[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Víðir Sigurðsson vs@mbl.is „Ég er bjartsýn á að við í Doncaster getum farið beint í hóp fjögurra efstu liðanna.

Viðtal

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is „Ég er bjartsýn á að við í Doncaster getum farið beint í hóp fjögurra efstu liðanna. Það verður allavega erfitt fyrir alla að sigra okkur því við verðum með duglegt og baráttuglatt lið,“ sagði knattspyrnukonan Katrín Ómarsdóttir við Morgunblaðið í gær

Um áramótin gekk hún til liðs við Doncaster Belles Rovers, nýliða í ensku atvinnudeildinni, WSL, sem þó eru með bakgrunn sem eitt öflugasta kvennafélag sögunnar á Englandi. Katrín samdi til eins árs með möguleika á árs framlengingu. Hún hefur sem kunnugt er leikið með Liverpool í þessari sömu deild undanfarin þrjú ár og varð enskur meistari með liðinu 2013 og 2014.

Þótt ekki væri opinberað fyrr en á gamlársdag að Katrín myndi ganga til liðs við Doncaster var það komið á hreint nokkru áður. „Já, það var það í raun fljótlega eftir að tímabilinu lauk í haust en þetta var síðan endanlega frágengið um áramótin. Mér leist strax vel á félagið, bæði vegna þess að það er með mikla sögu í enska kvennafótboltanum, og vegna þess að þar er mikill metnaður fyrir því að ná langt. Svo er aðstaðan frábær, heimavöllurinn, Keepmoat Stadium, er glæsilegur og nú verður þetta allt saman á grasi, ekki á gervigrasi eins og í Liverpool,“ sagði Katrín.

Keepmoat Stadium tekur 15 þúsund áhorfendur og er aðeins níu ára gamall. Hann hefur verið notaður undir leiki enska 21-árs landsliðsins í karlaflokki og er heimavöllur karlaliðs Doncaster Rovers sem leikur í ensku C-deildinni.

Langtímaáætlun í gangi

„Mér líst mjög vel á þjálfarann, Glen Harris, sem tók við liðinu fyrir síðasta tímabil og stýrði því upp. Á bak við félagið eru líka öflugir aðilar með langtímaáætlun í gangi. Þetta er mjög svipað og þegar ég kom til Liverpool fyrir þremur árum. Þeir eru að fara að byggja sérstakt æfingasvæði fyrir kvennaliðið og í heildina mjög spennandi áskorun að koma til Doncaster og taka þátt í þessu. Síðan er ákaflega gaman að spila í þessari deild sem verður alltaf sterkari og áhuginn fyrir henni eykst ár frá ári, ekki síst í kjölfarið á frábærum árangri enska landsliðsins á HM síðasta sumar,“ sagði Katrín en fyrsti leikur Doncaster í deildinni í ár verður gegn Englandsmeisturum Chelsea á föstudaginn langa, 24. mars. Níu lið leika í deildinni í ár í stað átta áður og þeim verður fjölgað í tíu fyrir tímabilið 2017. Tíu lið leika í WSL2 sem var stofnuð 2014 en þar fyrir neðan er svo tvískipt 24 liða „úrvalsdeild“ sem er þá efsta deild áhugamannaliða.

Doncaster varð enskur meistari 1992 og 1994 og bikarmeistari sex sinnum á árunum 1983 til 1994. Eftir það dofnaði aðeins yfir liðinu sem þó var jafnan í efstu deild og eitt af átta stofnliðum WSL árið 2011.

En síðustu árin hefur ýmislegt gengið á í Doncaster. „Já, í upphafi tímabilsins 2013 var tilkynnt að Manchester City myndi koma í stað Doncaster í deildinni árið 2014 og liðið lék því heilt tímabil nánast til einskis. Í kjölfarið hefur það tekið liðið tvö ár að komast aftur upp. Þetta snerist allt um peninga, Manchester City setti svo mikið í kvennaliðið að það varð að fá sæti í deildinni og Doncaster var látið víkja. Þetta var að sjálfsögðu afar ósanngjarnt,“ sagði Katrín.

Hún er einn þriggja lykilmanna sem fengnir hafa verið til Doncaster til að koma liðinu í efri hluta deildarinnar á þessu ári. Hinar tvær komu líka frá Liverpool, framherjinn Natasha Dowie og 41 árs varnarmaður, Becky Easton, en þær eiga báðar fjölda landsleikja að baki fyrir England.

„Becky er ótrúleg, missir ekki úr æfingu og það er mikil hvatning að æfa með henni á hverjum degi. Natasha er mjög öflugur framherji og það er frábært að hafa þær báðar með sér í þessari baráttu,“ sagði Katrín.

Ætlar á EM og HM

Hún náði ekkert að spila með landsliðinu á síðasta ári en meiðsli trufluðu hana hluta tímabilsins. Katrín hefur spilað 64 landsleiki og skorað í þeim 10 mörk og ætlar sér mun lengri feril í landsliðstreyjunni. „Það er alveg á hreinu. Mig langar ótrúlega mikið til að spila aftur fyrir Íslands hönd og vonandi gengur það eftir á árinu. Ég vil komast á EM 2017 og HM 2019. Þetta er hvort tveggja á fimm ára planinu hjá mér,“ sagði Katrín Ómarsdóttir.
Katrín Ómarsdóttir
» Hún er 28 ára miðjumaður og lék með KR til 2009 en síðan með Kristianstad í Svíþjóð og Orange CW í Kaliforníu.
» Katrín lék með Liverpool 2013 til 2015 og varð tvisvar enskur meistari með liðinu.
» Hún á að baki 64 landsleiki og hefur skorað 10 mörk og lék með Íslandi á EM 2009 og 2013.