[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Trausti fæddist í Reykjavík 7.1. 1946 og ólst þar upp. Hann var auk þess mörg sumur í sveit í Hreppum hjá móðurfólki sínu. Trausti lauk stúdentsprófi frá MR 1967, dipl. ing.

Trausti fæddist í Reykjavík 7.1. 1946 og ólst þar upp. Hann var auk þess mörg sumur í sveit í Hreppum hjá móðurfólki sínu.

Trausti lauk stúdentsprófi frá MR 1967, dipl. ing.-prófi í arkitektúr og skipulagi frá Technische Universität í Berlín 1972 og lauk doktorsnámi í umhverfisskipulagi við University of California í Berkeley 1987.

Trausti var skipulagsfræðingur hjá Þróunarstofnun Reykjavíkurborgar 1972-79 og var verkefnastjóri við skipulagsáætlanir hjá Reykjavíkurborg, m.a. við Grænu byltinguna og gerð aðalskipulags svæðanna norðaustan við Grafarvog.

Vann í einkatíma sínum einnig að hönnun húsa og leiksvæða.

Hann var kennari í hlutastarfi sem dósent við HÍ 1988 og síðan fyrsti prófessor í skipulagi við íslenskan háskóla, verkfræðideild HÍ.

Trausti hefur verið virkur í mótun hugmynda um framtíðina, skipulag og hönnun og frumkvöðull í umræðu um ýmis álitamál í skipulagi, s.s. flugvöll á Lönguskerjum og hálendisvegamál. Þessu hefur hann miðlað með 150 greinum og 13 bókum. Helstu rit hans eru Reykjavík - Vaxtarbroddur: Þróun höfuðborgar, 1986; Hugmynd að fyrsta heildarskipulagi Íslands, 1987; Framtíðarsýn: Ísland á 21. öld, 1991; Land sem auðlind - Um mótun byggðamynsturs, 1993; Við aldahvörf - Staða Íslands í breyttum heimi, 1995 (ásamt Alberti Jónssyni); Ísland hið nýja 1997 (með Birgi Jónssyni); Borg og náttúra - ekki andstæður, heldur samverkandi eining, 1999; Vegakerfið og ferðamálin, 2000; Skipulag byggðar á Íslandi, 2002; Planning in Iceland, 2003; How the World will Change - with Global Warming, 2006, og Mótun framtíðar - Hugmyndir - Skipulag - Hönnun, 2015.

Trausti hefur fengið verðlaun í mörgum samkeppnum og margskonar aðrar viðurkenningar.

Hver eru helstu áhyggjuefnin í skipulagsmálum okkar í dag?

„Það sem ég hef mestar áhyggjur af þessa stundina er að ágangur túrista spilli mjög eftirsóttustu stöðunum okkar í þéttbýli og á landsbyggðinni. Þeir sem ganga harðast fram í hagnaði af túrisma eru í óðaönn að ganga á sögu og sérkenni Miðbæjar Reykjavíkur og nágrennis. Þar er verið að byggja stór hótel með alþjóðlegu yfirbragði, gömlu húsin hverfa á sama tíma og gömul og gróin fyrirtæki víkja fyrir stórmörkuðum og skyndibitastöðum. Eins eru vinsælir staðir á landsbyggðinni að breytast í moldarsvað. Mótsögnin felst í því að stórfyrirtæki í ferðamennsku eru að ganga á þá mikilvægu auðlind sem er forsenda túrismans og vinna gegn eigin atvinnugrein. Forsætisráðherrann okkar hefur bent á þetta í skynsamlegum greinum og við þurfum að spyrna við fótum því þetta er rányrkja á landi okkar og sögu.“

Fjölskylda

Fyrrv. eiginkona Trausta er Fríður Ólafsdóttir, f. 9.6. 1946, fatahönnuður og dósent við HÍ.

Dóttir Trausta og Fríðar er Hrönn Traustadóttir, f. 4.10. 1966, fatahönnuður á Selfossi, en maður hennar er Tómas Jónsson rafmagnsfræðingur og eru börn þeirra Kristófer, f. 1994, og Harpa, f. 2008.

Fyrrverandi sambýliskona Trausta er Steinunn Sigurðardóttir, f. 26.8. 1950, rithöfundur.

Dóttir Trausta og Steinunnar er Tinna Traustadóttir, f. 3.4. 1974, lyfjafræðingur í Reykjavík, en maður hennar er Ólafur Þorvaldsson læknir og eru börn þeirra Brimar, f. 2002, og Edda, f. 2014.

Foreldrar Trausta eru Gróa J. Guðjónsdóttir, f. 31.8. 1913, d. 13.3. 1982, húsfreyja í Reykjavík, og Valur Lárusson, f. 30.7. 1917, d. 28.10. 1976, skrifstofumaður, Reykjavík.