsa þig og reyna að gera dagana bærilega. Ég er ótrúlega þakklátur öllum þeim sem komu að umönnun þinni, ekki síst starfsfólkinu á Hlíð og Lögmannshlíð. Alda systir, með Villa mág minn sér við hlið, hefur verið kletturinn þinn og orð fá ekki lýst hve vel þau hafa staðið sig í þessari vonlausu baráttu.

Íþróttir hafa átt hug minn allan frá því ég var smábarn, það hef ég að sjálfsögðu frá þér.

Eina góða sögu heyrði ég um pabba. Eitt sinn var breskur þjálfari að þjálfa liðið hans og pabbi sem fyrirliði þurfti að þýða ræður þjálfarans. Það var svo fyrir einn mikilvægan leik að þjálfarinn blaðraði þessi ósköp og snéri sér svo að pabba og gaf honum orðið. Pabbi varð smá hugsi og sagði svo: „Strákar berjast.“ Meira var ekki sagt og þetta lýsir pabba mjög vel. Hann var ekki maður orða heldur lét verkin tala. Hann var baráttuhundur, fór sínar eigin leiðir og kvartaði ekki. Aldrei hef ég heyrt pabba kvarta. Hann talaði aldrei mikið um eigin tilfinningar og lét ekki tilfinningar sínar mikið í ljós. Hann veitti mér mikinn stuðning við íþróttaiðkun mína og sleppti varla úr leik hjá mér sem barni.

Ég minnist þess þegar ég fékk að fara með pabba í skemmuna gömlu. Þá var pabbi að fara í fótbolta, löngu hættur að spila alvöru keppnisleiki en ég fylgdist með honum aðdáunaraugum. Ég taldi mörkin hans og gaf honum svo einkunn í bílnum eftir skemmutímann. Hápunkturinn var svo þegar við stoppuðum í sjoppu á eftir og fengum okkur Coke og Prins, já eða pylsu með öllu, en það gerðist ósjaldan, sérstaklega ef mamma hafði eldað eitthvað sem við feðgar vorum ekki hrifnir af.

Ég mun alla tíð minnast þín, pabbi, fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, þú varst minn klettur, sem nú er farinn, búinn að fá hvíldina þína langþráðu. Búinn að spila þinn síðasta leik og maður lifandi hvað þú barðist, elsku pabbi minn. Ég mun halda áfram að segja börnunum mínum sögur af þér, hetjusögur, þó allar sannar. Magnús Dagur, nafni þinn, biður mig stundum að segja sér sögur frá því þegar þú varst í landsliðinu. Hann segist ætla að verða eins og þú.

Elsku pabbi, hvíl í friði. Þinn sonur,

Jónatan.

mbl.is/minningar

Við fyrstu morgunskímu nýs árs lauk móðurbróðir okkar, Magnús Jónatansson, sinni vegferð. Einhvern veginn var það við hæfi að sterkur maður veldi svo sérstaka stund til að kveðja.

Maggi var best þekktur sem afreksmaður í íþróttum en fyrir okkur var hann fyrst og fremst einstakt ljúfmenni og traustur frændi og vinur. Þrátt fyrir að þessi orð séu skrifuð með sorg í hjarta er reyndin sú að þau kalla einnig fram gleði. Maggi var sérstaklega barngóður og hafði einstakt lag á að leika við okkur frændsystkinin svo ískraði í okkur af æsingi og gleði. Það er auðvelt að rifja upp hláturinn hans Magga og sjá hann fyrir sér með glottið sitt.

Út á við var Maggi ekki mikill tilfinningamaður en við skynjuðum alltaf hans miklu ást og alúð. Sína væntumþykju sýndi hann frekar í verki sem skilaði sér vel inn í hjörtu þeirra sem við tóku. Hið rólega og þægilega fas Magga og nægjusemin sem einkenndi hann gerði það að verkum að okkur leið alltaf vel í kringum hann. Það var ákveðið öryggi sem færðist yfir mann að vera nálægt honum. Með sínum hætti hafði hann mikil áhrif á aðra og umhverfið í kringum sig og hafði lag á því að finna þá sem þurftu á hvatningu að halda og styðja við þá.

Maggi var sterk persóna, bæði einfaldur og flókinn. Hans háttalag og stóri persónuleiki gerði það að verkum að það var eins og það giltu ekki alveg sömu reglur um hann og aðra. Hann fór sínar eigin leiðir og enginn sagði honum fyrir verkum. Hann mælti aldrei styggðaryrði um aðra og kvartaði aldrei. Sannkölluð fyrirmynd fyrir okkur öll. Samfélög væru betri ef fleiri væru eins og Magnús Jónatansson úr Norðurgötu 26.

