Jón Magnússon
Jón Magnússon
Eftir Jón Magnússon: "Þessi hryðjuverk hafa minni afleiðingar en árásir sem hafa lamað tjáningar- og málfrelsið í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar þegar íslam á í hlut."

„Fyrir ári réðust íslamistar á ritstjórn skopblaðsins Charlie Hedbo og myrtu alla sem þar voru. Morðin réttlættu þeir með því að það væri helgur réttur þeirra að drepa alla sem gerðu grín að Múhameð spámanni og trúarbrögðum sem við hann eru kennd. Árásin var atlaga að tjáningarfrelsinu. Skilaboðin eru að allir sem leyfa sér að nýta frelsi sitt til tjáningar um íslam sem íslamistum er ekki að skapi verða teknir af lífi vegna skoðana sinna.

Heimurinn fordæmdi þessa árás á tjáningar- og ritfrelsið. Fjölmargir settu lítinn penna í barm sér eða tóku upp vígorðin „je suis Charlie“ til að sýna að þeir ætluðu ekki að láta kúga sig. Nokkru síðar voru pennarnir og vígorðin horfin og það var enginn Charlie, jafnvel ekki Charlie sjálfur. Fjölmiðlar birtu ekki myndir af þeim skopteikningum sem voru ástæða morðanna. Almenn hræðsla varð við að nýta tjáningarfrelsið þegar fjallað er um íslam.

Viðbrögð uppgjafaraflanna í Evrópu við árás vígamannanna voru m.a. að safna upplýsingum um áskrifendur að Charlie í því skyni að reyna að koma í veg fyrir að einhver þeirra gripi til aðgerða. Madrössunum og moskunum þar sem hatursáróðrinum gegn tjáningarfrelsinu og vestrænum lífsháttum er dælt út reglubundið var hins vegar ekki lokað. Það þurfti meira að koma til svo einhverjum viðbrögðum yrði beitt gagnvart þeim.

Þessi atlaga íslamista að tjáningarfrelsinu með morðunum á ritstjórn Charlie Hedboe var ekki sú fyrsta í Evrópu. Undir lok síðustu aldar var gefinn út dauðadómur á skáldið Salman Rushdie fyrir að skrifa bókina „Söngva Satans“. Salman þurfti síðan á strangri öryggisgæslu að halda og er enn á lífi, en sömu sögu er ekki að segja um japanskan þýðanda bókarinnar, sem var stunginn til bana. Ítalski þýðandinn slapp frá samskonar árás eins og norski útgefandi bókarinnar sem varð fyrir skotárás. Bókabúðir sem seldu bókina voru sprengdar eða eldur lagður að þeim. Tíu lönd bönnuðu bókina þ.ám. föðurland höfundarins, Indland.

Hollenski kvikmyndaleikstjórinn Theo van Gogh gerði kvikmyndina „Submisson“ árið 2004 um undirgefni og niðurlægingu kvenna í íslam í samvinnu við Ayaan Hirsi Ali. Theo van Gogh var skotinn til bana 2. nóvember sama ár af íslamista sem fæddist í Hollandi. Ayaan Hirsi Ali var síðan gætt vegna tíðra morðhótana. Myndin „Submission“ fæst hvergi sýnd í kvikmyndahúsum.

Í október voru tíu ár liðin frá því að danska blaðið Jyllands Posten birti kjánalegar skopteikningar af Múhameð spámanni. Það var of mikið fyrir íslamistana og ítrekað hefur verið reynt að drepa teiknarann, aðila sem tengjast Jyllands Posten og aðför gerð að norska ritstjóranum sem birti skopteikningarnar í blaði sínu. Í dag er fjallað um þessar teikningar í skólum í Danmörku en þær eru ekki sýndar og aðspurð segja skólayfirvöld að það sé gjörsamlega ónauðsynlegt. Meðvirknin og uppgjöfin er algjör á borði þótt því sé neitað í orði.

Hryðjuverk hafa ítrekað verið framin og kostað miklar mannfórnir. Í nýliðinni árás íslamista í París voru tæplega 200 einstaklingar drepnir. Nánast daglega berast fréttir af árásum íslamista víðsvegar um heiminn. Fjöldi fólks er drepinn. Þær árásir eru hræðilegur glæpur en hafa minni afleiðingar þegar til lengri tíma er litið en þær árásir sem hafa lamað tjáningar- og málfrelsið í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar þegar íslam á í hlut.

Evrópska elítan og herskarar hennar af sérfræðingum, sem og nytsamir sakleysingjar, samþykkja að tjáningarfrelsið sé skert með ógnaraðgerðum íslamistanna og trúa því enn að þeir geti talað eða keypt sig á kostnað skattgreiðenda frá vandanum, með fleiri sjóðum og styrkjum, fleiri uppeldisfræðingum og meiri fjölmenningu. Slík sýn er tálsýn, álíka gáfuleg og að henda kjötbitum í tígrisdýr í þeirri von að á endanum verði tígrisdýrið grænmetisæta.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.