Ísólfur Gylfi Pálmason
Ísólfur Gylfi Pálmason
Eftir Ísólf Gylfa Pálmason: "Ég man hve margir þingmenn glottu við tönn þegar ég flutti tillögu um nýtingu trjáviðar sem fellur til við grisjun árið 1995."

Það gladdi mig mjög þegar ég sá í sjónvarpsfréttum á dögunum að Bjarki Jónsson hefur, ásamt fjölskyldu sinni á Ytri-Víðivöllum í Fljótsdal, fest kaup á sögunarmyllu og breytir nú lerkidrumbum í fallegan smíðavið. Einnig er verið að setja upp þurrkunarofn og hvatt er til þess að nýta afurðir skógarins sem best enda liggja þar miklir og margvíslegir möguleikar. Nýta má ýmsar trjátegundir sem smíðavið, s.s. birki, greni, reynivið og ösp svo einhverjar trjátegundir séu nefndar.

Fyrsta þingsályktunartillaga mín, þegar ég settist á Alþingi árið 1995, fjallaði einmitt um nýtingu trjáviðar sem til fellur við grisjun. Meðflutningsmenn voru Jónas Hallgrímsson og Magnús Stefánsson. Ég man hve margir þingmenn glottu við tönn, ég vona að það hafi verið af góðvild, þegar ég flutti þessa tillögu. Kvennalistakonur og Jón Kristjánsson frá Egilsstöðum gerðu sér reyndar grein fyrir að hér var um framtíðarmál að ræða og tóku þátt í umræðunni. Það tók reyndar ekki „nema“ átta ár að koma tillögunni í gengum þingið. Það segir eitthvað um hve hratt góð þingmannamál fara í gegnum þá ágætu stofnun. Tré vaxa líka talsvert á átta árum. Ég er reyndar mjög hissa á því hve Skógrækt ríkisins hefur farið sér hægt í þessum efnum, þó hreyfing hafi verið á málinu hjá þeirri stofnun, en hér eru tækifæri fyrir nýja stjórnendur að láta til sín taka og láta hendur standa fram úr ermum. Til þess þarf vilja og aukið fjármagn.

Áðurnefndur Bjarki skógarbóndi sér fyrir sér að afurðastöðvar verði í hverjum landshluta. Hann líkir stöðunni við að vera mjólkurbóndi þar sem ekkert mjólkurbú er. Það þarf svo sannarlega að vera bækistöð í hverjum landshluta sem safnar upplýsingum um hvaða efni er til og kappkostar að koma því í verð.

Skógrækt býður upp á fjölmarga möguleika til útivistar auk ýmissa afurða sem til falla í skóginum. Þannig er fróðlegt að fylgjast með víngerð en birkisafi er tekinn úr stórum birkitrjám í mars og apríl ár hvert og einnig er sveppatínsla að verða vinsæl. Þá hefur Listaháskólinn lagt upp úr því að nemendur í vöruhönnun nýti afurðir skógarins. Félag íslenskra trjárennismiða hefur sýnt og sannað að listmuni er hægt að búa til úr íslenskum skógarviði. Ég hef spilað á gítar sem Hlynur Halldórsson í Miðhúsum hefur smíðað úr íslenskum viði og ég veit um fleiri listamenn sem smíðað hafa hljóðfæri úr íslenskum viði, t.d. Jón Marinó Jónsson hljóðfærasmiður.

Á Parísarfundinum í desember sl. voru um 40.000 manns að móta tillögur í umhverfismálum. Skógrækt er einn mikilvægasti þátturinn í kolefnisbindingu. Í eina tíð var reynt að tefla saman sauðfjárbændum og skógræktarmönnum. Sauðfé getur vel gengið í þroskuðu skóglendi, þó að það sé skaðvaldur í nýskógrækt og nauðsynlegt að allir geri sér grein fyrir því. Tillitssemi er það sem þarf því ein búgrein er ekki fremri annarri. Fjölbreytnin í landbúnaði skapar nýja möguleika og tengir saman þéttbýlis- og dreifbýlisbúa.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður og skógarbóndi í frístundum.

Höf.: Ísólf Gylfa Pálmason