Virðing Frá mótmælunum í Köln.
Virðing Frá mótmælunum í Köln. — AFP
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sætir nú mikilli gagnrýni heima fyrir vegna stefnu sinnar í málefnum útlendinga, en þeir sem andvígir eru komu innflytjenda og flóttafólks til Þýskalands tengja nú þessa hópa við þau fjölmörgu kynferðisofbeldisatvik...

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sætir nú mikilli gagnrýni heima fyrir vegna stefnu sinnar í málefnum útlendinga, en þeir sem andvígir eru komu innflytjenda og flóttafólks til Þýskalands tengja nú þessa hópa við þau fjölmörgu kynferðisofbeldisatvik sem tilkynnt voru í borginni Köln á nýársnótt.

Fréttaveita AFP greinir frá því að þýsku lögreglunni hafi nú borist yfir 100 tilkynningar frá konum sem segjast hafa þurft að þola kynferðislegt ofbeldi, allt frá káfi til nauðgana, en um er að ræða ofbeldisverk sem framin voru af miklum fjölda karlmanna fyrir utan aðalbrautarstöðina og dómkirkjuna í Köln.

1,1 milljón sótti um hæli í fyrra

Að sögn kvennanna eru ódæðismennirnir karlmenn af arabískum eða norðurafrískum uppruna og hefur ofbeldið virkað sem vatn á myllu þeirra sem andvígir eru komu erlends flóttafólks til landsins, en samkvæmt upplýsingum sem innanríkisráðuneyti Þýskalands birti í gær sótti alls 1,1 milljón manns um hæli þar á seinasta ári og koma flestir þeirra frá Sýrlandi eða 40%.

Frauke Petry, formaður þjóðernisflokksins Alternative für Deutschland (AfD), segir árásirnar sýna vel hvaða áhrif óskipulögð hælis- og innflytjendastefna stjórnvalda hefur á líf almennings í Þýskalandi. Vonast AfD nú til þess að ná fulltrúum á sambandsþing í þremur ríkjum í sveitarstjórnarkosningum í mars.

Merkel, hvað ertu að gera?

Um 200 til 300 manns söfnuðust saman fyrir utan dómkirkjuna í Köln og kröfðust aukinnar virðingar í garð kvenna. Bar einn úr hópnum skilti sem á stóð: „Frú Merkel, hvað ertu að gera? Þetta er ógnvænlegt.“