Samherji hefur náð að fækka slysum um 35% með samræmdum aðgerðum.
Samherji hefur náð að fækka slysum um 35% með samræmdum aðgerðum. — Morgunblaðið/Skapti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Með nýju öryggisstjórnunarkerfi og markvissum aðgerðum hefur tekist að fækka slysum umtalsvert hjá Samherja.

„Það þarf að vera ákveðið hugarfar og samvinna hjá starfsmönnum til að árangur náist í öryggismálum, en við hjá Samherja höfum náð að fækka slysum um 35% á milli ára með markvissum aðgerðum,“ segir Gunnar Rúnar Ólafsson, öryggisfulltrúi Samherja, en hann verður með erindi á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Vinnueftirlitsins um öryggismál sem haldin verður á Grand hótel á morgun, föstudag.

Gunnar Rúnar þekkir vel til öryggismála en hann hefur bæði bakgrunn sem sjómaður hjá Samherja og slökkviliðsmaður og bráðatæknir hjá slökkviliði höfuðborgarasvæðisins og slökkviliði Akureyrar.

Hann segir að öryggishegðun þurfi að vera öllum eðlileg og mikilvægt sé að starfsmenn fari ekki út fyrir ramma öryggisreglna sem settar eru, en öryggishegðun er skilgreind sem færni okkar til að lesa hættuna og taka rétta ákvörðun út frá þeim skilningi.

„Það er mitt mat að þessi þáttur þurfi að fá aukna athygli í öryggismálum fyrirtækja í sjávariðnaði. Það er mikilvægt að hafa skýr fordæmi og viðurkenningar til starfsmanna sem gera vel en það verður líka að vera agi og gagnsæi til staðar í öryggismálum til að árangur náist.“

Hann bendir á að stjórn, forstjóri, framkvæmdastjórar, verkstjórar, gæðastjórar, flokksstjórar og tæknistjórar gefi fordæmi varðandi öryggishegðun. „Það er því skylda hvers og eins að vera meðvitaður um það fordæmi sem hann þarf að sýna. En til þess að vita hvað er rétt og hvað er röng öryggishegðun þurfa reglurnar að vera skýrar og starfsmenn vel upplýstir.“

Samræmt stjórnunarkerfi

Gunnar Rúnar segir að Samherji hafi tekið öryggismálin föstum tökum á síðastliðnum árum en nú er starfrækt samræmt öryggisstjórnunarkerfi þar sem slysagreiningu og áhættumati allra starfsstöðva er safnað saman. Áhersluatriði í úrbótum öryggismála eru greind út frá slysatíðni og staðsetningu slysa. „Öryggisstjórnunarkerfið er hjá öllum landvinnslunum með sameiginlegan gagnagrunn þar sem safnað er saman öllum upplýsingum um slys.“

Hann segir að þann árangur sem Samherji hafi náð í fækkun slysa megi aðallega þakka starfsfólkinu. „Í uppbyggingu á svona kerfi auðveldar það mikið þegar starfsfólkið er reiðubúið að taka þátt. Það er með í ráðum þegar unnið er að úrbótum og við fáum líka ábendingar frá starfsmönnum um það sem betur má fara. Það er auðvitað allra hagur að þessir hlutir séu í lagi og við náum að fækka slysum.“

Greiningin er gott verkfæri

Með öryggisstjórnunarkerfinu er mun betra utanumhald og búið að setja upp ákveðið ferli ef slys verða. „Fyrst og fremst erum við að greina slysin með meiri nákvæmni og einbeita okkur að því hvar slysin gerast,“ segir Gunnar Rúnar. „Við sáum til dæmis á gögnunum að töluvert var af augn-slysum. Núna höfum við sett skyldu um notkun öryggisgleraugna á þeim svæðum þar sem slysin hafa orðið. Þannig fyrirbyggjum við að fleiri slys verði á þessu tiltekna svæði.“

Í gagnagrunninum er auðveldlega hægt að fylgjast með slysatíðni og hvort slysum er að fækka eða fjölga. „Til að mynda sáum við mörg hálkuslys á leið í og úr vinnu á síðustu árum. Það var brugðist við því með því að kaupa mannbrodda fyrir alla starfsmenn. Greiningin er gríðarlega gott verkfæri og gefur okkur tækifæri til að finna út hvar áherslurnar eiga að vera.“

Samvinna allra aðila er leiðin til árangurs

Gunnar Rúnar segir að þó mikill árangur hafi þegar náðst og fyrirtækið sé á réttri leið í fækkun slysa þá sé Samherji hvergi nærri hættur í aðgerðum. „Við erum að fara af stað með stórt verkefni í samvinnu við forvarnardeild Sjóvár sem miðar að því að fækka slysum í skipaflota okkar. Þar ætlum við að nýta okkur reynsluna af fyrri aðgerðum en reynslan sýnir að samvinna allra aðila er leiðin til árangurs.“