25 metrar Sundlaugin í sveitinni var ágætlega sótt þrátt fyrir Jarðböðin.
25 metrar Sundlaugin í sveitinni var ágætlega sótt þrátt fyrir Jarðböðin. — Ljósmynd/Birkir Fanndal
Sveitarstjórn Skútustaðahrepps ákvað við gerð fjárhagsáætlunnar til 2019 að loka sundlauginni í Reykjahlíð þann fyrsta janúar. Sundlaugin var tekin í notkun 1982 en síðan hefur litlu fé verið varið til viðhalds.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps ákvað við gerð fjárhagsáætlunnar til 2019 að loka sundlauginni í Reykjahlíð þann fyrsta janúar.

Sundlaugin var tekin í notkun 1982 en síðan hefur litlu fé verið varið til viðhalds. Hafa heimamenn lengi haft á orði að laugin sé að grotna niður.

Mikill leki er úr sundlaugarkerinu, sem er úr trefjaplasti, og streymir klórmengað vatn út í jarðveginn umhverfis. Vistkerfi Mývatns er gríðarlega viðkvæmt og er svæðið á rauðum lista Umhverfisstofnunar.

Ekki hefur tekist að gera við lekann þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Þá er stjórnbúnaður laugarinnar einnig úr sér genginn. Áætlaður kostnaður við endurbætur er um 150 milljónir sem sveitafélagið réð ekki við. Var því laugin tæmd og það á að laga afkomu sveitasjóðs um 10-15 milljónir á ári.

Sundkennsla barna í Reykjahlíð mun fara fram á Laugum í Reykjadal, um 35 kílómetra í burtu. Sólveig Jónsdóttir, skólastjóri Reykjahlíðarskóla segir að megnið af sundkennslu skólaársins sé búið. „Við höfðum ekkert val. Sveitarfélagið hafði ekki efni á þessari viðgerð þannig að við kenndum sund sem mest í haust.“

Umtalsverður halli var á rekstri sveitarfélagsins árið 2014 auk þess sem kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga voru miklar á árinu 2015. Hefur Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitafélaga gert athugasemdir við rekstrarstöðu sveitarfélagsins. benedikt@mbl.is