Stuðningur Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, og Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, handsala í gær samning til næstu þriggja ára.
Stuðningur Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, og Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, handsala í gær samning til næstu þriggja ára. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Í sumar verður sett nýtt gervigras í knattspyrnuhúsið Bogann. Gert er ráð fyrir um 100 milljónum króna í verkið í nýrri fjárhagsáætlun sem samþykkt var um miðjan desember.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Í sumar verður sett nýtt gervigras í knattspyrnuhúsið Bogann. Gert er ráð fyrir um 100 milljónum króna í verkið í nýrri fjárhagsáætlun sem samþykkt var um miðjan desember.

Félög og foreldrar barna sem æfa knattspyrnu í Boganum hafa lagt mikla áherslu á að skipt verði um gras enda verið notast við það upprunalega síðan 2003, þegar húsið var tekið í notkun. Það er orðið skemmt og þykir hættulegt, bæði vegna slits og þess að í gúmmíkurli sem er í grasinu eru efni sem geta verið hættuleg heilsu fólks.

Frístundastyrkur til niðurgreiðslu á æfinga- og þátttökugjöldum barna og unglinga í bænum hækkaði úr 12 þúsundum krónum í 16 þúsund um áramót skv. ákvörðun íþróttaráðs bæjarins. Styrkurinn gildir fyrir börn á aldrinum sex til 17 ára.

Akureyrarbær hefur veitt styrk til allra barna og unglinga í bænum frá 2006, til að niðurgreiða þátttökugjöld hjá íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsfélögum. Styrkurinn tekur gildi árið sem barn verður sex ára og fellur úr gildi árið sem unglingurinn verður 18 ára. Í ár gildir styrkurinn því fyrir börn sem fædd eru 1999 til 2010.

Til að nota styrkinn þarf að fara inn á heimasíðu þess félags þar sem skrá á barn til þátttöku.

Norðurorka gekk í gær frá þriggja ára samningi við Listasafnið á Akureyri og verður þar með áfram helsti samstarfsaðili safnsins. Hlynur Hallsson, safnstjóri, sagði við undirskriftina að styrkur Norðurorku skipti sköpum og Helgi Jóhannsson, forstjóri Norðurorku, lýsti einnig yfir mikilli ánægju með að styrkja við menningarlífið.

Fullyrt er að jólum hafi lokið í gær og margir því líklega farnir að velta því fyrir sér að henda jólatrénu, amk þeir sem skrýddu íbúðina lifandi tré að þessu sinni. Vert er að benda á að sérstakir gámar undir tré hafa verið settir upp við grenndarstöðvar, þar sem hægt er að henda trjám. Þau verða síðan kurluð og notuð við stígagerð og sem yfirlag á trjá- og runnabeð.