Anna Jeppesen fæddist 4. maí 1939. Hún lést 15. desember 2015.

Útför Önnu Jeppesen fór fram 30. desember 2015.

Elsku vinkona mín, Anna Jeppesen, er dáin. Hugurinn reikar aftur um rúmlega hálfa öld. Haustið 1960, ég er 12 ára á leið í skólann, ekki laust við smá fiðring í maganum því ég hafði heyrt að við í 6.a fengjum nýjan kennara en vissum ekki hvern. Bekkurinn safnast saman inn í stofu við borð og stóla. Inn kemur rosa flott ung kona með Birgittu Bardot- hárgreiðslu í þröngu pilsi, peysu fleginni að aftan og í amerískum mokkasíum, vá hvað hún var flott! Hún horfir yfir bekkinn og lítur upp til lofts og síðan á okkur og segir: „Ég heiti Anna Jeppesen og ætla að kenna ykkur í vetur. Þið eruð fyrstu nemendurnir mínir og það á eftir að koma í ljós hvernig okkur gengur en eitt veit ég, að það sem ég segi við ykkur megið þið segja við mig.“ Þetta þótti einum stráknum skrítið og spurði hvað hún ætti við. Jú, ef hún t.d. segði okkur að þegja þá mættum við segja það sama við hana. Veturinn leið án þess að nokkur segði nokkrum að þegja og þessi vetur var skemmtilegur og áfallalaus í okkar deild. Við kynntumst nýjum kennsluaðferðum og fengum langflottasta kennarann.

Árin liðu og næst hittumst við í febrúar 1969 á fæðingardeildinni á Húsavík og fór vel á með okkur. Það var í þessari sængurlegu sem hún sagði mér hvað hún hefði kviðið mikið fyrir þessum skóladegi, henni hefði bara verið hent út í djúpu laugina skjálfandi eins og hríslu.

Árið 1973 gekk ég í Leikfélag Húsavíkur og þar var Anna. Fórum við í að hrista upp í karlaveldinu sem varð til þess að hún var kjörin formaður. Hún opnaði félagið, styrkti félagana og úr varð vinsælt metnaðarfullt leikhús.

Anna og fjölskylda fluttu suður og þá hófust dásamlegu búðarferðirnar okkar sem enduðu alltaf í ísbúð. Ég átti herbergi á heimili þeirra hjóna sem voru alltaf laus þegar ég mætti og það náði alla leið til Spánar. Þar tóku þau á móti okkur aftur og aftur og kynntu okkur fyrir fjöllunum, smábæjunum og mannfólkinu.

Við ferðuðumst saman um heiminn og fyrsta ferðin var akandi um Evrópu, Anna var fararstjórinn og hún kom okkur alltaf undan rigningarskýjum í átt að gati þar sem skein sól.

Það má segja að þó líf Önnu hafi ekki alltaf verið ganga í sólskini þá var það samt hennar hlutskipti í lífinu að færa allt til betri vegar, úr skugganum í sólskinið, sama hver átti í hlut. Með hlýjuna, jákvæðnina, raunsæið og skipulagsgáfuna að vopni tókst henni að koma hlutunum úr djúpa dimma dalnum upp í sólskinið á hæðinni.

Elsku Anna mín, þegar þú hringdir í mig fyrir tveimur árum og tilkynntir mér að þú ættir aðeins 2-6 mánuði ólifaða varð mér að orði að það væri bara ekki í boði. Þú náðir tveimur árum sem voru vel nýtt og þar af síðasta ferðin okkar til Spánar. Í veikindunum stóðst þú þig eins og hetja, teinrétt og falleg með Grím þinn, fjölskyldu og vini í kringum þig. Elsku vinkona, takk fyrir að standa með mér alla tíð og skilja eftir þykka góða bók minninga sem ég geymi í hjarta mínu.

Við Birgir og fjölskylda sendum Grími, Emil, Leifi, Sigríði Sif, Helenu og fjölskyldum innilegustu samúðarkveðjur.

Steinunn Áskelsdóttir.

Ég sé hana fyrir mér þegar ég sá hana fyrst í Æfingadeild Kennaraháskólans forðum. Hún var svo kröftug, brosmild, geislandi og falleg. Þessi einstaka kona sem átti eftir að kenna mér svo margt um nám og kennslu og vera mér stoð og stytta í svo ótal mörgu.

Anna Jeppesen kennari hefur nú verið kölluð úr jarðvistinni. Það er erfitt að þurfa að horfast í augu við það. Anna var kennari með stóru K-i. Ástríða hennar fyrir kennslu var öðrum hvatning sem í kringum hana voru og með henni störfuðu. Nýsköpun í kennsluaðferðum var hennar ær og kýr, þá ekki síst kennsla í leikrænni tjáningu. Hún var frumkvöðull í að nota leikræna tjáningu í kennslu og eftir að hafa sótt sér framhaldsnám í kennslu á því sviði vann hún að því að koma þeirri grein inn í námskrá kennaranámsins þar sem hún kenndi svo lengi.