Við systkin þökkum Magga fyrir samfylgdina í gegnum árin, við erum ríkari eftir.

Ari Jón, Alfa

og Bergþóra Arabörn.

Maggi frændi var alla tíð ein af hetjunum í mínu lífi. Hetjurnar mínar spiluðu á Akureyrarvellinum; fyrst í búningi ÍBA og síðar í heittelskuðum Þórsbúningnum. Fyrir utan pabba var Maggi aðalhetjan. Hann var fyrirliði og leiðtogi liðanna á þessum tíma – ótrúlega svalur og svo var hann líka býsna góður í fótbolta. Hann lék landsleiki fyrir Ísland og var fyrirliði ÍBA í bikarsigrinum árið 1969. Um frammistöðu hans í þeim leik sagði einn fjölmiðillinn að hann hefði átt skilið tvo verðlaunapeninga. Það var ekkert slor fyrir ungan gutta að fá að njóta félagsskapar slíkrar hetju utan vallar, svo sem í eldhúsinu í Norðurgötunni og á vinsælum pylsurúntum. Maggi var alla tíð hetja í mínum huga og mun alltaf verða. Ein af mínum uppáhaldsmanneskjum í lífinu. Leiðarljós hans mun lifa áfram og honum til heiðurs fæ ég mér í það minnsta eina pylsu með tómat, sinnepi og hráum.

Þorgils Sævarsson.

Knattspyrnuhreyfingin hefur misst góðan félaga, Magnús Jónatansson. Magnús var einn litríkasti knattspyrnumaður Akureyrar og Íslands – mikill baráttumaður. Hann var 16 ára þegar hann lék fyrst með liði Íþróttabandalags Akureyrar, ÍBA, 1959 og lék hann með ÍBA 14 keppnistímabil 1959-1973. Magnús var fyrirliði ÍBA-liðsins sem varð bikarmeistari 1969 með því að leggja ÍA að velli í tveimur úrslitaleikjum á Melavellinum, 1:1 og 3:2. Magnús lék fimm A-landsleiki á árunum 1965-1970 – klæddist landsliðspeysunni fyrst í leik gegn Dönum á Laugardalsvellinum, 22 ára.

Hann gerðist þjálfari 1974 – þjálfaði og lék með Magna á Grenivík í nokkur ár, þjálfaði hjá Reyni Árskógsströnd og hjá KS á Siglufirði, auk þess að þjálfa austur á fjörðum. Þegar Magnús hætti þjálfun gerðist hann dómari og dæmdi í efstu deild Íslandsmótsins á árunum 1985-1989. Þá kom sér vel reynsla Magnúsar af leikvellinum. Ekki lét Magnús þar við sitja og eftir dómaraferilinn tók Magnús að sér störf eftirlitsmanns KSÍ.

Spor Magnúsar Jónatanssonar liggja víða í íslenskri knattspyrnu. Hann var sæmdur gullmerki KSÍ 2007 en það var aðeins lítill þakklætisvottur fyrir ævistarf hans innan raða knattspyrnuhreyfingarinnar. Magnús var karakter sem setti sterkan svip á knattspyrnuna á Íslandi og var einn af þeim sem gerðu leikinn skemmtilegri og vinsælli meðal almennings. Félögum í Íþróttafélaginu Þór, vinum og ættingjum sendum við samúðarkveðju. Við minnumst ferils Magnúsar með hlýhug og þakklæti.

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.

HINSTA KVEÐJA

Þú varst hraustur, þjáning alla
þoldir þú og barst þig vel,
vildir aldrei, aldrei falla:
Uppréttan þig nísti hel.
Þú varst sterkur, hreinn í hjarta,
hirtir ei um skrum og prjál;
aldrei náði illskan svarta
ata þína sterku sál.
(Mattías Jocumsson)
Hjartans þakkir fyrir allt, elsku Maggi.
Hvíl í friði.
Arnar.

Nú legg ég augun aftur,
Ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)

Guð geymi þig, elsku Maggi minn. Þín tengdadóttir,
Sigurborg Bjarnadóttir.
Elsku afi Maggi.
Við höfum átt margar skemmtilegar stundir saman. Þú ert besti afi í heimi. Ég man þegar ég heimsótti þig á elliheimilið og við fórum í boltaleik. Ég elska þig meira en allt og ég mun aldrei gleyma þér.
Kveðja,
Magnús Dagur
Jónatansson.