Einar fæddist í Vestmannaeyjum 7.1. 1920 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru undan Eyjafjöllum, hjónin Sigurjón Ólafsson frá Núpi og Guðlaug Einarsdóttir frá Raufarfelli.

Einar fæddist í Vestmannaeyjum 7.1. 1920 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru undan Eyjafjöllum, hjónin Sigurjón Ólafsson frá Núpi og Guðlaug Einarsdóttir frá Raufarfelli.

Eiginkona Einars var Hrefna Sigurðardóttir frá Siglufirði sem lést árið 2000 en sonur þeirra er Óskar Einarsson markaðsstjóri.

Einar var í barna- og gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum og lauk síðan vélstjóraprófi. Auk þess stundaði hann nám við Íþróttaskólann í Haukadal 1939 og tók minna fiskimannapróf við Stýrimannaskólann í Reykjavík 1943.

Einar var vélstjóri á bátum frá Vestmannaeyjum í byrjun starfsferils síns til 1945. Þá festi hann kaup á báti, ásamt vini sínum, Óskari Ólafssyni, skipstjóra frá Garðstöðum, en þeir stunduðu útgerð og fiskverkun til ársins 1956.

Um þær mundir hafði Ísfélag Vestmannaeyja átt í miklum rekstrarerfiðleikum um nokkurt skeið. Útgerðarmenn 10 báta í Eyjum tóku þá höndum saman um endurreisn þessa hálfrar aldar gamla frystihúss, keyptu þar hlutafé og lögðu þar upp afla báta sinna. Ráðin var ný stjórn og leitað til Útvegsbankans í Eyjum til aðstoðar við endurreisnina. Einar var þá ráðinn forstjóri Ísfélagsins, stjórnaði þar farsælli endurreisn og átti eftir að vera forstjóri félagsins á árunum 1957-87 á tímum umtalsverðra breytinga á sjósókn og fiskvinnslu hér á landi.

Um Einar og fyrirtækið sagði Sigurður heitinn Einarsson, síðar forstjóri Ísfélagsins, í minningargrein: „Árin þar á undan hafði starfsemin verið í lægð en þetta breyttist verulega með Einari og félögum hans. Þeir rifu félagið upp, útveguðu nýjar vélar, bættu húsakost og juku framleiðsluna verulega. Í höndum Einars varð Ísfélagið fljótlega eitthvert best rekna frystihús á landinu.“

Einar sat auk þess í stjórnum nokkurra íslenskra fyrirtækja sem tengdust sjávarútvegi en einna lengst í stjórn Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna.

Einar lést 13.10. 1998.