Ágústa segist vera í draumastarfinu en gæti, ef hún þyrfti, hugsað sér að reka flottasta hótel Íslands.
Ágústa segist vera í draumastarfinu en gæti, ef hún þyrfti, hugsað sér að reka flottasta hótel Íslands. — Morgunblaðið/Eggert
Janúar er annasamasti tími ársins hjá líkamsræktarstöðvunum og þarf Ágústa Johnson að halda mörgum boltum á lofti. Hverjar eru stærstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin? Að ná í og halda í gott fólk er alltaf stærsta áskorunin.

Janúar er annasamasti tími ársins hjá líkamsræktarstöðvunum og þarf Ágústa Johnson að halda mörgum boltum á lofti.

Hverjar eru stærstu

áskoranirnar í rekstrinum

þessi misserin?

Að ná í og halda í gott fólk er alltaf stærsta áskorunin. Það stendur allt og fellur með því að vera með rétta fólkið á réttum stöðum.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Sótti góðan fund í september sl. í Madrid. Þar var m.a. Mike Alpert, forstjóri hjá Claremont Club í Los Angeles, sem er geysilega flott og framsækið heilsuræktarfyrirtæki. Hann gaf okkur góða innsýn í lykilþætti í stjórnun fyrirtækisins sem hefur skilað þeim eins langt og raun ber vitni.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Hef lesið og gluggað í ófáar bækur um leiðtogahæfni, liðsheild og stjórnun. Margar fínar og sumar síðri en hef í gegnum árin nýtt mér mola hér og mola þar úr þeim. Ein sem ég hef nýlega notað og reynst okkur afar vel er The 4 Disciplines of Execution . Aðrar sem ég hef líka mikið dálæti á eru: The Five Dysfunctions of a Team og Creating Magic .

Hver myndi leika þig í

kvikmynd um líf þitt og afrek?

Myndi vilja fá einhvern töffara í hlutverkið, t.d. Catherine Zeta Jones eða Penelope Cruz. Þær eru flottar leikkonur og myndu skila hlutverkinu fantavel er ég viss um.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já, eins vel og ég get. Stunda fjölbreytta líkamsrækt, aðallega hóptíma í Hreyfingu og göngutúra með hundinn. Reyni að velja 80% hollustu í mat, fer reglulega í nudd og gæti þess að halda reglu á svefnvenjum.

Ef þú þyrftir að finna þér

nýjan starfa, hvert væri draumastarfið?

Ég er í draumastarfinu. En ef ég yrði að finna mér annað yrði það að vera stjórnunarstarf, – væri til í að reka flottasta hótel á Íslandi.

Ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu, hvað myndirðu læra?

Held mig myndi ekki langa til að setjast aftur á skólabekk. En ef gráðan kæmi til mín fyrirhafnarlaust mætti það vera eitthvað tengt margmiðlun og markaðsfræði.

Ef þú værir einráð í einn dag, hvaða lögum myndirðu breyta?

Einfalda og lækka skatta, sérstaklega tryggingagjald og virðisaukaskatt.

Hin hliðin

Nám: Verslunarskólinn, stúdent 1983; University of Colorado, íþrótta- og tómstundafræði 1986.

Störf: Stofnaði Stúdíó Jónínu og Ágústu 1986; framkvæmdastj. Stúdíós Ágústu og Hrafns frá 1989; famkvæmdastj. Hreyfingar frá 1997.

Áhugamál: Heilsa, heilbrigt líferni, fjölskyldan, skíði, eldamennska og að ferðast og sjá nýja staði.

Fjölskylduhagir: Gift Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Börn: Anna Ýr 24, Rafn Franklín 21, Sonja Dís 13, Þórður Ársæll 13.