Og mikið sem ég var lánsöm á mínum fyrstu starfsárum sem tónmenntakennari við ÆSK að fá að kynnast Önnu Jeppesen. Anna var af annarri kynslóð en ég, en samt náðum við einstaklega vel saman.

Þegar ég lít yfir farinn veg er Anna annar af tveimur mentorum í lífi mínu sem hafa haft hvað mest áhrif á starf mitt sem kennari. Við bundumst órjúfanlegum böndum í kennslunni og drógum fram það besta hvor í annarri. Við bókstaflega nutum þess að vinna saman, að blanda saman listgreinum inn í flestar námsgreinar og örva þannig sköpunarhæfni nemendanna sjálfra.

Önnu var alltaf svo annt um mig og náði sú umhyggja langt út fyrir hefðbundið samstarf í skólastarfi. Á erfiðum tíma í mínu lífi um jólin 1990, þegar við fjölskyldan horfðumst í augu við erfiðan ástvinamissi, hafði hún frumkvæði að því að minn góði samstarfshópur í ÆSK studdi okkur fjölskylduna sem þá bjó í Hollandi heim til Íslands. Í þeirri ferð ákváðum við Roland að gifta okkur til að einfalda dvölina úti á þeim tíma og þá voru það Anna og Grímur sem héldu okkur hóflega veislu í skugga sorgar og ég meira að segja gifti mig í fötum af Önnu minni.

Fyrir tveimur árum áttum við saman yndislegan dag á Alicante en þar bjuggu Anna og Grímur um tíma. Það var svo frábært að sækja þau heim og hún svo full af fjöri og hressari en nokkru sinni.

Aðeins örfáum mánuðum síðar, nánar tiltekið á nýársdag 2014, fékk ég fréttirnar af veikindum Önnu. Það var mikið áfall. En hún harðbannaði mér að vera áhyggjufull eða sorgmædd. Hún var svo raunsæ og sagði við mig að það væri engin ástæða til að vera sorgmæddur eða áhyggjufullur. Hvernig svo sem allt færi þá væri hún búin að eiga frábært líf með Grími sínum, hefði náð að ferðast svo mikið og víða, ætti þrjú yndisleg börn, tengdabörn og fallegan hóp barnabarna, var þakklát fyrir starfsferilinn sem hún hafði notið svo mikið, svo það væri ekki hægt annað en vera sáttur.

Vænst þykir mér um að hafa getað tekið á móti þeim Grími heima í Bolungarvík fyrir rúmu ári eftir að Anna var orðin alvarlega veik. Við áttum dásamlega daga og hugurinn hennar Önnu var svo sannarlega á fullu um skólastarf þrátt fyrir veikindin.

Ég veit að margir hugsa til þessarar yndislegu konu með miklu þakklæti fyrir það sem hún hefur gefið inn í íslenskt grunnskólastarf. Við öll eigum henni mikið að þakka fyrir hennar framlag.

Blessuð sé minning Önnu Jeppesen, kennara með risastóru K-i.

Elsku Grímur minn, Emil, Leifur, Sif og fjölskyldur, einlægar samúðarkveðjur.

Soffía (Sossa) og Roland.

Anna Jeppesen var umsjónarkennarinn okkar í 5.-10. bekk. Við minnumst hennar með mikilli hlýju. Hún var einstaklega skapandi kennari og notaði nýstárlegar aðferðir við kennsluna. Við fengum t.d. mjög mikla þjálfun í tjáningu, að koma fram og að leysa verkefni á frumlegan hátt.

Venjulegar kennslustundir voru næstum undantekning. Dagurinn byrjaði stundum á athyglisleik og endaði á „flækjumömmu“, allt upp í 10. bekk. Í miðri kennslu átti hún til að stoppa allt í einu og skipa okkur í hlutverk til að við lifðum okkur inn í atburði Gunnlaugssögu ormstungu eða kristnitökunnar.

Anna var afar hlý og alúðleg og við fundum öll að henni þótti vænt um okkur og hafði trú á okkur. Alltaf hlustaði hún af athygli og tók hugmyndum sem komu úr bekknum fagnandi. Hún lét aldrei sem hún vissi allt og var alveg óhrædd við að viðurkenna það. Stundum fletti hún upp því sem hún vissi ekki fyrir framan okkur eða fékk okkur til að gera það fyrir sig. Hún hvatti okkur einnig til að vera dugleg að spyrja og afla okkur heimilda.

Við erum full þakklætis fyrir árin okkar með Önnu. Við vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning okkar góða og eftirminnilega kennara.

Útskriftarárgangur Æfingaskólans 1996,

Guðrún Dalía Salómonsdóttir og Anna Hera

Björnsdóttir.