Guðlaug Hrönn Björgvinsdóttir fæddist 29. október 1963. Hún lést 26. desember 2015.

Útför Guðlaugar fór fram 5. janúar 2016.

Á lífsleiðinni kynnist maður fólki sem hefur mismunandi mikil áhrif á mann, í mínu tilfelli er Guðlaug ein af þeim sem ég mun aldrei gleyma.

Ég og maðurinn minn kynntumst henni í gegnum heilsugæsluna í Árbæ, en hún fylgdi mér eftir í mæðraskoðun, heimaþjónustu og ungbarnaeftirliti með litla strákinn minn.

Fæðingin gekk erfiðlega og strákurinn minn endaði á vökudeildinni fyrstu vikuna sína og ég átti að missa réttinn á heimaþjónustu. Guðlaug hins vegar hringdi í mig og tók ekki í mál annað en að koma til okkar og sinna heimaþjónustunni í framhaldinu.

Hún kom tvisvar sinnum til okkar upp á vökudeild og í fyrra skiptið var það meira að segja á sunnudegi. Í hin skiptin kom hún heim og ég hlakkaði til að fá hana til okkar og spjalla við hana, en hún var alltaf róleg og gaf sér góðan tíma fyrir okkur litlu fjölskylduna.

Ég sagði einmitt við hana þegar hún kom í síðasta skiptið að við myndum sakna þess að fá hana ekki reglulega til okkar.

Við hittum hana í síðasta skipti í ungbarnaeftirliti í lok september, bókuðum tíma hjá henni í desember.

Það er eftirminnilegt að í öll skiptin sem við hittum hana þá var hún einstaklega hlý, áhugasöm um hvernig ég hefði það og dásamaði litla drenginn minn.

Guðlaug hjálpaði mér mikið á meðgöngunni þar sem ég kveið fæðingunni og hún var boðin og búin að gera allt fyrir mig þannig að mér liði sem best þegar kæmi að settum degi. Það er ómetanlegt að hafa fengið svona yndislega ljósmóður.

Þegar ég vaknaði í morgun sá ég minningagreinar um hana í Morgunblaðinu og að hún hefði fallið frá um jólin.

Dagurinn var fallegur til að kveðja, heiðskírt, sól og kalt.

Elsku Guðlaug, takk fyrir stutt en góð kynni. Kveðja

Ellen, mamma

Ellert Rúnars.