Karl í koti er einn þeirra sem yrkja á fésbók. Eitt sinn orti hann 17. júní: Er ég kom í æskudalinn eins og kjáni einn mér þótti alveg galinn, annar bjáni. Lítið hefur hinsvegar frést af karli síðustu misserin. Hann átti afmæli 6.

Karl í koti er einn þeirra sem yrkja á fésbók. Eitt sinn orti hann 17. júní:

Er ég kom í æskudalinn

eins og kjáni

einn mér þótti alveg galinn,

annar bjáni.

Lítið hefur hinsvegar frést af karli síðustu misserin. Hann átti afmæli 6. janúar og fær hann hamingjuóskir frá umsjónarmanni Vísnahornsins. Á afmælisdaginn fyrir ári fékk hann vísu frá Sigurði Ingólfssyni:

Sem mér þykir sælt og ekki súrt í broti

að ennþá tóri Karl í Koti,

kyndugur og vel á floti.

Og kerlingin á Skólavörðuholtinu orti til karls í koti:

Hyggstu vera enn eitt árið

eins og draugur?

Greiddu á þér gráa hárið

gamli haugur.

Þá Skarphéðinn Ásbjörnsson:

Legið hefur lengi í roti,

langar nætur.

En núna virðist Karl í Koti,

kominn á fætur.

Á þriðjudag orti Sigmundur Benediktsson „veðurvísu dagsins“ á Leir:

Litadýrð um landið hleypti

ljósi stráði víðan geim,

brúnir skýja gulli greypti

glaðbeitt sól að baki þeim.

Davíð Hjálmar Haraldsson bætti við:

Bítur Frosti. Búin jólin.

Baksar hrafn um loftsins veg.

Felst að baki fjalla sólin,

föl og kollindoðruleg.

Fía á Sandi tekur undir og segir:

Í skógi bláar skuggarendur

skelfur hélað strá.

Jólatré í stofu stendur

stjörnum slökkt er á.

Lág er sól og lítið skín

og lognið frekar svalt.

Ég á orðið ekkert vín

og inni er frekar kalt.

Sigmundur Benediktsson skyggnist yfir sviðið:

Sopið til dreggja er glasanna gull

glerið er hélað í valnum.

Stjörnurnar huldar og Fía er full

og fullkomið myrkur í dalnum.

Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum hefur um margt að hugsa á þrettándanum:

Við mig ræða vitrir menn

virðast bíða þar í röðum.

Því þá nefnir enginn enn

að ég fari að Bessastöðum?

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is