Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur veitt 45 milljóna króna styrk til að efla þjónustu göngudeildar barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) við börn sem þurfa þjónustu vegna alvarlegra geðrænna einkenna, s.s.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur veitt 45 milljóna króna styrk til að efla þjónustu göngudeildar barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL) við börn sem þurfa þjónustu vegna alvarlegra geðrænna einkenna, s.s. þunglyndis, sjálfsvígshugsana og sjálfskaðandi hegðunar. Ráðherra tilkynnti Landspítala um fjárveitinguna í lok nýliðins árs að því er segir í frétt frá velferðarráðuneytinu.

Styrkurinn er veittur á grundvelli tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem ráðherra lagði fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi. „Þar kemur m.a. fram að um 120 börn bíði eftir þjónustu BUGL og að meðalbiðtími eftir þjónustu sé um níu mánuðir. Mikilvægt sé að stytta biðina og sinna betur ungum börnum og fjölskyldum þeirra. Vísað er til þess að fjöldi rannsókna sýni að snemmtæk inngrip skili mestum árangri og að meðferð taki skemmri tíma en ella ef fljótt er brugðist við,“ segir í frétt ráðuneytisins.

Kristján Þór segir ánægjulegt að geta aukið fjármuni til að ráðast í þetta verkefni fyrr en áætlað var.