Strókur Aska getur truflað flug.
Strókur Aska getur truflað flug.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sú breyting hefur verið gerð á reglum um flugstjórn, frá því gaus í Eyjafjallajökli, að flugrekendur taka nú ákvarðanir um flug véla eftir öskugos. Svæðum þar sem spáð er ösku er ekki lokað sjálfkrafa.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sú breyting hefur verið gerð á reglum um flugstjórn, frá því gaus í Eyjafjallajökli, að flugrekendur taka nú ákvarðanir um flug véla eftir öskugos. Svæðum þar sem spáð er ösku er ekki lokað sjálfkrafa. Ekki hefur reynt á þessar nýju reglur. Á komandi hausti verður stór alþjóðleg æfing vegna viðbragða við eldgosi á Íslandi.

Stórir jarðskjálftar í Bárðarbungueldstöðinni í Vatnajökli hafa leitt til umræðu um að þar geti orðið annað eldgos á næstu árum, jafnvel mikil öskugos. Síðustu árin hefur verið unnið að endurskoðun viðbragðsáætlana. Árni Guðbrandsson, aðalvarðstjóri í flugstjórnarmiðstöð Isavia, segir raunar að fyrstu viðbrögð séu að loka svæði til að vernda þær flugvélar sem eru á lofti. Ferillinn er sá að Veðurstofa Íslands lætur Flugstjórnarmiðstöðina í Reykjavík og London VAAC, sem er öskuspárdeild bresku veðurstofunnar, vita um leið og staðfest er að eldgos er að hefjast eða þegar hafið. Flugstjórn afmarkar 120 sjómílna hring um eldstöðina og vísar allri flugumferð út af svæðinu. Þetta á að taka skamman tíma.

Um leið er viðbragðsáætlun Isavia vegna eldgosa virkjuð. Ef um hraungos er að ræða er líklegast að svæðið minnki fljótt en ef gosið er undir jökli gerir Veðurstofan spálíkan um dreifingu ösku eftir vindaspá og gögnum úr mælitækjum. Samkvæmt upplýsingum Isavia hefur mælitækjum verið fjölgað mjög frá eldgosinu í Eyjafjallajökli og auk þeirra eru notaðar gervihnattamyndir og fleiri upplýsingar. Ísland er á svæði London VAAC og fer öskuspárdeildin strax í að útbúa og dreifa sinni spá.

Hluti af daglegu starfi

Sú breyting hefur orðið frá öskugosinu í Eyjafjallajökli að nú ákveða flugrekendur hvort vélar þeirra fljúga í gegnum svæði þar sem spáð er ösku. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir að flugfélagið fái nú mun fjölbreyttari upplýsingar og frá fleiri aðilum en áður og það tryggi nákvæmara mat og betri ákvarðanir um flug. „Við erum með verkferla til að grípa til ef til eldgoss kemur sem miða öðru fremur að því að leggja mat á þá áhættu sem skapast. Þessir ferlar taka reyndar mið af daglegu starfi, því breytilegt veðurfar og aðrar aðstæður kalla frá degi til dags á stöðugt mat flugrekenda á aðstæðum til að tryggja öryggi,“ segir Guðjón.

Isavia æfir mánaðarlega viðbrögð við eldgosi. Betri reynsla á að fást á kerfið á stórri alþjóðlegri æfingu sem halda á í október. Þá verða æfð viðbrögð við eldgosi á Íslandi.