„Kaupendurnir eru ekki alltaf að hjálpa mörkuðunum að fá seljendur til að bæta hjá sér meðferðina á aflanum,“ segir Ragnar H. Kristjánsson og bendir á að stundum gerist það að fiskur sem var verr kældur er keyptur á hærra verði.
„Kaupendurnir eru ekki alltaf að hjálpa mörkuðunum að fá seljendur til að bæta hjá sér meðferðina á aflanum,“ segir Ragnar H. Kristjánsson og bendir á að stundum gerist það að fiskur sem var verr kældur er keyptur á hærra verði. — Ljósmynd / Hilmar Bragi Bárðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Þegar byrjað var að hitamæla og skrá uppruna alls fisks sem tekinn er inn á markað hjá Fiskmarkaði Suðurnesja voru áhrifin greinileg. Gera má enn betur, s.s. við löndun fisks úr smábátum.

Ragnar Hjörtur Kristjánsson segir að miklar framfarir hafi orðið í allri meðhöndlun fisks. Þeir sem starfa í sjávarútvegi séu vel meðvitaðir um gildi þess að fara rétt með fiskinn, kæla hann vel og tryggja að hvergi sé hvikað frá ströngustu gæðastöðlum.

Hann segir að gæðin byrji úti á sjó, en möguleikar séu til að gera betur og þar komi fiskmarkaðirnir við sögu.

Ragnar er framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Suðurnesja en á Sjávarútvegsráðstefnunni fyrr í vetur flutti hann erindi um hvað fiskmarkaðir geta gert til að auka hráefnisgæði. Fiskmarkaður Suðurnesja hóf starfsemi árið 1987 og hreykir Ragnar sér af að fyrirtækið hefur verið rekið á sömu kennitölunni alla tíð síðan. Eru starfsstöðvarnar í dag fimm talsins: Í Grindavík og Sandgerði, Hafnarfirði, Ísafirði og á Höfn í Hornafirði.

Gerðu nýtt gæðakerfi

„Árið 2008 fengum við utanaðkomandi sérfræðing, matvælafræðinginn Gústaf Hjálmarsson, til að gera úttekt á gæðum og vinnubrögðum á öllum starfsstöðvunum fimm. Sú vinna gat af sér nýtt gæðakerfi fyrir fiskmarkaði sem við kynntum Matvælastofnun og fengum þar blessun á. Innleiddum við kerfið í janúar og það hefur haft merkileg áhrif,“ segir Ragnar.

Helsta breytingin fólst í því að um leið og fiskurinn er tekinn inn á markað er hann bæði veginn og hitamældur. Hitastig fisksins er skráð sem og uppruni hans, þ.e. af hvaða báti aflinn kemur. Upplýsingunum er svo miðlað áfram til kaupenda í gegnum kerfi Reiknistofu fiskmarkaða svo þeir geti betur lagt mat á gæði vörunnar. „Það hefur sýnt sig að þessi skráning hefur fengið menn til að bæta hjá sér vinnubrögðin. Var breytingin greinilegust hjá strandveiðibátum þar sem stundum gat borið á að aflinn kæmi ekki nægilega kaldur að landi, en í dag hefur það breyst og heyrir til undantekninga að kælingunni sé ábótavant.“

Ragnar segir líka hafa orðið miklar framfarir í flutningum á fiski, en stór hluti þess afla sem seldur er á mörkuðum er fluttur landleiðina til verkunar í öðrum landshlutum. „Þar eiga stóru flutningafyrirtækin hrós skilið fyrir að taka í notkun nýja og betri bíla með kælibúnaði.“

Vandi við löndun

Næsta áskorunin segir Ragnar að felist í því hvernig fiskinum er landað, og þá sérstaklega þeim fiski sem kemur úr smábátum. „Það er ekki gott að hella öllum fiski við löndun. Fiskurinn er slægður, settur í kör um borð og kældur, en svo sturtað yfir í ný kör þegar kemur að löndun. Við þetta minnkar kælingin töluvert enda skolast kalt vatn og ís frá fiskinum við sturtunina. Einnig getur þetta valdið hnjaski á fiskinum, þó það sé minna vandamál.“

Löndunarvandann segir Ragnar ekki hægt að leysa svo glatt enda körin um borð í smábátunum oft sérsmíðuð og leyfir plássið ekki að koma megi fyrir stöðluðum körum sem má hífa frá borði og aka inn í fiskvinnslur eða beint inn á markað. „Þetta er eitthvað sem þarf að laga eftir því sem flotinn endurnýjast og veit ég að þetta er atriði sem haft er í huga við nýsmíði smábáta í dag.“

Skilaboð kaupenda

Markmiðið með þessum miklu áherslum á gæði, mælingar og rekjanleika er síðan vitskuld að betra verð fáist fyrir aflann. Þar segir Ragnar að hnífurinn standi í kúnni því hegðun kaupenda á fiskmörkuðum sé stundum þvert á það sem búast mætti við. „Kaupendurnir eru ekki alltaf að hjálpa mörkuðunum að fá seljendur til að bæta hjá sér meðferðina á aflanum,“ segir hann. „Gerist þetta einkum þegar framboðið er takmarkað og eftirspurnin mikil. Eru þá sumir kaupendur í þeim sporum að þurfa einfaldlega að fá fisk, sama hvað, til að fylla upp í pantanir. Getur þá farið svo að betur kældi fiskurinn seljist á lægra verði en sá fiskur sem var verr kældur.“