Ásmundur Óskar Þórarinsson fæddist á Siglufirði 1. janúar 1930. Hann lést á dvalarheimilinu Hlévangi, Keflavík, 27. desember 2015. Foreldrar hans voru Þórarinn Hjálmarsson, f. 7.2. 1907, d. 2.12. 1980, og Arnfríður Kristinsdóttir, f. 4.11. 1904, d. 13.6. 1976.

Ásmundur kvæntist 20. september 1953 Unni Magnúsdóttur, f. 2.2. 1933, frá Hringverskoti í Ólafsfirði. Hún átti 12 systkini. Börn Ásmundar og Unnar eru 1) Magnús Kristinn, f. 14.4. 1954, maki Maria Magdalena Sissing, börn úr fyrra hjónabandi, Henning Emil, Þórarinn, Helga og Freyja. 2) Þórarinn, f. 27.4. 1959, maki Arndís Helga Kristjánsdóttir, f. 27.5. 1958, dætur þeirra eru Ásdís Hrund og Helena. 3) Ása Bjarney, f. 19.5. 1961, d. 24.8. 2005, maki Einar Gunnarsson, f. 26.8. 1958, börn þeirra Ásmundur Óskar og Unnur. 4) Hildur Kristín, f. 25.10. 1962, maki Ásþór Kjartansson, f. 20.5. 1961, börn þeirra Þórður og María Ása. 5) Jón Örn, f. 4.11. 1964, maki Jóhanna Hafdís Sturlaugsdóttir, f. 28.2. 1970, börn þeirra Arnar Freyr og Sandra Ósk, úr fyrra sambandi Sigurður Þór.

Ásmundur starfaði lengst af sem leigubílstjóri í Keflavík.

Útförin fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 7. janúar 2016, klukkan 13.

„Getur þú ekki fengið þetta til að kaupa eitthvað almennilegt utan á sig ?“ Það var sumarið 1976. Ég starfaði hjá Jarðborunum ríkisins á jarðbornum Narfa, en hann var þetta ár staðsettur í Skútudal við jarðboranir fyrir Siglufjarðarkaupstað.

Þar kynntist ég ungri og laglegri stúlku sem seinna varð eiginkona mín.

Hún hét Ása Bjarney og var dóttir Unnar Magnúsdóttur og Ásmundar Óskars Þórarinssonar. Sem bormaður var útgangurinn á mér ekki alltaf sem beztur, enda starfið frekar óþrifalegt.

Eitthvað hef ég verið óupplitsdjarfur við þennan tengdaföður minn, svona í fyrstu, alla vega beindi hann þeirri spurningu, sem þessi grein hefst á, til dóttur sinnar eftir að hafa séð mig í fyrsta sinn.

Þannig hófust kynni okkar Ásmundar, eða Ása Tóta eins og hann var oftast kallaður.

Hann og Unnur tóku þessum tengdasyni sínum vel og höfum við oft hlegið að þessum fyrstu kynnum.

Ásmundur var þéttur á velli og hafði skemmtilega frásagnargáfu. Sérstaklega hafði hann gaman af að segja frá árum sínum í lögreglunni á Siglufirði og á Keflavíkurflugvelli.

Eftir að ég hóf störf hjá lögreglunni í Keflavík átti ég ekki roð í sögur hans frá síldarárunum á Siglufirði og fyrstu árum í sögu Keflavíkurflugvallar, Hamilton verktakafyrirtækisins og síðar ameríska hersins.

Ási Tóta lærði snemma að aka bifreið. Hann fór ungur að æfa sig á bifreið föður síns. Reyndar mjög ungur. Þetta var tveggja og hálfs tonna vörubíll. Sögur af þeim ökuferðum munu lifa lengi í hugum barna hans og barnabarna. Enda gerði Ásmundur akstur að sínu ævistarfi og var leigubílstjóri lengst af, bæði á Suðurnesjum og í Reykjavík.

Einnig var hann í félagi með Halli Guðmundssyni og Þórði Magnússyni um akstur fatlaðra skólabarna milli Suðurnesja og Reykjavíkursvæðisins. Auk þess var hann ökukennari á Suðurnesjum um árabil.

Ásmundur var mikill spilamaður og eftirsóttur bridsspilari og vann til margra verðlauna á því sviði. Ási Tóta var vinsæll og traustur.

Um það ber ferill hans fagurt vitni. Hann var alla tíð bindindismaður á áfengi og tóbak.

Þau Unnur og Ási voru okkur Ásu mjög hjálpleg allan okkar búskap. Samgangur var mikill á milli okkar og ástúð, börnunum þótti alltaf gott að koma til afa og ömmu.

Það var djúp sorg þegar Ása Bjarney dó árið 2005 og fjölskyldunni mikill harmur. Styrkur sá er Unnur og Ási sýndu þá, og hafa alla tíð sýnt, var öllum hjálpræði og stuðningur þótt þau hafi átt um sárt að binda við missi dóttur sinnar.

Þá er gott að eiga vissu um að vel hafi verið tekið á móti fyrir handan þegar Ásmundur kvaddi þennan heim. Ég þakka Ásmundi Óskari Þórarinssyni fyrir tímann sem ég fékk að vera honum samtíða.

Elsku Unni, tengdamömmu og ömmu og allri fjölskyldunni vottum við okkar virðingu og dýpstu samúð.

Einar Gunnarsson

og fjölskylda.